Útgáfuár: 2004
Handrit: Kevin Kennedy og Niels Mueller
Leikstjórn: Niels Mueller
Aðalhlutverk: Sean Penn, Naomi Watts, Don Cheadle, Jack Thompson, Nick Searcy, Mykelti Williamsson.
Sýnd á kvikmyndahátíð í Háskólabíói. Sýningartíma má nálgast á síðu hátíðarinnar http://www.icelandfilmfestival.is

Assassination fjallar um Samuel Bicke sem býr einn eftir að hafa skilið við konuna sína að borði og sæng. Hann er svona týpískur lítilmagnari, einmana og hefur sín eigin gildi, t.d. að ljúga ekki, sem einfaldlega passa ekki inn í þennan heim. Líf Samules hefur verið að fara í vaskinn síðan hann og konan hans skildust og uppbyggð reiði út í þá sem völdin hafa fer að sýna sig. Lygar og svik Nixons í forsetaembættinu stendur í huga hans fyrir allt sem er að mistakast í lífi hans og því ákveður hann í örvilnun að reyna að ráða hann af dögum.

Í Assassination fylgjumst við með lífi örvilnaðs manns stefna hratt niður á við og við sjáum samfélagið út frá hans sjónarhorni. Assassination felur þannig í sér á köflum mjög áhugaverða samfélagsrýni. Aðalpersóna myndarinnar býr yfir mikilli sannfæringu um að sannleikurinn sé alltaf sagna bestur en hann kemst að þeirri niðurstöðu að þegar allt kemur til alls eru það lygararnir sem hirða stöðuhækkanirnar og flottu bílana. Það er endurnærandi að sjá myndir stökum sinnum þar sem persónan ‘lifir ekki bandaríska drauminn’ eins og sagt er í myndinni. Við þekkjum öll þessa týpu sem ekkert gengur í haginn og fer svo að kenna öllum öðrum um hversu illa gengur. Ég skellti einni setningu úr myndinni í tilvitnun dagsins sem ætti að gefa ykkur hugmynd um pælingarnar.

Þessi mynd hefði ekki verið neitt ef ekki hefði komið til kasta ofurmennisins Sean Penn. Penn sýnir stórkostlega leikframmistöðu og nær fullkomlega að túlka óstyrkan og aðeins geðveikan lítilmagnara sem kennir öllum öðrum um það sem mistekist í lífinu hans. Sean Penn er sannkallaður meistari og fær oft ekki þá viðurkenningu sem hann á skilið. Don Cheadle leikur einnig í myndinni og stendur sig með prýði. Ég er mjög sáttur með hlutverkaval hans að undanförnu og á bara um mánuði hef ég séð hann í þremur frábærum óháðum myndum; Hotel Rwanda eftir Terry George, Crash eftir Paul Haggis og svo Assassination.

Kvikmyndatakan er falleg og tökuvélinni er yfirleitt haldið í höndunum (þ.e. handheld-myndataka) sem gefur þessu ákveðna áferð sem ég er alltaf mjög hrifinn af (svipað var uppi á teningnum í Crash). Tónlistin er að sama skapi einföld og falleg. Strengjatónlist á réttu augnablikinum sem er í fullkomnu samræmi við andann í myndinni og tilfinningum aðalpersónunnar hverju sinni. Ég mundi örugglega heimfæra þessa lýsingu á tónlistinni á myndina í heid; einföld og falleg. Hún er ‘karaktersaga’ með stórum skammti af úrvalsleik og skemmtilegri þjóðfélagsrýni til hliðar. Það eina sem ég mundi kvarta yfir er að myndin byggir eiginlega upp að atriðinu þar sem aðalpersónan snappar og ákveður að drepa Nixon. Mér finnst þessi ráðagerð hans líða alltof fljótt hjá og myndinn einhvern veginn skilur eftir sig svona *púff*, hún endar eitthvað svo snögglega. Annars er þetta ekki nógu mikið til að kasta of neikvæðum skugga á myndina og í heildina er ég mjög sáttur.

Niðurstaða:
Einföld og falleg mynd sem er haldið uppi af framúrskarandi leik hjá Sean Penn, góðri myndatöku, tónlist og skemmtilegum þjóðfélagspælingum.

Þessi mynd sýnir algjörlega hvað það er mikil þörf á kvikmyndahátíðum sem þessum. Ég tek hattinn ofan fyrir iiff.

*** 1/2 / *****