Útgáfuár: 2004
Handrit: Paul Haggis
Leikstjórn: Clint Eastwood
Aðalhlutverk: Hilary Swank, Clint Eastwood og Morgan Freeman.

Ég var aldrei sérstakur aðdáandi Clints Eastwood. Ég hafði alveg horft á myndir með honum og fannst t.d. True Crime góð og In the Line of Fire besta skemmtun. Hins vegar komst ég ekki að því hversu mikill snillingur maðurinn er fyrr en ég sá Il buono, il brutto, il cattivo (The Good, the Bad and the Ugly) og Mystic River. Hann er í háu áliti hjá mér núna, ekki aðeins getur hann verið ofursvalur leikari heldur er hann ótrúlegur leikstjóri og hefur Akademían séð tilefni til að verðlauna hann 2x með Óskar fyrir framúrskarandi leikstjórn, fyrir Unforgiven og nú í ár Million Dollar Baby. Alls hlaut Million Dollar Baby 4 ‘stór’ Óskarsverðlaun: Besta mynd, besta leikstjórn (Eastwood), besta aðalhlutverk kvenna (Swank) og besta aukahlutverk karla (Freeman, sem mér finnst persónulega hafa verið illa svikinn þegar hann var ekki verðlaunaður fyrir The Shawshank Redemption).

Million Dollar Baby fjallar um Maggie (Swank) sem á ekkert en hefur tileinkað lífi sínu að fylgja eftir draumnum sínum; að ‘meika það’ í boxheiminum. Hún byrjar að æfa hjá aðalþjálfaranum Frankie (Eastwood) en hann þráast við að taka hana að sér því að hann vill ekki þjálfa konur. Að lokum nær þó samstarfsaðili hans Scrap (Freeman) að sannfæra hann um að taka stelpuna til þjálfunar. Hún tekur ótrúlegum framförum og loks rætist heitasta ósk hennar; hún berst um heimsmeistaratitilinn í boxi. En allt fer á annan veg en menn höfðu búist við og hefur það alvarlegar afleiðingar fyrir Maggie.

Million Dollar Baby er að mínu mati stórkostleg mynd. Hér er umfjöllunarefnið átakanleg saga konu sem gerir allt til að fylgja eftir lífsdrauminum sínum. Hún á ekki fyrir mat og fjölskyldan hennar sýnir henni engan kærleik. Draumurinn er allt sem hún á og með þrjósku og þrautseigju tekst henni að láta drauma sína rætast. Sterkir undirtónar trúar, vonar og þrautseigju geta ekki annað en heillað áhorfandann með og látið hann týna sér í ótrúlegu ferðalagi Maggie. Million Dollar Baby er tímamótaverk í mannlegri sögusköpun, ef svo má að orði komast.

Million Dollar Baby hefur allt til að bera; mjög góða sögu, einstaka persónusköpun sem framúrskarandi leikaraframmistöður fylgja vel eftir, góða og mjög viðeigandi tónlist og velútfærð boxatriði. Persónusköpunin er ótrúleg, sérstaklega er eftirminnilegt hið skemmtilega tvíeyki sem Eastwood og Freeman mynda. Þó að sagan sé vissulega átakanleg er alltaf stutt í húmorinn, sem gerir myndina aðeins léttari að melta. Húmorinn er samt aldrei úr takti við sögusköpunina og er alltaf nógu lágstemmdur til að ganga ekki gegn heildaryfirbragði myndarinnar. Karakterinn Danger er t.d. algjör snilld, samtölin milli Eastwoods og Freemans eru meistaraverk og Eastwood sjálfur lumar oftar en ekki á hnyttinni athugasemd.

Niðurstaða:
Million Dollar Baby er stórkostleg mynd. Frábærar leikaraframmistöður samtvinnaðar með ótrúlegri sögu gera hana ógleymanlega. Heill sé Clint!

**** 1/2 / *****