Útgáfuár: 2005
Handrit: Steve Faber og Bob Fisher
Leikstjórn: David Dobkin
Aðalhlutverk: Owen Wilson, Vince Vaughn, Cristopher Walken, Rachel McAdams og Isla Fisher.
Sýningarstaðir: Regnboginn, Smárabíó, Laugarásbíó og Borgarbíó (Akureyri).
Sýningartíma má sjá á slóðinni http://kvikmyndir.is/?v=bio.

Nýjasta myndin úr smiðju félaganna í Frat Pack er loksins komin í bíó. Kannski er best að byrja á því að útskýra hugtakið. Frat Pack er augljóslega skopstæling á hinu fræga Rat Pack og er safn grínleikara sem gera oft myndir saman. Meðlimir Frat Pack eru Wilson bræður, Ben Stiller, Will Ferrell og Vince Vaughn. Úr smiðju Frat Pack hafa komið frábærar grínmyndir á síðustu árum, þ.á.m. frábærar myndir eins og Dodgeball og Anchorman og hin óendanlega fyndna Zoolander. Í Wedding Crashers leika tveir þeirra, Vaughn og O. Wilson, aðalhlutverk og Will Ferrel lætur sjá sig í “cameo”-hlutverki.

Wedding Crashers segir frá tveimur mönnum (Wilson og Vaughn) sem stunda það að fara í brúðkaup til að ná sér í konur. Allt gengur vel í nokkur ár. Síðan fer annar þeirra (Wilson) að fá bakþanka en samþykkir þó að fara í brúðkaup hjá dóttur fjármálaráðherra Bandaríkjanna og þá byrjar klúðrið. Wilson verður ástfanginn af dóttur ráðherrans og Vaughn sængar með annarri dóttur ráðherrans sem er ekki öll þar sem hún sýnist og vill ekki sleppa honum.

Ég var mjög sáttur með Wedding Crashers. Það má kalla hana á ýmsum stigum rómantíska gamanmynd en þó er aldrei langt í grínið og vitleysuna. Þó að vissulega hin sígilda bandaríska væmni laumi sér inn í myndina þegar dregur á hana verður það aldrei of mikið. Margar svona myndir eiga það til að detta svolítið niður eftir hlé þegar rómantíkin tekur við en Wedding Crashers fellur ekki í þá gryfju. Hún heldur áhorfandanum við efnið allan tímann.

ÞAð sem er oftast fyndnast við Frat Pack myndirnar eru óborganlegir karakterar. ÞAð sama gildir hér um Wedding Crashers. Persónusköpunin er frábær, persónurnar eru í raun ýktar útgáfur af týpum sem við sjáum í hversdagslífinu og þær virka vel. Will Ferrel kemur síðan sterkur inn í lokin með gestahlutverk. Wedding Crashers er ekki það besta sem við höfum séð frá Frat Pack en hér er samt á ferðinni mjög fyndin, og á mörgum stigum lúmsk, grínmynd.

Lokaniðurstaða:
Ef þið fílið húmor Frat Pack-gengisins ættuð þið ekki að vera svikin af Wedding Crashers. Mjög góð grínmynd sem heldur dampi allan tímann.

*** 1/2 / *****