Sælir allir,

Eins og margir vita sem spila paintball reglulega þá var brotist inní bíl fyrir utan heima hjá mér og græjunum mínum stolið. Þetta var í ágúst. Síðan þá er ég búinn að standa í strögli við tryggingarfélagið mitt vegna bóta á búnaði.

Í reglum um litmerkibyssur nr 464 26.júní 2000 segir orðrétt í 1-3. gr.
**************************************************
Gildissvið
1. gr.

Reglur þessar gilda um kolsýru-, loft- og fjaðurbyssur sem ætlaðar eru til notkunar í litboltaleik. Skilyrði þess að ofangreindar merkibyssur, falli undir reglurnar en ekki ákvæði vopnalaga um loftbyssur, er að þær séu eingöngu hannaðar til að skjóta litboltum sem eru a.m.k. 16 mm í þvermál.

2. gr.
Kúlur í merkibyssur, sem samanstanda af gelatínhúð o.fl. og innihalda litarefni, eru ekki háðar ákvæðum vopnalaga. Reglur vopnalaga taka ekki til hleðslukúta og -hylkja sem framleidd eru sérstaklega fyrir litmerkibyssur.

Almenn ákvæði
3.gr
Notkun litmerkibyssa er bönnuð nema á afmörkuðum viðurkenndum svæðum. Litmerkibyssur skulu vera í eigu fyrirtækis eða félagasamtaka sem hafa litboltaleik að markmiði og hafa fengið viðurkenningu ríkislögreglustjórans. Slík félög skulu hafa aðgang að öruggum geymslum fyrir litmerkibyssur og hlutum er þeim fylgja og halda um þá skrá.
Umsjónarmenn hvers félags bera ábyrgð á útlánum litmerkibyssa og að þátttakendur í leik beri sérbúnar andlitshlífar til að koma í veg fyrir meiðsli.
**************************************************
Á grundvelli þessara greina tel ég augljóst að það eina sem félögin þurfi að eiga eru merkjararnir sjálfir. Allur annar búnaður má vera í eigu einstaklinga. Um þessa túlkun snýst allt þetta mál mitt hjá tryggingunum. Um þetta erum við ósammála. Það er greinilegt að það eru fleiri sem eru mér ósammála, því að hjá Lögreglunni í Reykjavík starfar maður í vopnaeftirlitsdeild sem hefur staðfest skilning tryggingarfélagsins á þeirra túlkun. Það sama gerir sá sem sama starfi gegnir hjá Ríkislögreglustjóra.
Því er bara eitt sem hægt er að gera í þessu máli að skrifa Dómsmálaráðuneytinu bréf sem biður um frekari skýringar á þessum reglum.

Þetta er skrifað til að benda ykkur öllum á að sértryggja allan litboltabúnað sem þið eigið. Það er ótrúlegt hvað það kostar að endurnýja hann allan. Ótrúlegt hvað maður getur sankað að sér að búnaði á 2 1/2 ári. Það er ekki víst að heimilistryggingar nái yfir litboltabúnað líka. Það þarf þá að koma sérstaklega fram í tryggingunni.

Ég er búinn að skrifa bréf til ráðuneytisins og biðja um frekari skýringar á þessu. Það er betra að fá þetta á hreint í eitt skipti fyrir öll í stað þess að vera í einhverju lottói í hvert sinn sem einhverju er stolið af okkur.

BTW. Það eru fundarlaun í boði fyrir allan búnaðinn minn. 25.000 kall fyrir þann sem getur bent á eða haft uppá öllum græjunum mínum.

Bestu kveðjur,

Xavie