Freddy vs. Jason(2003) Leikstjóri: Ronny Yu
Handrit: Damian Shannon og Mark Swift

***ATH. Smá Spolier í greininni***

Þessi mynd kom mér verulega á óvart þegar ég sá hana fyrst því ég bjóst við að menn mundu gjörsamlega klúðra myndinni eins og þeir eru vanir að gera í Hollywood þegar þeir reyna gera eitthvað skemmtilegt og áhugavert. En þegar ég var búinn að horfa á hana í fyrsta skiptið þá hugsaði ég með mér að þetta væri bara svona “one-hit wonder” og að maður mundi bara hafa gaman af henni í fyrsta skiptið og að hún mundi ekki eldast vel. En svo skemmtilega vill til að ég hafði rangt fyrir mér. En núna eru liðin rúm 3 ár frá því að myndin var gefin út og enn skemmti ég mér jafn vel yfir henni og þegar ég sá hana í fyrsta skipti.

Þegar við komum til sögu í myndinni þá hafa öll börnin á Elm Street gleymt barnamorðingjanum Freddy Krueger svo hann getur ekki lengur ofsótt þau í draumum þeirra. Freddy bregður á það ráð þá að vekja upp Jason Voorhees og sendir hann til Elm Street til að slátra nokkrum unglingum í þeirri von um að þau fari að muna eftir honum og hærðast hann. Áætlun Freddys gengur alveg eftir og hann getur farið að ofsækja og myrða börnin í svefni. En þá kemur upp nýtt vandamál hjá Freddy, því núna þegar hann hefur vakið Jason upp þá hefur Jason engan áhuga á að hætta fyrr en hann verður búinn að drepa alla í bænum og því þarf Freddy að stoppa hann ef hann á að fá einhver börn til að drepa.

Óttalega einfaldur söguþráður sem bíður ekki upp á mikið og inniheldur nánast engar flækjur. En það sem ég er ánægðastur með við þessa mynd er að hún er gerð fyrir aðdáendur Freddy og Jason. Það er ekkert að vera miða á hinn almenna neitenda við þessa mynd. Svo þeir sem hafa ekki haft gaman af þessum persónum í gegnum tíðina munu líklega ekki hafa gaman af þessari.

Leikurinn í myndinni er alveg hræðilegur. Hann er ekki langt frá því sem maður sér hjá áhugafólki um kvikmyndir sem ákveður að taka upp sína eigin bíómynd. Nema munurinn á þessu tvennu að leikararnir í Freddy vs. Jason fengu borgað fyrir sinn part á meðan áhugaleikarnir gera það frítt. En það hefur samt voðalega lítil áhrif á myndina því allir leikararnir í myndinni eru byssupúður fyrir Freddy og Jason. Sem gerir það enn skemmtilegara því allir þeir sem maður vill að verði drepnir í myndinni drepast á endanum.

Handritið er ekki flókið. Líklega passað á 10 blaðsíður. Það eru í raun aðeins tvær persónur sem fá einhverja persónusköpun. Hinar fá ekki neitt. Þessar tvær persónur er Freddy og Jason og sú persónusköpun sem er í myndinni er í raun upprifjun af því sem við fengum að vita í seríunum um persónurnar. Svo er ekkert verið að eyða púðri í að kynna okkur fyrir því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í myndinni eins og hvernig standi á því að Crystal Lake sé svona nálægt Elm Street.

Kvikmyndataka í myndinni er bara í fínasta lægi og ég var nokkuð sáttur með hana. Það var ekkert verið að reyna gera hlutina voðalega flotta eða einhver tilraunarstarfsemi í gangi með myndatöku heldur fær myndin að fljóta vel á fram. Og stærsti kostur myndarinnar er einmitt sá að myndin flýtur mjög vel áfram og er ótrúlega auðmeltanleg þrátt fyrir einfaldan söguþráð með fullt af gloppum og hryllilegum leik. En þar má líklega þakka Ronny Yu fyrir glæsilega leikstjórn. Þrátt fyrir að hann sé ekki að skapa nýjar stjörnur úr leikurum myndarinnar þá stendur hann sig frábærlega og réttu hlutirnir eru gerðir rétt og vel. Ég er nokkuð viss um að ef ungur og óreyndur leikstjóri hefði fengið þetta handrit og þennan leikarahóp þá hefði hann örugglega gjörsamlega klúðrað myndinni.

En þegar á öllu er á botninn hvolft. Þá skiptir það mig voðalega litlu máli með alla þessa galla í myndinni. Freddy og Jason fá að njóta sýn í botn í þessari mynd og hún snýst algjörlega í kringum þá. Ég sjálfur hef lengi haft mjög gaman af Freddy en aldrei haft neitt voðalega gaman af durgnum honum Jason. En ég fæ allt það sem ég vildi og gott betur í þessari mynd og skemmti mér enn alveg frábærlega yfir þessari mynd. Ótrúlega skemmtileg mynd munað við hvað sumir hlutar myndarinnar eru lélegir. Smelli á hana hiklaust ***/**** fyrir frábæra skemmtum.
Helgi Pálsson