Útgáfuár: 2005
Handrit: Mark Burton, Billy Frolick, Eric Darnell og Tom McGrath
Leikstjórn: Eric Darnell og Tom McGrath
Aðalhlutverk: Ben Stiller, Jada Pinkett Smit, Chris Rock, David Schwimmer, Sacha Baron Cohen, Cedric the Entertainer.

Frá Dreamworks Animation, sem hafa t.d. gefið út Shrek-myndirnar og Shark Tale, kemur nýja tölvuteiknimyndin Madagascar.

Madagascar segir frá fjórum dýrum; ljóninu Alex, zebrahestinum Marty, flóðhestinum Gloríu og gíraffanum Melvin. Þau eiga það sameiginlegt að þau eru öll íbúar í dýragarði í New York. Lífið gengur vel hjá þeim þangað til einn dag Marty kemst í tilvistarkreppu og sleppur út úr dýragarðinum. Hin þrjú dýrin fylgja honum eftir til að ná í hann en þegar mannfólkið nær þeim ákveður það að senda þau í burtu í kössum á skipi (ég man ekki hvert). Hins vegar detta kassarnir út fyrir skipið og þau rekur á eyjuna Madagascar. Þar hitta þau hóp af lemúrum með konunginn Julien fremstan í flokki. Á Madagascar verða dýrin sem lifðu í dýragarði og þekktu ekkert annað en að maturinn væri færður þeim o.s.frv. að læra að komast af í hinu villta.

Madagascar er þessi dæmigerða tölvutæknimynd; saga þar sem persónurnar lenda í ævintýri en þó er djúpur, móralskur undirtónn til staðar í myndinni. Dýrin 4 lenda í alls kyns hremmingum í myndinni en læra þó að þrátt fyrir allt eiga þau alltaf hvort annað.

Það sem skiptir bersýnilega höfuðmáli í svona myndum eru leikararnir. Í þessu tilviki eru aðalleikararnir fjórir velsniðnir að hlutverki sínu og skila góðri frammistöðu. Þó fannst mér karakterinn Melvin, sem David Schwimmer talaði fyrir, hafa verið of líkur Ross í Friends, sem Schwimmer leikur einnig, og það eyðilagði smá fyrir mér. Það eru þó aukapersónurnar sem skína í myndinni og mér fannst mörgæsirnar 4 og lemúrarnir 2 vera fyndnustu karakterarnir. Cedric the Entertainer og Sacha Baron Cohen standa sig frábærlega og sérstaklega Cohen, sem ljær persónunni Julien geðveikislegan blæ og ótrúlega fyndinn hreim.

Ég mundi hiklaust skilgreina Madagascar sem svona feel-good mynd sem þú getur slappað af yfir eftir amstur dagsins. Hún býr yfir léttu og skemmtilegu umhverfi með nokkrum bröndurum sem falla yfirleitt vel í kramið. Það bregst þó ekki frekar en fyrri daginn að margir af bröndurunum eru í trailernum. Ef þú ert að leita að hlátursmaskínu þar sem þú vilt vera að deyja úr hlátri frá upphafi til enda er Madagascar ekki myndin. Ef þú vilt hins vegar fína og létta grínmynd með góðum karakterum er Madagascar málið.

Lokaniðurstaða:
Létt og skemmtileg grínmynd sem, þó að hún sé ekki sprenghlægileg, stendur fyrir sínu.

*** / *****