Nintendo Wii Fátt er nú vitað um tæknilegar staðreyndir Nintendo Wii, ég ætla ekki að fara neitt út í það enda ætla ég frekar að líta á skemmtanagildi Nintendo Wii. En þó er greinilegt að Wii mun ekki verða grafíkmonster eins og Xbox 360 og PS3, enda er henni ekki ætlað að vera það. Í raun má segja að Nintendo séu að halda aftur af sér hvað varðar grafíkstríðið til að einbeita sér og fá aðra leikjaframleiðendur til að einbeita sér að því sem því miður hefur dalað og fengið aftursætið þegar kemur að grafíkstríðinu: skemmtanagildi.

Nintendo Wii er lítil og nett leikjatölva sem er jú akkúrat það, leikjatölva. Hún er ekki multimedia megasystem og hún er ekki powerhouse. Hún hefur innbyggt flash memory en hefur einnig SD cards slots til að bæta við stærð geymslusvæðisins. Hún spilar Wii leiki, eins og segir sig sjálft, sem munu vera á DVD diskum en einnig Gamecube leiki, sem eru á minidiscs. Wii er með selfloading discslot að framanverðu en þar fyrir neðan er flipi sem geymir SD kortin og SYNC takka sem samhæfir allar Wii fjarstýringarnar sem eru í herberginu. Sem sagt til að Wii viti hversu margar þær eru og hvar þær eru. Orðrómur hefur verið á kreiki um að þarna leynist einnig myndavél því að á síðustu E3 sýningu staðfestu Nintendo að fólk á eftir að geta sett andlitin á sér á karaktera í vissum leikjum, svo sem Wii-sports sem er eins konar íþróttademó fyrir tölvuna, sem og haft andlitin á sér í teiknimyndaformi á netinu (user info - profile).

Ofan á Wii er svo annar flipi sem inniheldur tengin fyrir Gamecube fjarstýringarnar því eins og kom fram hér áður, þá spilar hún GC leiki eins og ekkert sér. Einhverjir halda að Wii sé bara beefed up Gamecube, kannski er það satt, en IBM sem framleiða örgjörvan fyrir tölvuna segja að það sem við höfum séð hingað til er bara toppurinn á ísjakanum. Nintendo hafa verið rosalega leyndardómsfullir hvað varðar þessa tölvu. Hún var kölluð Revolution fyrst og fólk eyddi tímunum saman og jafnvel dögunum að leita að vísbendingum á einkaleyfisstofu Bandaríkjanna. Þar kom fljótlega loks í ljós að fjarstýringin hefði hreyfiskynjun. En í vel langan tíma sáust ekki nein screenshots úr leikjum, engin video og engar upplýsingar um afl tölvunnar. En daginn fyrir E3 í fyrra láku myndir af tölvunni á netið. Loksins sá fólk hana. Nintendo kynntu hana smávegis en svo tók við eins árs bið eftir almennilegum upplýsingum. Reyndar gerðust Nintendo góðhjartaðir og afhjúpuðu fjarstýringuna í september 2005 á Tokyo Game Show. Nintendo Wii mun verða gefin út í svörtu og hvítu. Hún getur einnig staðið lóðrétt á standi sem fylgir með, eða legið lárétt.

Alls kyns orðrómar komust á kreik. Snertiskjár á fjarstýringunni? Jafnvel á tölvunni líka því hún er svo lítil að hún gæti verið portable sem og home console? Holographic 3D projection undir flipanum framan á tölvunni? Allt datt fólki í hug, sumt bara hreinlega út í hött, eitthvað sem gæti ekki staðist miðað við áform Nintendo. En sjálfsagt buðu Nintendo upp á þetta með öllum þessum leyndardómsfullu commentum og feluleik. En hugmyndin bakvið Wii er ekki svo stjarnfræðilega flókin; Wii á að vera fjárhagslega viðráðanleg tölva fyrir alla, hún á að vera einföld í notkun en samt mikilfengleg. Fólk á ekki að horfa á hana hliðina á sjónvarpinu og hugsa “Æj get ég ekki falið hana betur? Fer ekki vel hérna í stofunni”. Fólk á að geta tekið upp fjarstýringuna, þó það sé ekki casual gamer eða hardcore gamer og skemmt sér án þess að vera hrætt við fjölda takka og flókiðs útlits hennar. Þetta á sem sagt að vera tölva fyrir alla, bæði casual gamers og hardcore gamers, en einnig dreifa boðskapnum um leikjaskemmtun til þeirra sem líta á tölvuleiki sem óþarfa og leiðindi.

Wiimote

Áður en Nintendo sviptu hulunni af fjarstýringunni, þá birtust alls kyns fanarts og hugmyndir fólks um útlit hennar og stjórnunarmöguleika sem hún byggi yfir. Þá var tölvan kölluð Revolution og eftir að fjarstýringin sást fyrst á Tokyo Game Show, var hún kölluð Revmote vegna útlitsins. Útlitið var eins og nafnbótin gaf til kynna; Svipuð einfaldri sjónvarpsfjarstýringu (Revolution + remote = Revmote). Þetta er ekki official nafn, bara gælunafn sem áhugamenn gáfu fjarstýringunni. En hvað gerir hún?

Til að einfalda þetta strax í byrjun, þá erum við að tala um fulla stjórnun í þrívíðu umhverfi. Fjarstýringin nemur hreyfingar upp, niður, fram, aftur, hægri, vinstri, vagg og veltu, snúning og svo framvegis. Þetta gerir það að verkum að fjöldi takka á fjarstýringunni er í færra lagi, til dæmis enginn analog-takki eins og er á Gamecube, PS2 og Xbox fjarstýringunum. Hans er ekki þörf á Wiimote einni og sér. Þess í stað er komin hreyfiskynjunin, en það má taka það fram að þú þarft ekki að baða út höndunum eins og brjálaður api í sundi til að stjórna leikjum, það eru ranghugmyndir sem margir virðast ekki geta losað úr hausnum á sér. Margir sem hafa prófað Wii hafa sagt að það þarf bara rétt að hreyfa úlnliðinn, Wiimote er það næm.

Í Wiimote eru fleiri hlutir og ber þar að nefna titringur, sem hrisstir Wiimote - þetta þekkjum við öll, og… hátalari. Hvað er hátalari að gera í fjarstýringu? Ef við hugsum málið nánar þá er þetta ekki svo galin hugmynd. Þegar hugmyndaspekúlantar Nintendo stungu upp á þessu fyrst þá voru viðbrögð innan fyrirtækisins ekki ýkja mikil, en eftir vangaveltur og hugmyndir leikjaframleiðenda var ákveðið að halda hátalaranum: Hann gæti gefið leikjum nýja dýpt þegar kemur að upplifun. Hvernig hátalarinn virkar er útskýrt hér neðar.

Á Wiimote eru nokkrir basic takkar. D-pad (krossinn), stór A-takki sem er ofan á henni og undir er trigger takki sem kallast B. Start og svo eru takkar sem hafa verið nefndir ólíkum nöfnum eftir stað og tíma sem myndirnar af þeim birtast. Sem dæmi eru litlir takkar neðarlega á Wiimote sem hafa verið kallaðir 1 og 2 en líka “a” og “b”. Svo eru takkar sitthvorumegin við Start sem hafa verið kallaðir Home og Select en einnig “+” og “-”, en þá hét Start takkinn reyndar “Home”. Allt er þetta hluti af concept hugmyndum um lokaútlit fjarstýringarinnar. Hvað takkarnir munu loks heita kemur í ljós síðar. Einnig eru fjögur ljós neðst á henni sem gefa til kynna númer hvað hver og ein fjarstýring er, en þessi ljós gefa einnig til kynna hversu mikið rafhlaðan í þeim á eftir, þegar kveikt er á Wii. Þegar hún er fullhlaðin þá blikka öll fjögur, ef hún er hálf þá blikka tvö og svo framvegis.

Nunchuk

Neðst á Wiimote er expansion port sem Nunchuk addons eru tengd í. Nunchuk er viðurnefni sem tæknimenn Nintendo notuðu til að lýsa hugmyndum sínum og hafa Nintendo notað þetta viðurnefni síðan þá. Þekktasta Nunchuk addonið, og það eina sem við höfum séð hingað til, er egglaga hlutur sem á er analog-takkinn góðkunni og tveir trigger takkar. Þessi hluti Wiimote fellur sérlega vel í lófa vegna hönnunarinnar. En þetta er þó ekki það eina sem er sérstakt við þetta. Í þessu egglaga fyrirbæri er nefnilega grófari útgáfa af hreyfiskynjun takk fyrir. Í stað þess að skynja hreyfingar í þrívíðu umhverfi þá skynjar þessi hluti Wiimote “snöggar” hreyfingar upp, niður, fram, aftur og til hliðanna. Við erum því að tala um hreyfiskynjun í báðum höndum. Síðar meir munu Nintendo gefa út aðrar gerðir af þessum nunchuk aukahlutum sem geta nýst fyrir aðrar gerðir leikja. Aðeins ímyndunarafl Nintendo og 3rd party framleiðenda eru takmörkin fyrir því hvað mun líta dagsins ljós í þessum málum.

Classic Shell

Ekki allir leikjaframleiðendur munu nýta sér Wiimote og nunchuk eins og það lítur út í sínu “hráasta” útliti heldur munu verða gerðir leikir sem þurfa hefðbundnari stjórnun. Þar kemur til sögunnar Classic Shell sem Wiimote er rennt inn í. Á þessari skel, sem líkist einskonar blöndu af Gamecube og SNES fjarstýringunni, eru fleiri og hefðbundnari takkar. Þetta mun nýtast hefðbundnari leikjum sem ekki “fara alla leið” hvað varðar hreyfiskynjun Wiimote, en nýta hana á einhvern hátt. Classic shell mun einnig verða notuð fyrir eldri leiki Nintendo, Sega og Hudson sem hægt verður að downloada gegnum Virtual Console, útskýrt hér að neðan.

Zapper

Hver hefur ekki spilað Duck Hunt? Kannski ekki þeir sem yngri eru, en þeir sem voru uppi þegar NES var upp á sitt besta eða eru kunnugir fortíðinni í leikjaheiminum muna eftir Duck Hunt og Zapper byssunni sem var notuð í leiknum. Jæja, það er komin ný útgáfa af Zapper fyrir Wii og var ný Duck Hunt útgáfa notuð sem demo fyrir zapperinn á E3 í maí síðastliðnum. Ímyndaðu þér byssuskel sem Wiimote er rennt inn í að framanverðu sem gerir nákvæmni zappersins á skjánum pixel perfect. Hver veit nema í framtíðinni muni koma shotgun skel með pumpu til að reloada hehe, bara smá glens.

Stutt dæmi um virkni Wiimote og nunchuk

Ég ætla ekki neitt nákvæmlega í spilun leikja á Wii, aðeins að líta yfir nokkur atriði.

Red Steel, frá Ubi Soft. Þar stjórnar maður bandaríkjamanni sem á í höggi við japönsku Yakuza klíkuna. Ef þú ert rétthentur (já, Wiimote er jafnvíg fyrir rétthent sem örvhenta) þá ertu með Wiimote sjálfa í hægri hönd og Nunchuk í vinstri. Wiimote er byssan þín eins og er, nunchuk er líkaminn, segjum það. Þú notar analog-stick á nunchuk til að labba um en með því að hreyfa hann snöggt til geturðu kastað þér í felur bakvið vegg eða borð, beygt þig snögglega og svo framvegis. Wiimote er miðið þitt, bókstaflega. Með því að hreyfa hægr höndina miðarðu á skjánum. Eðlileg miðunarhreyfing skilar sér á skjáinn, ekki gegnum analog-stick. Það er meira geranlegt í Red Steel, Ubi Soft segir að með því að taka upp handsprengju geti maður sveiflað Wiimote eins og þú sért að kasta handsprengu, eða bara vippað Wiimote aðeins, já eða látið hana rúlla eftir gólfinu með því að nota einskonar “keiluhreyfingu”. Í Red Steel er einnig sverðbardagi. Wiimote er þá orðin að sverðinu þínu. Þú sveiflar Wiimote og sverðið á skjánum sveiflast. Eins og staðan var á E3 þá voru sverðhreyfingarnar frekar slappar og aðeins um nokkrar hreyfingar að ræða. Ubi Soft segja þó hins vegar að leikurinn sé enn í vinnslu og möguleiki sé á að bein hreyfing Wiimote skili sér í nákvæmlega eins hreyfingum á skjánum. Bíðum og sjáum til.

The Legend of Zelda: Twilight Princess er leikur sem kemur bæði á Nintendo Gamecube og Wii, samtímis. Wii útgáfan nýtir þó hins vegar Wiimote. Í Wii útgáfunni notar maður Wiimote sem til dæmis sem veiðistöng þegar Link fer á bát út á vatn og veiðir nokkra stóra sem smáa, þá heldurðu inni A eða B, dregur Wiimote aftur og sveiflar fram og sleppir takkanum, rétt eins og alvöru veiðistöng. Einnig nýtist Wiimote sem bogi og boomerang. Ímyndaðu þér að þú haldir nunchuk fyrir framan Wiimote, haldir B inni og dragir Wiimote að þér. Svo sleppirðu B og örin skýst í burtu. Ah, manstu eftir hátalaranum? Þegar þú dregur Wiimote að þér gefur hátalarinn frá sér hljóð sem svipar til þess þegar bogi er spenntur, þegar þú sleppir þá kemur “snap” hljóðið úr fjarstýringunni og þú heyrir örina þjóta frá Wiimote og í hátalarana í sjónvarpinu eða heimabíóinu. Þrívíddarhljóð með hjálp Wiimote sem eykur innlifunina.

Metroid Prime 3: Corruption. Líkt og í Red Steel þá er Wiimote miðið þitt og nunchuk er “líkaminn”. Þú gengur með nunchuk en miðar með Wiimote. En það er meira sem nunchuk gerir og nota ég því MP3:C sem flott dæmi. Þegar Samus Aran kemur að hurðum sem eru læstar með sérstökum lásum sem þarf að leysa með handafli, þá ferðu að þessum lás, þrýstir nunchuk fram og höndin á Samus fer fram á skjánum, grípur í handfang, þú dregur nunchuk að þér og Samus dregur handfangið út. Næst snýrðu nunchuk til hliðar og Samus gerir slíkt hið sama. Nú þrýstirðu nunchuk aftur fram og Samus ýtir handfanginu inn aftur. Voila, hurðin er opin. Annað flott dæmi er grapple beam sem var einnig í MP1 og MP2. Núna nýtist þetta hins vegar ekki bara til að sveifla sér milli staða, heldur geturðu notað hann í bardögum við Space Pirates. Sumir Space Pirates eru með skyldi en með því að “flippa” nunchuk fram þá kastar Samus grapple beam fram sem grípur í skjöldinn og ef þú togar nunchuk að þér þá rífur Samus skjöldinn af Space Pirates.

Wii-Sports: Í tennis útgáfu leiksins þá er Wiimote orðinn tennisspaði. Þú getur slegið boltann fast eða rétt vippað honum. Snúningur á Wiimote skilar sér í snúningnum á spaðanum á skjánum, hvernig þú slærð á boltann. Einnig er hægt að slá undir boltann. Í stuttum orðum; Þetta er bara tennis eins og tennis gerist raunverulegast í leikjatölvum. Einnig höfum við séð golfútgáfu en þar geturðu púttað eins og um alvöru pútt væri að ræða, slegið fleiri tugi metra með alvöru höggi og svo framvegis. Eins og í tennisútgáfunni þá skilar snúningur Wiimote sér í snúning á kylfunni. Hafnaboltaútgáfan er á sömu nótunum, þar geturðu sveiflað kylfunni rétt áður en kastarinn lætur boltann vaða rétt eins og í alvöru hafnaboltaleik. Svo höfum við líka flugleik þar sem þú heldur á Wiimote eins og þú heldur á skutlu eða módelflugvél og hreyfir hana eins um og flugvél væri að ræða. Engir takkar, enginn analog stick, bara fínar hreyfingar og þú flýgur.

Elebits frá Konami er frekar sérstakur leikur, karakterarnir í honum minna mjög á Pikmin fígúrurnar frá Nintendo. En þarna leikur maður stelpu sem hefur eitthvað tól sem getur stjórnað elebits ef ég skil þetta rétt. Elebits eru um allt í kringum okkur samkvæmt leiknum, uppspretta rafmagns og orku í heiminum. Ef þú hugsar sér Ghost Busters og geislann sem þeir nota til að veiða drauga, þá hefurðu svipað dæmi í Elebits, getur hreyft ALLT til og kastað því fram og til baka í leit að Elebits. Frekar skondið og virkar þrælskemmtilegt. Mæli með því að þið skoðið video úr þessum leik á Youtube.

Excite Trucks er leikur með þekkt nafn, Excite Bike fyrir NES er einn af þessum klassísku. Þarna er bílaleikur á ferðinni þar sem þú stjórnar jeppum og þessháttarbifreiðum í allskyns stökkum, beygjum og slíkum látum. Þá heldurðu Wiimote á hlið, báðar hendur á henni A og B eru bensín og bremsa og til að beygja þá snýrðu einfaldlega fjarstýringunni líkt og um stýri væri að ræða. Einfalt, en skilar sér rétt og gerir leikinn víst óvenjuskemmtilegan því venjulega væri þessi leikur ekki spennandi með hefðbundinni stjórnun, segja þeir sem hafa prófað leikinn.

Project H.A.M.M.E.R er leikur sem virðist einfaldur í gerð og basic út í gegn. Þar leikur þú frekar vöðvamikinn hnullung með ofvaxna sleggju í hönd. Með því að “sveifla” Wiimote þá sveiflarðu sleggjunni á skjánum og fellir um koll risavaxna óvini. Með því að lyfta Wiimote of slá hratt niður þá slærðu með sleggjunni í jörðina. Sem sagt í stuttu máli: Wiimote = Sleggja.

Hvernig gæti ég endað þennan kafla án þess að koma með smá hugmynd að leik sem allir Star Wars unnendur á netinu VILJA fá frá Lucas Arts, án efa sá leikur sem ekki hefur verið staðfestur, sem hvað flestir vilja fá. Lightsaber leik fyrir Wii þar sem Wiimote er lightsaber og hátalarinn í Wiimote gæti gefið frá sér hummin og swooshin sem lightsaber-in gefa frá sér. Hugsið um þetta í smástund og þá skiljið þið af hverju netverjar slefa yfir tilhugsuninni. Bæði Nintendo og Lucas Arts gefa frá sér loðin svör og glotta mikið þegar út í svona leik er spurt. Oh boy…

Staðalbúnaður með Wii sem vitað er um… og líklegt verð

Eins og staðan er í dag er bara vitað um eina útgáfu af Wii, ekki tvær eins og með Xbox 360 og PS3. Í þeim pakka verður Wii, ein Wiimote eins og er, Nunchuk, sensor bar en svo er nú samkvæmt einhverju slúðri líklegt að Nintendo láti Classic Shell og jafnvel Zapper fljóta með. Taka má fram að Sensor Bar er sá búnaður sem kemur öllum hreyfingum Wiimote til skila til Wii. Sensor Bar er staðsettur ofan á sjónvarpinu eða undir því. Þetta er ekki stórt stykki, 20cm á breidd og um 1-2cm á hæð. Tveir skynjarar eru á sitthvorum endanum til að nema hreyfingarnar. Það eru auðvitað fleiri hlutir þarna eins og spennubreytir, tengikaplar fyrir sjónvarpið og jafnvel heyrnartól með míkrafón en Nintendo eru að íhuga það. Þetta á allavega að verða bang-for-the-buck pakki og hafa Nintendo sagt að tölvan eigi ekki eftir að kosta meira en 250 dollara.

Wi-Fi Connection, Virtual Console, Connect24 og… Friend Codes

Nintendo Wii mun vera Wi-Fi enabled beint úr verksmiðjunni sem þýðir að fólk með þráðlausan router kemst á netið eins og skot. Margir leikir munu nýta online spilunina án alls vafa en meira info um online spilun á Wii-leikjum á enn eftir að reka á fjörur internetsins. Eitt er þó víst að netspilun á Nintendo Wii verður frí, þarft ekki að kaupa þér mánaðaráskriftir til að spila leiki online. Virtual Console var eitt af því fyrsta sem Nintendo kynntu fyrir Revolution, eða á E3 í fyrra. Gegnum VC getur fólk keypt og downloadað gömlum klassískum Nintendo leikjum, Sega og Hudson leikjum. Enn á eftir að upplýsa um fleiri framleiðendur sem verða með sína klassísku á boðstólnum, en telja margir að þarna verði að finna leiki frá Konami, Capcom, Square-Enix og fleirum. Hægt verður að skoða leiki eftir tölvum, leikjaflokkum og nöfnum. Líklegt er að einhverjir leikir frá Nintendo verði gefins til að byrja með, til að kynna VC en einhverjir leikir munu koma til með að kosta eitthvað. Hvort það verði borgað með pening gegnum kreditkort (áskrift að Nintendo samfélagi gegnum kreditkort) eða hvort verði hægt að kaupa credits á heimasíðu Wii gegnum Wi-Fi Connection… hver veit. Á allt eftir að koma í ljós hvernig þetta verður og hvað þetta mun kosta og hvernig það er borgað.

Connect24 hefur ekki verið sagt mikið frá, eina sem okkur hefur verið sagt er að þrátt fyrir að slökkt sé á Wii þá er hún alltaf tengd við netið. Þannig geta Nintendo sent þér uppfærslur fyrir leiki, hvort sem það séu ný dungeons fyrir Zelda, ný items fyrir Smash Bros eða nýir karakterar í Metroid þá geta framleiðendur leikja alltaf verið í sambandi við þig og Wii. Einnig mun þetta eflaust nýtast í sambandi við vini og kunningja á Wi-Fi Connection. Þá getur fólk alltaf haft samband við þig þó þú sért ekki online og segjum sem svo að Wiimote gefi frá sér hljóð (þið munið eftir hátalaranum, er það ekki?) eða þá að ljósið framan á Wii blikki með ákveðnu millibili til að gefa til kynna ný skilaboð eða hvað sem það nú er. Connect24 hefur samt verið að valda leikjaspilurum í Bretlandi áhyggjum því stjórnvöld þar í landi ætla að sporna gegn útbreiðslu vélbúnaðar sem hefur innbyggðan StandBy búnað, svo sem PC tölvur og já, Nintendo Wii sökum eyðslu á orku/rafmagni sem þessi hlutur veldur. Hvernig þetta verður gert á eftir að koma í ljós, og hvort eitthvað verði gert.

Eini gallinn við þessa nettengingu Nintendo fyrir Wii er Friend Codes sem DS eigendur kannast við. Fyrir DS þá hefur hver og einn leikur sinn Friend Code, en ég vona nú að hver og ein Wii hafi bara sinn Friend Code frekar. Best væri nú bara að það væru ekki Friend Codes heldur að eigendur settu upp eigin user líkt og í Xbox Live og gætu bætt inn fólki og joinað servera eins og það vill. Kannski verður þetta ekki eins slæmt og það hljómar, kannski var DS Friend Codes bara early concept og kannski er Wii Friend Codes betur þróað. Kemur í ljós innan fárra vikna eða mánaða.

Viðbrögð leikjaframleiðenda

Samkvæmt því sem nokkrir insiders segja þá voru margir leikjaframleiðendur mjög hrifnir af Wii frá fyrsta degi, áður en almenningur vissi af henni. Ber þá einna helst að nefna Sega og Ubi Soft, en einnig voru nokkrir sem voru ekki eins sannfærðir. Sumir kölluðu þetta gimmick tölvu, aðrir sögðu að grafíkin ætti eftir að skipta höfuðmáli fyrir næstu kynslóð leikjavéla og enn aðrir einfaldlega ignorað hana. EA sem dæmi gáfu lítið fyrir að framleiða leiki fyrir hana, einbeittu sér bara að PS3 og 360. En eftir E3 er eins og sparkað hafi verið í þessa neikvæðu framleiðendur og núna eru sem dæmi EA alveg æstir í Wii, vilja ólmir gefa út leiki fyrir hana og einn hæstsettu manna EA telur jafnvel að Wii eigi eftir að taka fyrsta sætið af Sony, því margir hafa sagt að “tölva nr. 2 á heimilinu verður Wii” og eins og þessi maður sagði, ef svo margir fá sér Wii sem aðra tölvu, þá á endanum verður hún númer eitt. E3 sparkaði ærlega í framleiðendur því viðbrögð almennings sýndu það og sönnuðu að áhuginn er gríðarlega mikill, þetta varð til þess að þeir sem ekki höfðu sett sig inn í málin ætla sér að gera það og eru farnir að hugleiða hvernig leiki hægt er að gera fyrir þessa mjög svo öðruvísi fjarstýringu. Nú gengur ekki beint að porta leiki bara milli véla, nú þurfa leikjahönnuðir að hugsa upp á nýtt og koma með ferska strauma inn á markaðinn. Því miður verða ekki allir mjög virkir í að koma með góðar hugmyndir, sumir eru einfaldlega of staðnaðir.

Það sem gerir Wii svo heillandi, fyrir utan stjórnunarmöguleikana sem framleiðendur slefa yfir, er ódýr framleiðslukostnaður leikja. Þetta gæti orðið til þess að fleiri minni framleiðendur gefa út leiki fyrir Wii því PS3 og 360 er of dýr pakki fyrir þá. Margir leikjaunnendur vilja meina að þessir litlu og ósönnuðu framleiðendur eigi eftir að gefa markaðnum nýtt og ferskt blóð því þeir sem eru nú fyrir hafa staðnað mikið undanfarið. Leikir séu orðnir remakes of a remake og spilun leikja orðin of endurtekningasöm milli leikja. Sjáum til hvernig þetta fer hvað varðar féminni framleiðendur.

Hér er svo eitt sem er skondið, sem á eftir að koma við sögu í næsta kafla greinarinnar. Sony og Microsoft keppast við að lofa Wii og segja báðir að leikjaunnendur eiga eftir að kaupa tvær tölvur. PS3 og Wii eða 360 og Wii. Microsoft hafa sagt að það væri bargain að kaupa 360 og Wii fyrir sama verð og eina PS3. Magnað dæmi, hreint magnað, að risarnir tveir keppist við að hrósa Nintendo til að sannfæra almenning um að annar hvor pakkinn sé betri en hinn. Wii + A eða Wii + B.

Viðbrögð almennings

Þrjú orð: Electronic Entertainment Expo. Nintendo Wii gersamlega sló í gegn á E3 í ár þrátt fyrir að Sony lyftu hulunni endanlega af PS3. Það er orðið nokkuð þekkt atvikið sem átti sér stað þegar dyrnar að E3 voru opnaðar á fyrsta degi. Mannflóðið HLJÓP að Nintendo básnum, tók sprettinn. Nánast allur skarinn tók stefnuna á Nintendo básinn en nokkrir fóru inn í Sony básinn sem var hliðina á Nintendo. Annað dæmi sem gefur til kynna um hversu mikla athygli Nintendo fékk á sýningunni er biðröðin til að spila Wii leiki. Allt að SEX KLUKKUSTUNDA bið, meðan Sony standarnir voru með um hálftíma og stundum enga bið. Hver var ástæðan? Fólk vildi prófa eitthvað gersamlega nýtt og Nintendo voru að delivera að því er virðist.

Viðbrögðin á netinu eru einni stórfengleg. Sífellt fleiri bætast í hóp þeirra sem ætla að fá sér Wii sökum mögulegrar skemmtunar sem tölvan á eftir að færa spilandanum. Hér kemur að því sem ég minntist á að ofanverðu. Sony unnendur eru með litla vefsíðu í gangi sem kallast PSThwii ef ég man rétt, þar sem mælt er með því að fólk fái sér PS3 og Nintendo Wii til að sporna gegn útbreiðslu Microsoft Xbox á markaðnum. En í gangi er enn stærri vefsíða, Wii60.com sem er hópur Wii-unnenda og 360 eigenda sem ætla að standa saman og fá sér bæði 360 og Wii til að stöðva veldi Sony á markaðnum. Sjáiði eitthvað mynstur í þessu? Hvar liggur valdið? Hjá Nintendo virðist vera.

En það eru ekki bara þeir sem eru vanir leikjum sem eru að falla fyrir Wii, en þeir sem ekki hafa spilað leiki í mörg ár eða hreinlega aldrei, eru að skilja boðskap Nintendo núna. Skemmtunin er að smita út frá sér og áhugi non-gamers er að aukast með hverri vikunni. Þetta er takmark Nintendo, að stækka leikjamarkaðinn út fyrir leikjaspilara eingöngu, því markaðurinn undanfarin ár hefur ekki stækkað sökum þess að þeir sem hafa áhuga á leikjum og leikjatölvum, eiga tölvur fyrir. Það er alltaf sama fólkið sem kaupir þessar vélar. Þarna er opinn markaður sem Nintendo ætlar að grípa með Wii, sá sem ekki hefur leikjareynslu.

Áður en fólk fer að kvarta yfir guðfenglegum boðskap mínum hehe, þá má taka fram að ekki allir leikjaspilarar eru hrifnir af Wii, eins og sjálfsagt er. Fólk hefur sína skoðun á hlutunum og eru sumir ekki hrifnir af þessum nýjungum Nintendo hvað varðar breytingar á stjórnun tölvuleikja. Sumir vilja bara gamla góða mátan sem hefur verið notaður í mörg herrans ár og ekki valdið neinum vandamálum út fyrir leikjaheiminn og enn aðrir vilja ekki stunda hreyfingar þegar kemur að leikjum, frekar bara liggja og slappa af meðan spilað er. Ekkert að því, skoðun er skoðun og það verða þeir sem fíla Nintendo Wii að virða. Geta ekki allir fallið fyrir þessari vél.

ATHUGIÐ: Þessi grein er ekki ætluð sem árás á Sony né Microsoft þar sem ég á Xbox og Xbox 360, PSX, PS2 og stefni á PS3. Nintendo hins vegar virðast staðráðnir í að gerbreyta markaðnum og koma inn með ferskar hugmyndir. Þessi grein er því eingöngu kynning á Wii fyrir þá sem ekki höfðu kynnt sér hana. Vona að hún hafi komið að einhverju gagni og vinsamlegast farið ekki að rífast um hvaða tölva sé best með einhverjum leiðindum og rifrildi. Fólk hefur sína skoðun og fúkyrði og niðranir breyta þeim ekki.

Fyrir þá sem eru áhugasamir um Nintendo Wii þá hvet ég alla þá til að skoða helstu leikjasíður netsins og heimasíðu Nintendo Wii og kynna sér þetta nánar.

Takk fyrir.
Þetta er undirskrift