Leikstjóri: Marcus Nispel.
Handrit: Kim Henkel & Tobe Hooper (1974 screenplay). Scott Kosar.
Leikarar: Jessica Biel, Jonathan Tuckr, Andrew Bryniarski, R. Lee Ermey…etc


Enn heldur endurgerðaræðið áfram í Hollywood, í þetta skipti var ákveðið að slátra Bandarískri mynd í stað þess að stela hugmyndum frá öðrum löndum. En hvernig er hægt að bæta myndir sem eru nánast fullkomnar? Ég hef alltaf álitið að endurgerð væri eitthvað sem ætlað væri til að bæta forverann. Þetta tókst vel í nokkrum tilfellum, t.d. The Fly sem Cronenberg endurgerði árið 1986 og svo má einnig minnast á The Thing sem Carpenter gerði 1982. Þessar endurgerðir mega eiga það að þær gerðu þó það sem þeim var ætlað, s.s. að gera gott úr annars fremur slöppum myndum. Núna upp á síðkastið hafa vitleysingarnir í Hollywood verið að ná sér í peninga á sem auðveldasta máta, þ.e. að endurgera myndir sem þarf engan veginn að endurgera. Dæmi um þetta er The Ring(2002) og The Haunting(1999), þessar endurgerðir bættu ekki um betur hvað upprunalegu myndirnar varðar, heldur hæddust að þeim.

The Texas Chainsaw Massacre segir frá fimm ungmennum á leið sinni í gegnum Texasfylki, þegar þau rekast á unga konu, alblóðuga, vafrandi á miðjum þjóðvegi. Krakkarnir sem eru flestir prýðilega viðkunnarlegir (þó maður sjái strax hverjir munu deyja í myndini og hverjir ekki), taka veslings konuna uppí og ætla sér að hjálpa henni. Konugreyið reynir að segja þeim frá einhverjum hræðilega illum manni sem hefur víst “drepið þau öll”. Ekki nóg með þetta, heldur virðist konan vera búin að fá nóg af sinni jarðvist, skellir upp í sig byssu og skýtur sig. Krakkarnir reyna eins og þeir geta að finna einhverja hjálp og villast þá á Hewitt heimilið þar sem bíður þeirra allt annað en hjálp.

Eitt er víst, The Texas Chainsaw Massacre á eftir að vera virkilega vinsæl mynd. Ekki kæmi mér á óvart þótt að við heyrðum að þetta væri ógeðslegasta mynd allra tíma og allt þar fram eftir götunum. Það er svosem mjög skiljanlegt því að þetta virkar allt saman, stelpurnar skrækja í bíóhúsunum og strákarnir fá kannski að halda utan um þær á meðan.
Allt þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að The Texas Chainsaw Massacre (2003) er illa misheppnuð endurgerð…

Marcus Nispel sem er ný dottinn úr tónlistarmyndböndum reynir að stjórna þessu sökkvandi skipi sem gengur jafn vel (eða illa) og búast mátti við. Hér sjáum við endalaus bregðuatriði sem skilja ekkert eftir sig nema kannski þá staðreynd að ég fæ líklegast fyrr hjartaáfall heldur en ég kæri mig um. Einnig held ég að kvikmyndatökumaðurinn mætti aðeins að slaka á með myndavélina, sem er á köflum eins stjórnað sé af illa höldnum Parkinsonsjúklingi. Það lá við að manni væri óglatt á tímabili og oftar en ekki var maður heppinn ef maður sá hvað væri í gangi sem minnti mig óskemmtilega á Thirteen Ghosts(2001).

Það hefði átt að halda sig við handrit Hoopers, það hafði skemmtilegan frumleika og alvöru hræðslu. Sem að þessi mynd var laus við, hvort sem það er gott eða slæmt.
Sögubreytingarnar eru margar hverjar fáránlegar, og er allt gert til að sannfæra áhorfandann um að þetta gæti/hefði gerst. Því það vill svo skemmtilega til að myndin er auglýst sem “byggð á sannsögulegum atburðum”, Það virkar vel því að unglingar og börn í Bandaríkjunum halda því nú fram að Leatherface sé til og að The Texas Chainsaw Massacre hafi í raun og veru gerst. Því miður fyrir þetta fólk þá er þetta eins fjarri sannleikanum og hægt er að komast. Upprunalega myndin var lauslega byggð á fjöldamorðingjanum Ed Gein, hann var notaður sem grunnur að persónunni Leatherface og heimili hans. Þannig að þið sem haldið að Leatherface hafi verið eða sé til þá verð ég að hryggja ykkur…

Vegna vinsælda myndarinnar er ég ósköp hræddur um að fleiri Chainsaw myndir fylgi í kjölfarið… og ef þær verða líkar þessari er ekki von á góðu.

The Texas Chainsaw Massacre er upprunarlega frá 1974 og hefur allt það sem góð hryllingsmynd þarf að hafa; skuggalegt andrúmsloft, hæfilega mikið af viðbjóði og illmenni sem stendur líklegast upp sem besta sköpun á þorpara sem sést hefur í hvíta tjaldinu.
The Texas Chainsaw Massacre frá 2003 hefur ekkert… nema kannski langþreytta formúlu fyrir unglingahrollvekju. Fullt af tilgangslausum bregðuatriðum og allt er reynt til að kreista fram viðbjóðstilfinningu hjá áhorfendum.

**(tvær stjörnur af fjórum)

Azmodan – 12/11/2003