Forsvarsmenn japanska hátæknifyrirtækisins Sony óttast að ný leikjatölva fyrirtækisins, PlayStation 3, komist ekki á markað í vor eins og áætlað var. Ástæðan fyrir því er sú að enn á eftir að gefa leyfi fyrir því að nota ýmsar tækninýjungar sem verða í nýju leikjatölvunni, þar á meðal Blue-Ray geisladrif.

Í nýju leikjatölvu Sony verður, auk þess að spila leiki, hægt að spila tónlistardiska og horfa á DVD-myndir en það er nú þegar hægt að gera með PlayStation 2 leikjatölvunni.

Verði raunin hins vegar sú að leikjatölvan komist ekki á markað með vorinu óttast forsvarsmenn fyrirtækisins að Microsoft og Nintendo geti náð auknu forskoti í leikjatölvubaráttunni. „Við horfum til þess að setja tölvuna á markað í vorinu. Við höfum samt ekkert látið uppi um hvar hún fer fyrst á markað,“ sagði talsmaður Sony. „Við bíðum fram á síðustu mínútu (eftir samþykkir fyrir tækninýjungunum) en svo getur farið að við frestum því að setja leikjatölvuna á markað ef niðurstaða liggur ekki fyrir fljótlega,“ sagði hann.

Yuta Sakurai, sérfræðingur hjá japanska verðbréfafyrirtækinu Nomura, bjóst hins vegar við Sony reyni að setja tölvuna í síðasta lagi á markað í Japan í byrjun sumar eða um það leyti sem sumarfrí hefst hjá skólabörnum í júlí en gera má ráð fyrir því að það auki sölumöguleika tölvunnar.

Þá telja aðrir sérfræðingar líklegt að PlayStation 3 leikjatölvan frá Sony líti ekki dagsins ljós í Bandaríkjunum fyrr en í nóvember eða fyrir Þakkargjörðarhátíðina. Leikjatölvan mun hins vegar ekki koma á markað í Evrópu fyrr en í byrjun árs 2007.

„Enginn býst lengur við því að leikjatölvan komi á markað í vor,“ sagði annar sérfræðingur í Japan.

Gengi hlutabréfa í Sony hafa lækkað nokkuð undanfarið, m.a. vegna tafa á markaðssetningu leikjatölvunnar. Lækkaði gengi hlutabréfanna um 3,64% í kauphöllinni í Tókýó í dag.

„Ef markaðssetningin dregst frekar á langinn getur það haft neikvæðar afleiðingar í för með sér hvað varðar gengi hlutabréfa í fyrirtæki,“ sagði Hitoshi Kuriyana, sérfræðingur hjá Merrill Lynch
http://mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1186288

hvað finnstykkur um þetta mál???