Maður eins og Ég Fyrir tveimur árum(2000) kom fyrsta kvikmyndin hans Róberts I. Douglas út, Íslenski Draumurinn. Hún sló í gegn og er að mínu mati ein besta íslenska kvikmynd sem hefur verið gerð. Nú er komin önnur myndin hans Róberts, Maður eins og Ég. Eftir fyrsta áhorfið finnst mér hún vera betri en Íslenski Draumurinn. Hvernig fer hún að því? Jú, hún er mun fyndnari og ekki eins þunglyndisleg. Það skemmir náttúrulega ekki að í aðalhlutverkum eru meistararnir Jón Gnarr og Þorsteinn Guðmundsson, eina sem gæti toppað það er ef Sigurjón Kjartans hefði bæst í hópinn.

Maður eins og Ég segir sögu Júlla(Jón Gnarr). Hann Júlli hefur ekkert haft það alltof gott undanfarið, kláraði ekki skólann, er að vinna á skítalaunum hjá póstinum, var í sambandi við konu í heila þrjá mánuði(hún fór mjög illa með hann) og fleira vesen. Hann verður ástfanginn af kínverskri konu, Qi(Stephanie Che). Samband þeirra dafnar fljótt og Qi flytur inn til Júlla með dóttur sinni. En Júlli nær að rústa því sambandi og flytur út(úr sinni eigin íbúð). Hann fær huggun frá góðvini sínum Arnari(Þorsteinn Guðmundsson) og konu hans Möggu(Katla Margrét Þorvaldsdóttir). Þau hjálpa honum að skapa sér nýja ímynd með því að kaupa ný föt og fara að selja eitthvað rándýrt heilsu rusl. En Júlli saknar Qi og ákveður að elta hana til Kína þar sem hún fór til að hjúkra móðir sinni.

Einn sterkasti punktur kvikmyndarinnar eru persónurnar og handritið. Hún er svo stút full af mjög fyndnum og reyndar misskemmtilegum persónum. Ég hafði mest gaman af Vali, pabba Júlla leikin af Sigga Sigurjóns. Valur var í hljómsveit sem gaf út lag árið 1971 og það var í heila viku á top 10 listanum og seldist í 2500 eintökum(hann hefur silfur snælduna til að sanna það). Hann hefur verið að plana ‘comeback’ og ætlar sér að komast í Eurovision en á meðan tilvitnar hann bara í kanann. Júlli er auðvitað mjög skemmtilegur líka, Jón Gnarr er að sýna hér ýmislegt sem hann hefur ekki gert áður t.d. hef ég aldrei heyrt hann segja ‘servíetta’ áður, hann er líka alvarlegri og sýnir sínar væmnu hliðar, ef svo má á orði komast.

Myndin er aðallega tekin upp hér á Íslandi en var líka tekin upp í Hong Kong og Kína og var víst mikið vesen þar stundum. Hún er mjög vel leikinn, góður leikari í öllum hlutverkum, takmarkið var reyndar bara að leika miðlungs vel hjá sumum. Myndin er vel gerð og er ein fyndnasta mynd sem ég hef séð. Gaman verður að sjá hvað Róbert og Jón gera næst saman en eins og kaninn segir sko ‘it doesn’t get any better than this’.

sbs : 15/08/2002