Síðasta ár var frekar slappt í útgáfu gæðaleikja, jújú, það komu nokkrir sem stóðu upp úr en þeir voru ekki nógu margir. Til þessa hefur þetta ár ekkert verið neitt til að hrópa húrra yfir, þar til nú. Næstu þrír mánuðir verða rosalegir. Og ég var að hugsa um að gera grein um hvern mánuð (Okt, Nóv og Des) mánuðin fyrir til að lífga aðeins upp á áhugamálið, þá fer ég aðeins yfir leikina sem koma út. Hér ætla ég að fara yfir þá leiki sem koma í Október.


1. Okt: Star Ocean: Till the End of Time (Playstation 2)

Þetta er nýr RPG leikur frá Square Enix sem hefur verið að fá mjög góðar viðtökur í Bandaríkjunum og Japan. IGN sögðu hann t.d. vera með frábæran söguþráð og magnað bardagakerfi, og gáfu honum 9/10 í einkunn. Maður ferðast á milli pláneta í þessu ævintýri og markmiðið er (að sjálfsögðu) að bjarga heiminum. Star Ocean er algjör himnasending fyrir aðdáendur RPG leikja í stíl við Final Fantasy og Chrono Trigger.


1. Okt: Psi Ops (Multi format)

Ofbeldisfullur leikur þar sem maður notar ekki bara byssur til að berjast á móti óvinunum heldur líka hugaraflið. Ótrúlega svipaður öðrum leik sem var að koma út (Second Sight) en það breytir því ekki að þetta er örugglega hörku hasarleikur.


1-8 Okt: Pikmin 2 (Gamecube)

Pikmin þótti helvíti sniðugur leikur á sínum tíma en var alls ekki gallalaus. Hér kemur hinsvegar framhald sem gerir allt til að toppa þann fyrri og tekst það fullkomlega. Pikmin 2 er langur og stórskemmtilegur þrautaleikur sem verður alveg þess virði að checka á.


8 Okt: Fable (Xbox)

Þó að það sé orðið ljóst að Fable verði ekki eins byltingarkenndur og svakalegur og menn lofuðu að hann yrði lítur hann samt sem áður út fyrir að vera andskoti góður hlutverka leikur. Maður byrjar sem lítill krakki og ræður hvort maður sé góður eða vondur, og eldist eftir því. Allskonar valkostir koma í leiknum þar sem að útkoman fer eftir persónuleika þess sem spilar hann. Ég get ekki beðið eftir þessum.


15. Okt: Donkey Konga (Gamecube)

Þú ert Donkey Kong og átt að tromma með Japönskum popp lögum… hef í rauninni ekkert meira að segja um þennan leik. Ég verð að viðurkenna að ég er engan veginn spenntur yfir þessu dóti. En sumir virðast vera það, og þess vegna er hann hér.


15. Okt: Leisure Suit Larry : Magna Cum Laude (PS2 og Xbox)

Hver man ekki eftir hinum sprenghlægilegu Larry leikjum hér í gamla daga? Allavega skemmti ég mér mikið í þeim. Og þess vegna ekki annað hægt en að hafa áhuga á þessu. Að sjálfsögðu er markmið manns hér að ná að sofa hjá sem flestum gellum með manns eigin aðferðum. Allur leikurinn er talsettur og fullur af húmor. Vonandi að gamla formúlan virki enn!


22. Okt: Pro Evolution 4 (PS2 og Xbox)

Besta fótboltasería allra tíma, ég held að það efist enginn lengur um það. Þessir leikir eiga sér marga aðdáendur og nú verður hægt að spila á netinu. Meira af því sama kannski en þessi mun samt örugglega slá út alla aðra fótboltaleiki á markaðnum eins og forverar hans flestir gerðu.


29. Okt: Jak III (Playstation 2)

Uppáhalds platform leikjaserían mín. Jak 3 færir okkur meira hopp, skopp, húmor, sprengingar og læti. Hann mun gerast í einhverju “wasteland”, fyrir utan borgina sem maður var í í Jak II. Tæknin er frumstæðari þar og maður keyrir á bílum með dekkjum í staðin fyrir flugbílum. Loka leikur þríleiksins og spurningin er hvort þeir nái að toppa hina tvo.


Og rúsínan í pylsuendanum…

29. Okt: GTA: San Andreas (Playstation 2)

Ég held að ég þurfi ekki að segja mikið hér, þið getið lesið greinina mína fyrir nákvæmari lýsingu. Það eina sem ég ætla að segja er að búast við leik sem færir tölvuleiki á allt annað plan í stærð og spilunarmöguleikum. Ég hef beðið í tvö ár og hann er loksins að koma.


Gleymdi örugglega einhverjum en það verður þá bara að hafa það.