Xbox 360 - Byrjun næstu kynslóðar Þessi kynslóð sem er að enda núna hefur breytt miklu í hugsunarhætti manna. Tölvur fóru frá því að vera nördalegt, í það að vera líkari bókum eða DVD-spilurum. Að spila leik í tölvu nú til dags er eins og að lesa sögu eða horfa á mynd, maður sér bara söguna gerast fyrir framan sig og tekur þátt í henni. Ótrúlegt nokk, en Halo 2 sló sölumet allra gerða afþreyinga í Nóvember síðastliðnum, og er það nýjasta dæmi um mátt og megin leikjatölvuiðnaðarins í dag.

Þeir sem hafa horft á fyrirlestrana hjá Microsoft um næstu kynslóð leikjatölva hafa séð að Microsoft eru tilbúnir til að rykkja Sony niður af stjörnuhimninum. Þeir hafa þvílíkt sjálfstraust og ætla að sækja hart að Sony og Nintendo. Hún kemur út fyrst, með þvílíkan stuðning við leikjahönnuði og fullt af “Xbox 360” titlum í kjölfarið (a.m.k. þangað til fleiri tölvur fara að koma af færiböndum annarra fyrirtækja). Næstu jól er útlit fyrir því að Xbox 360 verði heitasta og nýjasta raftækjavaran og græða Microsoft hærri sölutölur á því að vera fyrstir, en gætu á hinn bóginn misst titil sinn sem öflugasta leikjatölvan í leiðinni, ef til lengri tíma er litið. HD-era (High definition) kallast næsta kynslóð sem kemur þá á eftir 2-D og 3-D tímabilunum (það er samt ekkert ofar en 3-D, allt er í þrívídd… þeir taka bara svona skemmtilega til orða). Allt á að vera þráðlaust og nettengt og samfélagið á að láta til sín taka.

Aðalmunurinn á leikjatölvum og PC-tölvum er sá að stökk milli kynslóða er stórt í leikjatölvubransanum. Þar er 4-6 ára bil á milli kynslóða þar sem fyrirtækin byrja uppá nýtt. Það þýðir að fyrirtækin þurfa að ákveða hvaða tækni og væntingar eiga að lifa út þetta tímabil. Það eru þessar pælingar sem gera þetta spennandi, þetta er eins og þegar ökumenn í Formúlunni eru teknir inní “pyttinn.” Þá er alltaf tvísýnt hvar í röðinni þeir koma út aftur.

Er Xbox tilraun?
Microsoft gáfu út Xbox til að sjá hvað þeir gætu gert, lært á reynslunni, komið fyrstir með online möguleika og ýmislegt annað. Tölvunni var eiginlega bara hent saman án þess að pæla mjög mikið í hlutunum, eiginlega bara PC-tölva falin í svörtum kassa. En þvílík byrjun! Halo og aðrir opnunarleikir urðu algjörir “hittarar” og margir spáðu Xbox miklum vinsældum. Eina markmið Microsoft með Xbox var að gera Xbox að stóru nafni í leikjatölvubransanum. Og þeim tókst það heldur betur, því í þessarri kynslóð leikjatölva lentu þeir í öðru sæti, og ekki langt á eftir sigurvegaranum. Þeir ætluðu sér aldrei stóra hluti með Xbox, aðeins að læra á reynslunni til að geta komið enn öflugri inní næstu kynslóð.

Japan er reyndar ennþá vandamál hjá Microsoft þar sem Xbox er ekki að ná miklum vinsældum. Er það aðallega vegna lélegs stuðnings leikjahönnuða frá Japan og líka vegna þessarar rosalegu stærðar á boxinu og stýripinnanum. Þeir stefna hins vegar að því að bæta sig á því svæði með nýju tölvunni ásamt nýjum aðferðum, þeir læra á mistökunum. Sagan um Controller-S á Xbox er mjög skemmtileg, en sagt er að hún hefði verið búinn til sérstaklega fyrir asíubúa, vegna þess að þeir náðu engann veginn gripi utan um ferlíkið sem fylgdi með fyrsta pakkanum. Alltaf má þó efast um sannindi þessa og ég persónulega held að Controller-S hafi verið gerð útaf smákrökkunum með litlu hendurnar sem gátu ekki náð í takkana. Markhópur Xbox voru og eru heldur engir smákrakkar heldur fólk á fullorðinsaldri sem hafa gaman af tölvuleikjum. Samt er á hinn bóginn ekki sanngjarnt af ónefndri búð að segja að Gamecube sé barnatölva því að hún er gerð fyrir alla aldurshópa.

Microsoft með nýjungarnar
Microsoft komu inn með margar nýjungar þegar Xbox kom út. T.d. harður diskur, innbyggt netkort og fullur DTS stuðningur með öflugu hljóðkorti (256 hljóðrásir). Þessar nýjungar hafa verið mikill lykill að vinsældum Xbox. Fólk streymdi útí búð til að skoða öflugu tölvuna frá risanum Microsoft með fullt af tækninýjungum. Þegar ég segi tækninýjungar á ég við nýjungar í leikjatölvubransanum, en ekki PC bransanum, sem er oftast skrefi á undan.

En eins og allir hafa tekið misvel eftir hefur Sony hermt eftir hverju skrefi Microsoft. Netmöguleikinn átti aldrei að vera í PS2 fyrr en Xbox kom út og harður diskur er kominn í PS2 (removable). En auðvitað kom PS2 út á undan Xbox og það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á, en staðreyndin er sú að PS2 var aldrei ætlað að vera með þessa möguleika eins og hún kom út úr kassanum. Nintendo menn voru ekki með þessi læti í kringum sína heldur leyfðu fólki bara að njóta hennar eins og hún var hönnuð.

Næsta kynslóð
Næsta kynslóð leikjatölva verður stríð. Það verður barist um hverja einustu manneskju sem hefur nokkurn tíma komið við tölvu og auðvitað verður eitt aðalmálið líka að vekja upp áhuga hjá Anti-tölvunördum. Hvernig eiga fyrirtækin að vekja áhuga Meðaljónsins sem er labbandi úti á götu og hefur aldrei komið við tölvu. Þessum spurningum er velt fram og til baka hjá fyrirtækjunum á bakvið tölvurnar og reynt að finna grípandi nöfn (t.d. Xbox 360 eða Revolution) og fleira til að vekja upp áhuga. Hver man ekki eftir sögunni af því þegar Coke var að reyna að koma drykknum á morgunverðarborðið og fékk hugmyndalið til að reyna að finna aðferðir til þess í margar vikur. Tengist þessu ekki neitt, en samt skemmtileg saga. Aðdráttarafl leikja og tölvu verður stigið einu skrefi lengra og samfélagið innan hverrar tölvu verður dregið saman með netspilun. Öll fyrirtækin hafa mismunandi áherslur, t.d. grafík, spilun, leikjagerðir, markhópar og auglýsingar. Mismunandi áætlanir og “taktík” gera þetta að skemmtilegu kapphlaupi sem gaman er að fylgjast með og taka þátt í.

Xbox 360
12. maí klukkan 21:00 að bandarískum staðaltíma var tölvan kynnt fyrir almenningi í hálftíma löngum þætti á MTV. Þar komu fram aðalhugmyndir Xbox-liðsins hjá Microsoft. Lykilhugtökin í kringum gerð þessarar tölvu hafa verið “Hardware, Software, and Services” og sameining þessara þriggja þátta. Ótrúlega margir leikjahönnuðir hafa hrífst af aðferðum Microsoft og margir hverjir hafa þegar gert samning. Tölvan lítur ekki illa út og lítur eiginlega út eins og DVD spilari frá annarri plánetu, sem er “kúl” á sinn hátt. Búið er að minnka stærð hennar verulega, sem er gott fyrir þá sem vilja troða leikjatölvunum sínum í vasann, en ekki geyma hana í hillu eins og eðlilegt fólk gerir. ;)

Í stuttu máli sagt verður vélbúnaður tölvunnar svona:
- 3.2 GHz PowerPC processor, 3 cores
- ATI custom graphics chip (512MB, 700MHz DDR)
- 512MB GDDR3 Unified System Memory
- 10MB embedded DRAM
- 12X DVD drive
- 20GB HDD

Örgjörvinn verður frá IBM og verður með þrjá kjarna, hver um sig vinnandi á 3,2 Ghz. Hver kjarni verður fær um að vinna 2 mismunandi vinnslur, 6 vinnslur allt í allt. Skjákortið verður frá ATI og með 48 pipelines, en til samanburðar eru nýjustu kortin á PC með 16 texture pipelines, og 6 vertex-pipelines (ATI X-800). Pipeline-in á Xbox 360 eru ný gerð, sem verður fróðlegt að sjá hvernig virka. Þau virðast vinna með bæði textures og vertex í sameiningu. En með 48 pipelines er hægt að segja að staðfesta að þetta verði örugglega ekkert slæmt. 10 mb. auka DRAM verður sérstaklega fyrir anti-aliasing og HDTV stuðning. Hljóðið verður auðvitað 5.1 með fullum DTS og Dolby Digital stuðning og þar sem hljóðið er unnið í hugbúnaðinum, er mjög einfalt að hækka þetta, t.d. uppí 6.1 eða 7.1. Maður getur alltaf, sama hvað maður er að gera, maður getur t.d. verið að horfa á mynd, spila leik, í fjögurra manna split-screen leik eða inná Live ýtt á Xbox 360 logo-ið á stýrispinnanum og fengið upp glugga þar sem hægt er að skoða allt milli himins og jarðar, og þess vegna kveikt á “jolly” tónlist meðan maður er að spila einhvern spennandi leik. Hægt verður að tala við vini sína í gegnum Live á meðan maður horfir á bíómynd og verslunarsvæði verður fyrir ýmist dót sem tengjast leikjunum. Hægt verður að taka harða diskinn heim til vinar síns og sýna honum sitt “stuff”. Að auki verður hægt að tengja litla spilara við (t.d. Ipod) og spila tónlist beint frá því.

Fólk telur að hún komi í tveimur útgáfum, ein með hörðum disk (399$) og önnur án disks (299$) sem hljómar bara mjög vel. Hún mun hafa Media Center fíling, þar sem hægt verður að horfa á myndir, spila tónlist og skoða fjölskyldualbúmið, meira að segja beint af PC tölvu sem er tengd við staðarnetið. Enn á eftir að staðfesta hvort að maður geti spilað gömlu góðu Xbox leikina í Xbox 360, en þeir hljóta að ná að búa til einhvern “emulator” til að leyfa okkur að spila gömlu góðu leikina í nýja skrímslinu.

En þrátt fyrir allan þennan nýja og rosalega vélbúnað nær leikjatölva aldrei góðun árangri án góðra leikja. Og þar held ég að Microsoft sé búið að tryggja sig í sessi. Framleiðendur eins og Bungie Studios, Bioware, Rare Ltd., Bizzare Creations og leikjahönnuðir eins og Hironobu Sakaguchi, Tetsuya Mizuguchi og Yoshiki Okamoto eru allir að fara að gera “exclusive” leiki fyrir Xbox 360 og verður gaman að sjá hvernig það þróast. Að auki eru það Microsoft Games studios sem verða í beinu samstarfi og örugglega með marga leiki. Project Gotham 3 er sagður vera opnunarleikur, sem verður án efa góður miðað við fyrri leiki. Síðan eru líka til pælingar um það að Halo 2.5 eigi að fylgja með á harða disknum. Eins og þið sjáið eru pælingarnar endalaust margar en þetta kemur betur í ljós á næstu mánuðum.

Allt þetta getur breyst fyrir útgáfudag, en þetta er svona heildarmyndin eins og hún er í dag. Ég skrifaði ekki mikið um Live möguleikann en þeir stefna að því að bæta hann mjög mikið með skemmtilegum breytingum ásamt því að viðhalda gamla góða kjarnanum.

Lokaorð
Eitt er víst, ótrúlegur kraftur á eftir að vera í þessu boxi, og hinum tveimur sem fylgja á eftir, og verður gaman að prófa þessi apparöt. Ég lít á þessi mál þannig að Microsoft séu djarfir. Þeir eru langfyrstir að segja eitthvað um sína tölvu og hún kemur einnig út fyrst. Þeir hafa engu að tapa og eru fullir sjálfstrausts og ætla sér þessvegna að sækja mikið að Sony og Nintendo. Erfitt verður þó fyrir Sony að tapa niður forskotinu sem þeir hafa á markaðinum, vegna trausts fólks á fyrirtækinu. Allir þekkja Playstation, en það eru ekki jafnmargir sem vita hvað Xbox eða Gamecube er. Xbox 360 kemur fyrst út eins og ég nefndi áðan, sem kemur tölvunni í skemmtilega aðstöðu sem verður gaman að sjá hvernig endar. Microsoft hafa alltaf stefnt á að verða sigurvegarar í þessari næstkomandi kynslóð og það verður spennandi að sjá hvað gerist á næstu mánuðum, hvað þeir lærðu á Xboxinu og enn meira spennandi að sjá hver afraksturinn verður eftir 4-8 ár þegar næsta kynslóð kemur. Og þá kem ég vonandi með aðra grein um tölvuna sem verður gefin fyrst út…


PS: Allir hérna halda núna að ég sé alger Xbox fanboy en það er ekki satt. Ég er alls ekki á móti Sony og Nintendo. Ég er mjög hlynntur öllu sem tengist leikjatölvum og mér finnst gaman að fylgjast með öllum gerðum leikjatölva. Þar sem þessi grein er um Xbox, þá var ég ekki mikið að skrifa um alla hlutina sem hinir framleiðendurnir gerðu. Þessi grein var gerð frá sjónarhóli Microsoft manna og er ekki ætluð sem lítillækking á hinum vélunum. Ég skora hins vegar á aðra að gera greinar um næstu kynslóð hjá þeim um leið og hlutirnir þar hitna svona rosalega. Ég ber ekki ábyrgð á málfarsvillum. Ef þið sjáið eitthvað sem er rangt í þessari grein þá er það útaf því að ég hef fengið vitlausar upplýsingar í heimildaleit. En heimskur er heimasitjandi maður.

Hafið það gott, veriði sæl og megið þið hafa það gott í þessari kynslóð.

Xbox 360 official síðan
Xbox.com
Gamespot grein
Ég vil líta á mig sem hreinskilinn mann, þannig ef ég særi þig… then it just sucks to be you.