See No Evil(2006) Leikstjóri: Gregory Dark
Handrit: Dan Madigan

Þessi mynd sameinar tvö af áhugamálunum mínum, hryllingsmyndir og atvinnumanna fjölbragðaglímu. Nú þar sem ég þekki nokkuð til í fjölbragðaglímunni þá vissi ég nú að þessi mynd mundi ekki bjóða upp á mikið.

Myndin segir frá hópi unglinga sem eru í fangelsi. Dag einn eru þau send til að þrífa stórt hótel sem á að breyta í móttökustöð fyrir utangarðsmenn. Þegar þau eru svo komin á staðinn gera þau sér fljótlega grein fyrir því að það er brjálæður morðingi sem hefur komið sér fyrir á hótelinu og hann hefur engan áhuga á að leyfa þeim að vera í sínu húsi.

Þetta er fyrsta myndin sem WWE(World Wrestling Entertainment) gerir og var hún hugsuð til að byggja upp persónuna Kane(Glen Jacobs) sem kom reglulega fram á RAW sem er fjölbragðaglímuþáttur sem er sýndur í bandaríkjunum. Myndin byggist því að mestu á því að sýna Kane sem óstöðvandi skrímsli en enginn ræður við.

Þegar myndin byrjaði verð ég að viðurkenna að það fór yfir mig smá kjánahrollur yfir hæfileikum leikaranna í myndinni. Það er reynt að kynna okkur fyrir persónunum í byrjun myndarinnar en leikurinn minnir meira á sápuóperu leik heldur en B-mynda hryllingsmynda leik. En það ætti nú samt ekki að koma manni á óvart því handritshöfundur myndarinnar, sem vinnur hjá WWE, reyndi einmitt fyrir sér í sápuóperum áður en hann fékk starfið hjá WWE. Handritið í heildina er heldur ekki gott og er í rauninni svo lélegt að það sæmir varla hryllingsmynd.

Myndin nær þó ágetum spretti um miðpart myndarinnar og maður hélt að myndin mundi ná sér á flug eftir það. En því miður var það bara stuttur kafli sem dofnaði fljótt. Spurning hvort ekki sé hægt að kenna leikstjóranum um það. En ef menn eru að pæla í því hversu vitlaust það er að fá sápuóperuhandritshöfund(sem fékk ekki einu sinni vinnu við að skrifa sápuóperur) þá ætti nú valið á leikstjóranum, Gregory Dark, að vera enn vitlausara. En hans reynsla af kvikmyndagerð hingað til er að mestu klámmyndir og tónlistarmyndbönd.

Svo hvernig heppnaðist aðaltakmark WWE með þessari mynd, þ.e.a.s byggja upp persónuna Kane fyrir RAW. Jú, Kane var látinn tapa viku eftir viku og það endaði með því að þeir losuðu sig við hann og sendu hann til Smackdown! sem er nokkurskonar B-útgáfa af RAW þar sem minna reyndir fjölbragðaglímumenn eru. Svo það má segja að þessi mynd hafi misheppnast á öllum stöðum. Misheppnaðist sem hryllingsmynd, misheppnaðist til að byggja upp Kane, misheppnaðist í aðsókn og gagnrýnendur hlægja af henni.

Myndin fær bara */****.
Helgi Pálsson