Bræðurnir Ormsson og Nintendo-svikamyllan Núna er ég búinn að fá nóg af Bræðrunum Ormsson. Ælan er löngu komin upp í kok af svikum þeirra við neytendur hér á landi. Hér eftir fer upptalning af aðeins nokkrum af ótal mörgum svikum Bræðranna Ormsson við Nintendo eigendur hér á landi.

Á fyrri hluta síðasta árs gaf Nintendo út nýjustu handleikjatölvu sína, Nintendo DS, og hefur hún selst afar vel í Evrópu, Japan og Norður-Ameríku, betur en keppinautur sinn, PlayStation Portable. Því miður virðist þessu öfugt farið hér á landi, og má einna helst þakka áhugaleysi Bræðrana Ormsson á umboði sínu, umboði sem þeir geta grætt á ef þeir spila spilin sín rétt. Því miður virðast þeir snúa þeim beint framan í andstæðinga sína því á rúmlega ári þá birtust örfáar auglýsingar fyrir leikjavélina fyrsta mánuðinn eða svo og eftir það hefur ekki verið minnst á vélina í neinni auglýsingu frá fyrirtækinu.

En það er ekki eini gallinn því fyrir nokkrum dögum kíkti ég í verslun þeirra niðri í Smáralind til þess að festa kaup á leikjum. Þarna eru leikir í Nintendo Player’s Choice línunni, en henni má líkja við Platinum línuna á PlayStation. Leikir í Platinum línunni kosta €29,99 í Evrópu og £19.99 í Bretlandi. Hér á landi kosta leikirnir á bilinu 5.000 og 6.000 krónur, eitthvað sem er augljóslega ekki í samræmi við verðlag í öðrum löndum. Þar að auki eru leikir sem hafa verið í sölu í fjögur ár, jafnvel lengur, á sama verði og daginn sem þeir komu út. Er þetta eðlilegt?

Verðlag á GameCube leikjum hefur áhrif á verðlag í verslunum BT. Samkeppnin er ekki fyrir hendi, það eru engar aðrar verslanir sem selja GameCube leiki aðrar en BT og Bræðurnir Ormsson. Að sögn ónefnds starfsmanns verslana BT kaupir BT leikina beint inn frá Ormsson frekar en að kaupa þá frá byrgjum í Bretlandi með þeim afleiðingum að verðið helst svo hátt.

Í lok ársins kemur Nintendo Wii á markað til þess að taka sér sess í stríðinu á milli Xbox 360 og PlayStation 3. Wii verður mun ódýrari en keppinautarnir tveir, bæði hvað varðar kostnað leikjaframleiðenda sem og kostnað neytenda enda hefur það verið markmið Nintendo að bjóða upp á ódýrar gæðavörur frá upphafi. Því miður virðist sem Bræðurnir Ormsson hafi lítinn sem engan áhuga á að upphefja þessa vöru sem gæti sest að á mörgum heimilum, þökk sé smárrar hönnunar og lágs vöruverðs.

Ég held það fari ekki á milli mála að Bræðurnir Ormsson hafi sýnt fram á að þeir eru gjörsamlega vanhæfir sem ábyrgðarmenn Nintendo hér á landi. Þeir sýna starfsemi fyrirtækisins lítinn áhuga, neytendur eru aftarlega í huga þeirra og auglýsingastarfsemi í kringum Nintendo er í besta falli slæm.

Það eina sem getur bjargað Nintendo hér á landi er annaðhvort að efla umboðið á núverandi stað eða flytja það til ábyrgari aðila. Það er kannski kominn tími á að Ormsson fari að fylgja eftir slagorði sínu, “Gerðu kröfur, við uppfyllum þær”, því þeir sem kaupa Nintendo vörur eru ekkert síður kröfuharðir en kaupendur Pioneer, Sharp eða Nikon vara.