Vampire Hunter D: Bloodlust(2000) Leikstjóri: Yoshiaki Kawajiri , Jack Fletcher (Ensktalsetta útgáfan) Tai Kit Mak
Handrit: Brian Irving ,Yoshiaki Kawajiri, Hideyuki Kikuchi Bókin D – yousatsukou

Þessi mynd er líklega ekki þessi týpíska hryllingsmynd enda teiknimynd en það breytir samt ekki þeirri staðreynd að þetta er líklega ein besta hryllingsmynd sem ég hef séð frá upphafi og ég gjörsamlega féll fyrir þessari.

Sagan gerist í framtíðinni þegar vampírur og önnur yfirnáttúruleg öfl hafa tekið yfir jörðina. Eftir að vampírurnar höfðu drottnað yfir jörðinni í mörg ár ákváðu mennirnir að berjast til baka og ná yfirráðum aftur. Þegar við komum til sögunar hefur mönnunum tekist að mestu að vinna jörðina til baka og vampírunum hefur verið nánast útrýmt.

Ein af seinustu vampírum sem eru eftir á lífi tekst að ræna dóttur eins mans. Maðurinn ræður því aðalsöguhetjuna, D, til þess að elta uppi dóttur sína og drepa hana ef hún hefur breyst í vampíru eða koma með hana til baka ef hún sé en mennsk. D er hálf vampíra og hálfur maður og eins er hann með lítinn púka í vinstri hendinni sér til aðstoðar. En D er ekki sá eini sem var ráðinn til að ná í dótturina því Marcus bræðurnir voru ráðnir líka í það verk. Marcus bræðurnir aka um á stórum trukki fullum af vopnum og skjóta á allt sem hreyfist að kvöldi til. Og þá byrjar kapphlaupið hjá D um að ná dótturinni áður hún breytist í vampíru og eins á undan Marcus bræðrunum ef hann ætlar að fá eitthvað borgað fyrir verkið. Þetta kapphlaup leiðir bæði D og Marcus bræðurna inn í djúpa undirheima vampíranna þar sem þeir þurfa að takast á við djöfla og skrímsli sem ekki er hægt að sigra með venjulegum aðferðum.

Sagan í myndinni er alveg ótrúlega góð og heilsteypt. Hún er það góð að maður gæti trúað því að þessi heimur sem er sagt er frá í myndinni sé í raun til. Myndin er byggð á þriðju sögu Hideyuki Kikuchi um D sem heitir “Demon Deathchase”. Ég hef ekki lesið þessa sögu svo ég get ekki sagt til um hvað munar á myndinni og sögunni en hvað sem því líður þá stórefast ég um að það sé eitthvað sem menn geta kvartað yfir því útgáfan að sögunni í myndinni er nánast snilldin ein. Þær verða varla mikið betri en þessi.

Persónusköpunin er líka mjög góð. Við fáum að vita nánast allt sem við þurfum að vita um persónurnar í myndinni fyrir utan D. Það er mjög mikið sem manni langar að vita um hann en fær það ekki. En það er líka alveg í takt við söguna þar sem D er huldumaður sem enginn veit hver er en allir heyrt af honum. En auðvitað eftir því sem líður á söguna því meira fáum við að vita um hann.

Ég sá ensku útgáfuna af myndinni og talsetninginn er virkilega góð og alveg í takt við það sem skeður á skjánum og eins eru teiknimyndagæði virkilega góð og sést augljóslega að menn hafa vandað sig við gerð myndarinnar. Svo það er lítið hægt að setja út á tæknilegu hliðina á myndinni.

Í raun er ekkert sem ég get sett út á myndina nema kannski að ég hefði viljað hafa hana lengri því hún var það skemmtileg. Persónurnar í myndinni eru flest allar frábærar. Þær sem voru það ekki voru það stutt á skjánum að það tekur því varla að kvarta yfir því. Meira að segja hesturinn sem D var á var virkilega flottur. En ég set hiklaust á þessa ****/**** enda meistaraverk.
Helgi Pálsson