Þegar ég var 10 ára gamall flutti ég til Íslands og kynntist nýjum vin sem var rosalega mikið að spila NES. Hann átti alveg helling af leikjum, og meðal þeirra eftirminnilegustu leikja má nefna Turtles. Svo ári seinna fékk hann Sega Mega Drive í gjöf og ég mun aldrei gleyma þessum degi. Við spiluðum Streets of Rage, Golden Axe, Shinobi og Sonic the Hedgehog alla helgina og þetta var orðið það skemmtilegasta í heiminum í mínum augum. Leikirnir sem ég spilaði mest með honum voru Mortal Kombat 2, Street Fighter 2, Sonic 3 og Streets of Rage 2.

Auðvitað varð ég líka að fá mér leikjatölvu. Ég pantaði ég Sega Master System II að utan, án þess að gera mér grein fyrir því að þetta væri úrelt talva. Leikurinn Sonic Chaos var samt skemmtilegur í nokkurn tíma. Svo fór ég til Bandaríkjanna og keypti mér Sega Genesis með 11 leikjum sem er ameríska útgáfan á Mega Drive. Ég fattaði þá ekki að það var ekki hægt að spila evrópska leiki í tölvuna, þannig að eftir að ég keypti þessa 11 leiki hef ég ekki fengið nýjan leik í tölvuna.

Árið 1996 fór ég til London og þar keypti ég mér Sega Saturn. Ég spilaði leikina Tomb Raider og Quake mikið, en eftir nokkurn tíma var ég orðinn mjög leiður á þessari óhreinni grafík, rosalega löngum loading time og litlu leikjaúrvalinu. Það leiðu tvö ár og þá spilaði ég GoldenEye 007 heima hjá vini mínum og ég var “blown away”. Þetta var ótrúleg grafík á sínum tíma. Ótrúlega frumlegur leikur, EKKERT loading time, engir ljótir geisladiskar og svo var eitthvað tæki sem heitir Rumble Pak sem mér fannst mjög sniðugt. Þetta var eins og að vera kominn í draumaheim. N64 hafði farið fram hjá mér allan þennan tíma.. ég varð að fá mér svoleis tölvu. Mig langaði alltaf í Donkey Kong Country, þannig að ég keypti mér Diddy Kong Racing og VÁÁ! Grafíkin, tónlistin, allt við þennan leik var svo ótrúlega flott og hratt miðað við Saturn leiki. Þetta var dagurinn sem ég varð að tölvuleikjafíkli. Síðan hef ég haft ljúfustu minningarnar. F-Zero X, Banjo-Kazooie, Banjo-Tooie, Ocarina of Time, GoldenEye, Dukem Nukem 64…. þessir leikir voru svo miklu betra en allt annað á markaðinum. Ég vorkenndi PSOne eigendum….. Rare er ótrúlegt fyrirtæki.

Árið 1998 heyrði ég svo um Dreamcast og ég var ótrúlega spenntur fyrir þessari tölvu. Það leið meira en eitt heilt ár þangað til hún kom út í Evrópu. Ég notaði afmælispeninginn til að kaupa hana fyrsta daginn sem hún kom út með Sonic Adventure og Visual Memory Unit. Grafíkin var ótrúleg og ég kláraði leikinn innan við viku. Svo fékk ég mér Official Arcade Stick og Soul Calibur. Þetta var skemmtileg talva en ég gleymi aldrei hversu indælt er að spila Rare leiki. Donkey Kong 64 og Perfect Dark voru svo miklu skemmtilegri leikir en allt sem hafði komið á Dreamcast, fyrir utan einn leik sem ég fékk jólin 2000; Shenmue. Þetta var ótrúlega raunverulegur leikur fyrir sinn tíma. Resident Evil: Code Veronica og Shenmue voru geðveikir leikir en á sama tíma og ég spilaði þessa next-generation tölvu kynntist ég Rare betur og að mínu mati besta tölvuleik allra tíma; Banjo-Tooie. Tónlistin og grafíkin eru snilld. Til dæmis var þetta einn af tvem leikjum sem voru með skugga sem breytast eftir því hvaðan ljósið skýn. Það tók mig 50 klukkutíma að klára leikinn. Það er Rare sem byrjaði tölvuleikjasýki hjá mér.

Ég fékk mér svo PS2 í sumar 2001. Mér fannst ekkert rosalega spennandi á þessari tölvu, en ég keypti hana samt því að það var ekkert af Nintendo64 leikjum að koma út, það var hætt að framleiða Dreamcast leiki og það var langt í að GameCube kæmi út. MGS2 og GT3 voru fínir leikir en ég saknaði Rare leikja. Í Maí 2002 var svo komið að því. GameCube kom loksins út á Íslandi. Ég fékk mér svarta tölvu með Rogue Leader. Svo fékk ég mér Super Mario Sunshine, Star Fox Adventures, Eternal Darkness, Metroid Prime, The Legend of Zelda the Wind Waker, Resident Evil og Skies of Arcadia. Þetta eru allt ótrúlegir leikir og ég gæti ekki lifað án GameCube þótt að fréttirnar bárust til mín um að Microsoft hafi keypt Rare.

Besti dagur æfi minnar var einnig í Maí, þá fór ég í “Game Shop” í Hollandi og sá Shenmue II á Dreamcast upp í hillu. Ég hélt að hann kæmi aðeins á Xbox eftir einhver ár. En ég keypti hann strax og spilaði gömlu Dreamcast tölvuna aftur. Ég sé ekkert eftir því að hafa ekki spilað PSOne eða PC leiki, því ég elska Nintendo og hata loading time. Hjá Nintendo vinnur fólk sem elskar leikjatölvuleiki. Löng ævintýri og sælutilfinningar. Metroid Prime og The Wind Waker eru fullkomin dæmi fyrir því. GameCube er án efa besta leikjatalvan hingað til miðað við hvað hún hefur verið á markaðinum í stuttan tíma.