Bretum hafa aldrei tekist sérstaklega vel til með hryllingsmyndir. Hvað þá núna síðustu árin, en eitthvað segir manni að þessi mynd er öðruvísi. Athyglin sem myndin er búin að fá er nóg til þess að setja hvaða lélegu hryllingsmynd á háan stall(Ring endurgerðin t.d.)

Í stuttu máli fjallar 28 Days Later um vírus sem brýst út í Bretlandi og allt fer til fjandans, við kynnumst Jim sem vaknar í yfirgefnum spítala og man ekkert hvað gerst hefur. Ekki skána hlutirnir þegar hann kemst út, London er yfirgefin, gjörsamlega tóm fyrir utan nokkra blóðþyrsta sýkta sem elta hann fram og til baka. Hann slæst í hóp með þeim fáu sem eftir eru og reyna þau að finna leið út úr þessu, eða lækningu við vírusnum.

Danny Boyle veit alveg hvað hann er að gera og tekst, þrátt fyrir mjög takmarkað fjármagn, og digital myndavél að skapa ótrúlegustu atriði.
Það er skemmtileg vonleysistilfinning yfir allri myndinni sem ekki er hægt að segja að hafi tekist svona vel áður, nema þá kannski í Day of The Dead eftir Romero. Myndatakan og lýsingin er öll byggð á þessu þema myndarinnar, myndavélin gengur oftar en ekki laus og skapar það óreiðutilfinningu ásamt dimmlega lýstu umhverfi. Það er ekki fyrr en myndin fer að enda að hlutirnir fara niður á við. Annars frábært handrit er rifið í tætlur og gert að skrípaleik þegar hálftími er eftir af myndinni. Jim sem er búinn að vera hálfgerður aumingi alla myndina breytist í ofurhetju með krafta þeirra sem eru með veiruna og guð má vita hvað.
Leikararnir ná þó að halda sínu striki þrátt fyrir það og gefa þeir flestir frá sér einstakan leik, sem heldur myndinni meira og minna uppi.

28 Days Later er ekki mynd fyrir hvern sem er, hún mun aldrei ná á sama stall eins og Hollywood bregðumyndirnar í vinsældum(sem er gott að mínu mati). Hér er komin mynd sem minnir á gamlar, góðar hryllingsmyndir. Sem byggja á andrúmslofti, en ekki á ódýrum hræðslum.

**1/2

Azmodan - 07/08/2003