Videodrome (1983) Leikstjóri: David Cronenberg
Handrit: David Cronenberg

Videodrome segir frá Max Renn(James Woods) sem er eigandi lítilla kapalsjónvarpsstöðvar sem sérhæfir sig í soft-core klámmyndum. Einn daginn þegar hann er að leita að nýju efni fyrir sjónvarpsstöðina rekst hann fyrir tilviljun á þátt sem heitir Videodrome. Eina sem þátturinn snýst um eru pyntingar og morð en einhverja hluta vegna verður Max Renn alveg heillaður af þættinum og reynir að grafa upp eiganda þáttanna til að fá leyfi fyrir því að sýna þáttinn á sjónvarpsstöðinni sinni. Í leit sinni af eigandanum kemst hann af því að þátturinn er í raun tilraunarútsending leynilegra stofnunar til að reyna heilaþvo áhorfendur svo hægt sé að stjórna þeim en að auki veldur útsendingin heilaæxli sem leiðir til þess að Max Renn sér ofsóknir og ekki líður á löngu þar til hann hættir að geta greina á milli raunveruleikans og ofsjónanna.

Þegar þessi mynd kom út á sínum tíma þá ýtti hún mikið undir þær samsæriskenningar sem voru í gangi í USA á þeim tíma um að stjórnvöld reyndu að nota sjónvarpsútsendingar til að stjórna bandarískum almenningi. Handritið hjá Cronenberg byggist að mestu upp á kjaftasögum sem höfðu verið í gangi í Bandaríkjunum á þeim tíma. En handritið er mjög gott hjá Cronenberg og hann kemur sögunni vel til skila. Myndin er “surrealism” og því ætti maður ekki að vera eyða of mikilli orku í að reyna skilja myndina, heldur leyfa henni að fljóta áfram því skýringarnar koma þegar líður á myndina.

Leikurinn í myndinni er góður. Hún er reyndar að mestu einleikur hjá James Woods og skilar hann sínu hlutverki vel eins og alltaf. Aukaleikararnir skila sínu sem ætlað er af þeim og því verður myndin trúverðug. Leikstjórnin hjá Cornenberg er líka góð og heldur hann í þennan rólega söguþráð sem hann er þekktur fyrir og hún svínvirkar fyrir þessa mynd. Nær góðri uppbyggingu og heldur manni við efnið alla myndina. Það kemur aldrei kafli í myndinni þar sem maður hugsar með sér að standa aðeins upp. Tæknibrellurnar í myndinni eru líka góðar. Einfaldar, eru vel gerðar og skila sínu.

Í heildina er þetta topp hryllingsmynd sem er líka hátt metin í “cult”-heiminum. Fær ***/****. Er ekki alveg tilbúinn að gefa henni meira því að við fyrsta áhorf þá er hún nokkuð þung og erfitt að melta hana. En hún verður bara betri í hvert skipti sem maður horfi á hana.

Skjáskot úr myndinni.

- Mynd 1 - Mynd 2 - Mynd 3 - Mynd 4 -

-Trailer-
Helgi Pálsson