Ég var að lesa grein á www.mbl.is sem mér finnst vera frekar skondin. Greinin ber titilinn “Linux engin ógn fyrir Microsoft” og finnst mér Elvar Þorkelsson framkvæmdarstjóri Microsoft á Íslandi koma með vægast sagt undarleg ummæli.

Eftifarandi texti er tekinn beint af www.mbl.is
___________________________________________ _____

Tölvur og tækni | Morgunblaðið | 6.3.2003 | 5:30


Linux engin ógn fyrir Microsoft

Elvar Þorkelsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, segir að Microsoft standi ekki ógn af notkun Linux hér á landi. “Frá árinu 2001-2002 varð 118% aukning í sölu Windows-miðlara hér á landi. Það er því ekki að sjá að Linux hafi nokkur einustu áhrif, nema í jákvæða átt,” segir Elvar en aukning sölu Microsoft á milli þessara ára hér á landi almennt var 97% að hans sögn.
Elvar segir að Linux hafi fyrst og fremst verið notað hér á landi sem stýrikerfi áhugamanna, en einnig undir vefi eða önnur kerfi sem ekki teljast “mission critical”. “Þekking á Linux er takmörkuð, sem veldur því að útbreiðsla þess er minni en ætla mætti, hvort heldur hér á landi eða annars staðar.” Aðspurður segir hann að Microsoft hafi enga ákveðna stefnu varðandi það hvernig hugsanlegri samkeppni vegna aukinnar útbreiðslu opins hugbúnaðar verði mætt.

“Í sjálfu sér höfum við enga stefnu í þessa veru, aðra en þá að vera með besta hugbúnaðinn á hverjum tíma, sem styður opna staðla og réttlætir hina hóflegu verð lagningu sem í gangi er. Stefna okkar er eins og ég segi er að vera ávallt með besta og hagkvæmasta hugbúnaðinn sem völ er á.” Eitt verkefni Elvars í starfi sínu hjá Microsoft á Íslandi er að ýta undir umræðu um löglega notkun hugbúnaðar en Elvar segir að Íslendingar séu flestir hverjir ekki með löglega fengnar útgáfur hugbúnaðar í notkun, og þá sé ekki eingöngu verið að tala um hugbúnað frá Microsoft.

“Flytji menn sig yfir á annan hugbúnað, hvort heldur ókeypis eða ekki, gerir það menn eftir sem áður jafnseka um athæfið. Það er rangt hugarfar, hver svo sem á í hlut að svíkja einhvern um eitthvað sem hann hefur skv. gildandi skilmálum rétt á að fá. Þetta er eins og með greiðslu skatta, að þó að þú hafir ekki borgað skattana um árið, og flutt til útlanda og borgað þar lægri skatta þá skuldar þú ennþá skattana í heimalandinu,” segir Elvar.

Hann segir að samkeppnisforskot Microsoft á markaðnum sé fyrst og fremst byggt á gæðum, þekkingu, stuðningi samstarfsaðila og hagkvæmni. “Neytendur eru fullkomlega hæfir til að meta það hvað þeim þykir best hverju sinni. Það er markmið Microsoft að bjóða alltaf besta hugbúnaðinn á sanngjörnu verði,” sagði Elvar Þorkelsson að lokum.
_______________________________________________ _

kveðja,
Alli