Ég var að fá póst frá Ormsson sem hljómar svona

Kæri viðskiptavinur,


Mikil eftirvænting ríkir nú í Evrópu vegna komu hinnar nýju Nintendo Wii leikjatölvu. Sala vélarinnar í Bandaríkjunum og Japan hefur farið framúr björtustu vonum og víðast hvar seldist fyrsta upplag vélarinnar upp á fáeinum klukkustundum. Ljóst er að eftirspurn er meiri en framboð á vélunum um heim allan – og stefnir í viðlíka ástand þegar vélin verður gefin út í Evrópu þann 8. desember.

Þrátt fyrir allar okkar tilraunir til að mæta eftirspurn vegna komu Nintendo Wii, er okkur nú endanlega ljóst og hryggir mjög að tilkynna að við munum ekki fá afhent það magn sem til stóð fyrir 8. desember. Á útgáfudegi munum við einungis fá mjög takmarkað magn af vélum og því munum við ekki geta afgreitt allar þær pantanir sem okkur hafa borist, þann dag.

Þeir sem fá vélina þann 8. desember verða dregnir úr hatti. Við munum tilkynna þeim það á fimmtudagsmorgun, sem fá vélina afhenta á útgáfudegi. Aðrir þurfa blessunarlega ekki að bíða mjög lengi, því næsta sending af vélum kemur strax í næstu viku. Um leið og nákvæm tímasetning liggur fyrir höfum við samband við þá sem eftir verða á forpöntunarlistanum – og munu þeir eftir sem áður hafa forgang til kaupa á vélinni.

Wii leikir verða boðnir til sölu 8. desember eins og til stóð. Framboð af leikjum verður ágætt og mun betra en af vélunum sjálfum. Þeir sem hafa pantað tiltekna leiki eða aukahluti með vélunum fá þá frátekna, hvort sem þeir fá vélina afhenta þann 8. eða ekki. Annars gildir um leikina sú ágæta og einfalda regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Aukahlutir fyrir Wii vélina, þ.e. fjarstýringar, nun-chuk, aukatengingar og slíkt, verða eins og vélin sjálf í mjög takmörkuðu upplagi. Því munu þeir fyrst um sinn einungis verða seldir með vélunum, hámark eitt stykki af hverjum aukahlut með hverri seldri vél.

Vonandi skilur þetta bréf ekki eftir of margar spurningar. Eins og áður sagði, höfum við gert allt sem í okkar valdi stendur til að fá sem flestar vélar fyrir jól. Nintendo getur ekki staðið við þau loforð sem okkur voru gefin. Vitað er að framboð verður mun betra eftir áramót en við útgáfudag og fram til áramóta ríkir allsherjarskortur á Wii tölvunni um allan heim. Stórum verslunum víða í Evrópu verður einnig skammtað mjög naumt og er hart barist um vélarnar víðast hvar.
Don't eat yellowsn0w!