Russian Legion er að leita eftir tveimur fótfráum smávöxnum “front” leikmönnum. Ekki er krafist mikillar reynslu í litbolta því það er verið að leita eftir hæfileikamönnum til að æfa með liðinu sem verða þjálfaðir í litbolta af einum mesta strategíumanni litboltans, fyrirliða og eiganda liðsins, Sergey Leontiev.

Inntökupróf verða í London í janúarlok eða febrúarbyrjun.

Þeir tveir sem verða valdir munu gera samning við liðið og verður ætlast til þess að þeir flytjist til Moskvu. Í boði er 6 mánaða samningur sem hljóðar upp á íbúð og uppihald, svo og ferðakostnað við að flytjast til Moskvu og heim aftur, verði samningi ekki framlengt eftir þessa 6 mánuði. Samningsbundnir leikmenn munu einnig ferðast með liðinu og keppa í öllum helstu mótum í Bandaríkjunum og Evrópu án persónulegra útgjalda. Til viðbótar verður einnig um ákveðin mánaðarleg útborgum laun að ræða. Í boði eru lífskjör, þ.e. íbúð og uppihald og laun, sem fyllilega jafnast á við það sem gerist í stórborgum Evrópu og Bandaríkjanna.

Það er öllum opið að reyna sig í inntökuprófunum en Sergey hefur gefið út að hann sé að leita eftir smávöxnum hlaupagikkjum til að spila “front”.

Til að fá nánari upplýsingar um stað og stund úrtökuprófs og til að skrá sig í prófið er bent á Pete Robinson, auglýsingastjóra litboltatímaritsins Paintball Games International. Pete, eða Robbo eins og hann er alltaf kallaður, er einnig liðsstjóri og þjálfari eins besta liðs Bretlandseyja, NeXus. Netfang hans er robbo@aceville.com.

Russian Legion var stofnað 1996 af bankastjóranum Sergey Leontiev, sem er efnaður maður og hefur hann frá upphafi staðið straum af rekstrarkostnaði liðsins. Hann hefur ráðið framkvæmdastjóra, Alexander Tarando, til að sjá um daglegan rekstur og er liðið nú með litboltaverslun og litboltavöll sem tekjugrundvöll til að auðvelda liðinu tilveru sína.

Frá 1998 hefur RL verið með fremstu litboltaliðum heims og er það fyrst og fremst vegna þess að Sergey hefur gert liðsmönnum sínum kleift að stunda íþróttina af fullri alvöru og verið potturinn og pannan í mjög kröfuhörðu og skipulögðu þjálfunarprógrammi og spilastíl. Þó RL hafi síðustu 2 -3 ár komist í úrslit nær allra stórmóta sem þeir hafa tekið þátt í hefur liðið þó aldrei unnið þau mót en hinn “stragegíski” og agaði spilastíll þeirra hefur einnig verið sagður Akkillesarhæll liðsins, þar sem frjálslegri lið hafa unnið þá í úrslitaviðureignunum. Sergey og Robbo eru miklir vinir og hafa þeir í sameiningu gjörbreytt því hvernig “professional” litboltalið hugsa um þjálfun og undirbúning.

Að sögn Robbo's hefur Sergey eytt haustinu síðan í Campaign Cup, þar sem þeir biðu lægri hlut fyrir Dynasty í úrslitum, í að hugsa stöðuna upp á nýtt og yfirvinna þennan veika blett á liðinu. En hvernig sem á málin er litið, er Russian Legion eitt af örfáum raunverulegum atvinnuliðum litboltans og sannarlega eitt af 5 bestu liðum heims.

Heimasíða RL : http://www.russianlegion.ru/English/command