THE RING (2002)

Leikstjóri: Gore Verbinski
Aðalhlutverk: Naomi Watts, David Dorfman, Martin Henderson, Brian Cox.

Það er oft erfitt að vera hryllingsmyndafrík. Ennþá í dag eru hryllingsmyndir litnar hornauga og taldar til “síðri” tegunda kvikmynda. Þegar maður reynir að taka dæmi um “góðar” hryllingsmyndir þá lendir maður bara í útúrsnúningi: Silence of the Lambs og Se7en eru “dramatískir þrillerar”, The Exorcist og The Omen virka bara á kaþólskt-trúaða, Psycho er of gömul o.s.frv. Fyrir mér eru allar þær myndir sem ganga út á það að vekja óhugnað eða hræðslu í áhorfendum hryllingsmyndir. Undirflokkarnir eru aukaatriði - grundvallarpælingin er að hræða okkur og hver sá sem ætlar að segja mér að tilgangur Se7en sé ekki að hræða áhorfendur ætti bara að horfa á hana aftur og spyrja sig hvort David Fincher hafi verið að setja skuggalegt útlitið eða heimspekina í fyrirrúm þegar hann gerði hana. Unglingahryllingsmyndirnar eru að gera nákvæmlega það sama, nema bara með ófágaðri vinnubrögðum og minni árangri. Það er samt ekki of oft sem við fáum virkilega góða hrollvekju sem tekur sig alvarlega og notast ekki við aum brögð til að hræða áhorfendur. Sem betur fer kemur alltaf ein og ein slík mynd út. Í fyrra var það The Mothman Prophecies og núna er The Ring, endurgerð japanskrar hrollvekju, komin út.

Ég held að ég hafi ákveðið að sjá Ringu, þessa umtöluðu, alræmdu japönsku hryllingsmynd, þegar ég heyrði af því að Hollywood ætlaði að endurgera hana. Þrátt fyrir endalaust smekkleysi kanans þegar kemur að endurgerðum þá eru upprunalegu myndirnar oftar en ekki ágætar, og svo var ég líka búinn að heyra margt gott um Ringu, ekki síst það að hún væri hrikalega óhugnaleg sem er alltaf kostur í hryllingsmynd. Ég hafði ekki athugað hana fyrr því, ef ég á að vera hreinskilinn, þá fannst mér hugmyndin einfaldlega heimskuleg. Videospóla sem drepur? Komm on!

Hvort sem það var vegna of hárra væntinga eða bara lítilla gæða myndarinnar sjálfrar, þá fannst mér lítið til Ringu koma. Mér fannst hún fyrst og fremst illa skrifuð og svo var hún langdregin og ekki næstum því jafn ógnvekjandi og ég hefði viljað, þó svo að þrjú, fjögur atriði hafi verið mjög áhrifarík. Ég missti einnig undir eins áhuga á amerísku endugerðinni - með svona óáhugavert viðfangsefni, hvernig er hægt að búast við áhugaverðri amerískri endurgerð?! Áhugi minn vaknaði ekki aftur fyrr en ég sá “teaser”-trailerinn sem minnti mig mikið á flottasta “teaser” sem ég hef séð til þessa, og var hann fyrir The Cell. Þetta kynningarbrot sannaði umfram allt að myndin myndi líta vel út, sem er yfirleitt nóg til að fá mig til að slefa eins og hund.

Svo voru líka þrjár manneskjur tengdar myndinni sem gerðu það að verkum að ég hreinlega varð að gefa henni sjens: Gore Verbinski, sem ég hef fylgst með síðan ég sá hina stórskemmtilegu Mouse Hunt fyrir nokkrum árum (og The Mexican, þrátt fyrir langdregni og ýmsa galla, var fjarri því að vera léleg); Naomi Watts, sem var ekkert minna en fullkomin í Mulholland Drive; og svo Steven Spielberg … Af hverju Spielberg? Jú, því hann er ekki gjarn á að framleiða lélegar myndir, hvort sem það er beint eða í gegnum Dreamworks fyrirtækið sitt (og The Ring er Dreamworks framleiðsla). Fyrst og fremst var það þó útlit myndarinnar sem fékk mig til að fylgjast meira með en ég hefði annars gert, enda fannst mér japanska myndin stílbrigðalaus og frekar ljót. Samt sem áður var ég í vafa um að myndinni tækist að yfirvinna lélegt handrit Ringu, enda þörf á miklum breytingum þar.

Svo var það í fyrradag sem ég sá loksins The Ring, þá búinn að vera sveltur á alvöru hrollvekju í bíó í einhverja fimm mánuði (nema maður taki Red Dragon með, og það ætla ég ekki að gera), með væntingarnar í botni og tilhlökkunin að drepa mig. Ég var gjörsamlega sannfærður um það að Verbinski hefði náð að laga galla japönsku myndarinnar og ef ekki þá var ég alveg jafnsannfærður um það að myndin gæti virkað á útlitinu einu saman. Sem betur fer hafði ég rétt fyrir mér í báðum tilfellum. The Ring er föðurbetrungur í hæsta gæðaflokki. Hún skarar fram úr forveranum í nær alla staði (fyrir utan tvo galla sem voru ekki til staðar í Ringu) og er ekki bara ótrúlega flott heldur líka mjög óhugnaleg. Gallarnir? Lokaatriðin tvö í japönsku myndinni voru mun meira creepy, kom mikil gæsahúð. Í endurgerðinni glittir rétt svo í skuggan af þeim (fyrir þá sem vilja vita um hvað ég er að tala þá tengjast þessi atriði brunni og sjónvarpi …). Og svo sést aðeins of mikið í andlit einnar persónu …

The Ring er mjög nákvæm eftirlíking sögulega séð. Það er ekki búið að breyta miklu í söguþræðinum (reyndar hefur verið bætt við subplotti um hesta, sem leiðir af sér eitt besta atriði myndarinnar - í ferjunni). Þrátt fyrir að vera svona trú forveranum er búið að betrumbæta uppbygginguna á handritinu svo um munar. Myndin er ekki jafn endasleppt (og endalaus) og sú japanska og lýkur henni á mun skemmtilegri nótum, og svo er Verbinski mun betri í því að halda góðum takti í gangi. Myndin er aldrei langdregin eða leiðinleg og hjálpar myndavélin þar mikið til, enda er The Ring sjónrænt séð án efa með betri myndum ársins. Svo verð ég líka að vera ósammála samgagnrýnenda mínum, Azmodan, í því að segja að saga Samöru hafi verið eyðilögð í þessari mynd. Þvert á móti fannst mér að í þessari útgáfu hafi saga hennar verið mun betur útfærð og útskýrð en í japönsku myndinni - ég hafði sérstaklega mikið gaman af Samöru-hluta myndarinnar og fannst mér hann bæta við myndina aukið tilfinningalegt vægi - eitthvað sem vantaði algjörlega í Ringu, sem var köld og allt að því tilfinningalaus.

Naomi Watts er einnig frábær í aðalhlutverkinu. Hún fær ekki alveg jafnmikið að gera hérna og í Mulholland Drive, en skapar þrátt fyrir það góða og skemmtilega kvenhetju. Svo er hún líka eins og sköpuð fyrir myndavélina - hún heldur athygli manns í hvert skipti sem hún birtist á tjaldið. Ég man ekki eftir að hafa séð svona photogeníska leikkonu birtast á minni lífstíð. Ef hún verður ekki súperstjarna á næstunni þá er eitthvað mikið að. Aðrir leikarar standa sig allir vel, en þá sérstaklega Martin Hendesson og David Dorfman. Brian Cox er líka skemmtilegur í litlu hlutverki. Hans Zimmer, sá yfirleitt óþolandi tónsmiður, á einnig góðan dag með sinfóníunni sinni. Hann ætti að semja tónlist fyrir fleiri hryllingsmyndir - verk hans hérna og fyrir Hannibal er með því besta sem hann hefur gert í langan tíma.

Þrátt fyrir að ég sé að lofa The Ring í hæstu himna þá er hún alls ekki fullkomin. Fyrir rökhyggjufólk og þá sem fíla ekki style-over-substance myndir, þá á The Ring örugglega eftir að valda einhverjum vonbrigðum. Hún skilur eftir ýmsar ósvaraðar spurningar, margar hverjar óþægilega augljósar (hver, t.d., bjó til videospóluna?), en svoleiðis smáatriði eru gjaldið sem maður þarf að greiða fyrir að vilja njóta góðra hryllingsmynda - alvarlegar hryllingsmyndir eru nefnilega svolitlar þversagnir í sjálfu sér og þess vegna þarf maður oftar en ekki að taka það sem gefið að maður eigi ekki að hugsa of mikið og gáfulega um söguna (en hvernig er þá hægt að taka hana alvarlega?). Ég ætla þó ekki að ganga svo langt að segja að The Ring sé gáfuleg, en hún tekur sig svo sannarlega alvarlega. Hérna höfum við týpíska gróusögumynd (svona hryllingsútgáfa af high-concept hasarmynd) sem er útblásin peningalega séð og heldur stundum að hún sé aðeins meira en hún á nokkurn rétt á að vera. Það breytir því samt ekki að hún er vel gerð og allsvakalega atmosferísk hrollvekja sem vinnur sitt starf vel af hendi: ef þið verðið ekki svolítið skelkuð á þessari mynd þá veit ég ekki hvað!