Leikstjóri: Michael Gornck
Handrit: Lucille Fletcher, Stephen King og George A. Romero.

Hérna eru Stephen King og George A. Romero mættir aftur til að endurtaka leikinn frá fyrri myndinni. Sama þemað er í gangi en í þessari eru 3 stuttar sögur og ein teiknimynd sem tengir sögurnar saman.

Fyrsta sagan heitir “Old Chief Wood’nhead” og segir frá hjónum sem reka litla búð í gömlum bæ sem hefur mátt muna fífil sinn fegurri. Dag einn ákveða nokkrir unglingar að ræna búðina og stinga af til Hollywood. Ránið endar með því að hjónin láta lífið og unglingarnir sleppa með peningana og aðra gersemar sem þeir fundu í búðinni. Við lát hjónanna vaknar gamall andi sem er staðráðinn í að hefna fyrir dauða hjónanna. Þetta er best skrifaða sagan í myndinni en hún býður upp á lítið annað en það. Virkar frekar langdreginn þó að hún hafi verið rétt rúmar 25 mín á lengd þá fannst mér eins og hún hafi verið 40 mín á lengd.

Önnur sagan heitir “The Raft” og segir frá nokkrum unglingum sem ákveða að skella sér til sunds í einu stöðuvatni. Eftir smá stund komast þeir að því að það er eitthvað í vatninu sem hefur mikinn áhuga á þeim. Þessi saga er mjög lík The Blob (1958/1988) myndunum þar sem veran í vatninu er klessa sem flýtur í vatninu og étur allt sem hún snertir. Þessi saga er sú besta í myndinni en hún var upprunalega skrifuð fyrir fyrstu myndina.

Þriðja sagan heitir “The Hitchhiker” og segir frá konu sem keyrir á ferðamann sem er að húkka sér far á milli bæja. Konan keyrir í burtu frá slysstaðnum og skilur eftir ferðalangan látinn á veginum. Ekki líður svo á löngu þar til ferðalangurinn fer að ofsækja konuna á leiðinni heim. Þessi saga fær verðlaunin “Mesta vitleysan”. Það er hægt að hlæja nokkuð mikið af þessari og skemmtir hún manni vel. En það er aðallega fyrir það hversu vitlaus sagan er og ýktur leikurinn er í henni.

Þessi mynd heppnast ekki eins vel eins og fyrri myndinni. Smásögurnar eru frekar þunnar og augljósar og að undanskilinni fyrstu sögunni þá kemst tilgangurinn sagnanna frekar illa til skila. Það sem fyrri myndin gerði svo vel nær engan veginn að komast til skila hérna.

Eina sagan sem skilar því sem er ætlast til af henni er “The Raft” og má segja að hún haldi myndinni uppi í meðaltalinu. Leikurinn er vel ýktur hérna en það er ekkert meira en sem gengur og gerist í öðrum B-myndar hryllingsmyndum. En þeir sem höfðu gaman af The Blob munu dýrka þessa sögu.

Menn ættu ekki að leggja mikla vinnu á sig til komast yfir þessa. Hún er ekki þess virði. En engu að síður er hægt að mæla með henni. Hún toppar flestallar þær “Big budget” hryllingsmyndir sem hafa verið að koma frá Hollywood undanfarin ár. Svo er líka 3. myndin á leiðinni í kvikmyndahús og prufusýningar af myndinni hafa verið í gangi í USA og ef eitthvað er að marka fyrstu viðbrögðin þá verður hún líklega betri en fyrsta myndin. Svo ef menn vilja fylgjast með allri seríunni þá er um að gera sjá þessa. En í heildina skríður hún rétt svo í **/**** hjá mér.
Helgi Pálsson