INTERVIEW WITH THE VAMPIRE (1994)

Aðalhlutverk: Tom Cruise, Brad Pitt, Kirsten Dunst, Antonio Banderas, Christian Slater, Stephen Rea.
Leikstjóri: Neil Jordan.

Neil Jordan gerði Interview with the Vampire á eftir bestu mynd sinni, The Crying Game, og hvarf þar með aftur til róta sinna, nefnilega hina draumkenndu The Company of Wolves, eina eftirminnilegustu hrollvekju 9. áratugarins. Interview á margt sameiginlegt með Company: báðar myndirnar eru byggðar á skáldsögum sem tóku vel þekkt söguminni og breyttu þeim á skemmtilegan hátt (í Company er Rauðhettu-ævintýrið tekið fyrir og Interview tekur á allri vampíruarfleifðinni). Interview er þó ívið betri af margvíslegum ástæðum; hún er ekki eins kaflaskipt, er mun fágaðri, skartar betri leikurum og gífurlega góðri kvikmyndatónlist.

Myndin, byggð á bókinni eftir Anne Rice (sem skrifaði handritið sjálf), segir frá vampírunni Louis (Pitt) sem kvöld eitt ákveður að segja ókunnugum manni (Slater) sögu lífs sins – 200 ára lífs síns, frá því að vampíran Lestat (Cruise) færði hann inn í þessa myrku veröld og til dagsins í dag.

Á þeim tíma sem myndin var gerð þótti það umtalsvert að Tom Cruise var valinn til að leika Lestat, þessa frægustu nútímavampíru dagsins í dag. Anne Rice sjálf var án efa æstust mótfallanda, þangað til hún sá myndina og skrifaði obinbera afsökunarbeiðni á reiði sinni: Cruise stendur sig nefnilega frábærlega og ljær Lestat þvílíkan persónuleika að erfitt er að dást ekki að frammistöðu hans (og þetta er mikið hrós frá mér, annáluðum Tom-Cruise-hatara). Litlu síðri er Brad Pitt sem, þrátt fyrir að vera ekki eins yfirgnæfandi og meðleikari hans, kemur mjög mikið á óvart með mjög tilþrifalítilli en áhrifaríkri frammistöðu. Pitt er ein af fáum stjörnum í Hollywood í dag sem getur virkilega leikið og er Interview sönnunargagn um það. Banderas, Rea og Slater standa sig allir vel í minni, en mikilvægum, hlutverkum, en Kirsten Dunst eignar sér myndina og er án efa eftirminnilegust allra leikaranna. Hægt er að rífast endalaust um það hvernig leikkona hún er í dag, en það efast enginn um leiksigur hennar hérna, sem Claudia, vampírubarnið endalausa. Dunst, sem var aðeins 12 ára við gerð myndarinnar, sýnir okkur fullkomlega breytingu Claudiu úr barni og í fullvaxna konu fasta í barnslíkama og á mikið hrós skilið.

Auk allra hæfileikaríku leikaranna hefur Jordan fengið til liðs við sig einvala lið kvikmyndagerðarfólks og er öll umgjörð myndarinnar fullkomin. Myndatakan er dásamleg, sem og búningar og sviðsmyndir. Stan Winston sá um förðunarbrellurnar og eru þær, eins og búast má við frá Winston, yndislegar og ekki eru tæknibrellurnar síðri (margar hverjar eru næsta ósýnilegar). Jordan heldur um þetta allt saman með traustum höndum. Interview er einfaldlega ein af bestu myndum hans til þessa.

Ekki má svo gleyma ógleymanlegri tónlistinni. Elliot Goldenthal, sem á þessum tíma hafði varla skapað sér nafn, var fenginn til að semja tónlistina við myndina á tveimur vikum eftir að fyrra tónskáldið, George Fenton (sem vann með Jordan við The Company of Wolves), skilaði af sér tónlist sem hægði víst of mikið á myndinni. Á þessum tveimur vikum samdi Goldenthal með betri tónsmíðum fyrir kvikmynd sem heyrst hefur á 10. áratugnum og fékk óskarsverðlaunatilnefningu fyrir (þó svo hann hafi ekki unnið) og hefur hann unnið með Jordan síðan. Ég myndi mæla með myndinni eingöngu tónlistarinnar vegna, þó svo það sé óþarfi.

Annað lofsamlegt við myndina er að hún er með betri yfirfærslum frá bók yfir á kvikmynd sem ég hef séð. Hún er mjög trú bókinni án þess að vera ljósrit og leyfir sér ýmislegt sem bókin innihélt ekki. Hvernig Jordan færir suma kafla bókarinnar yfir á tjaldið er yndislegt – hann nær til dæmis gjörsamlega að taka upp kaflann með sviðsvampírunum og ungu stúlkunni á sviðinu. Persónulega hefði ég viljað sjá meira af persónusköpun Claudiu í myndinni. Í bókinni er persóna hennar mun flóknari og áhugaverðari (og illgjarnari), en það er svosem enginn galli. Það er í sjálfu sér kraftaverk að Claudia hafi komist svona yndislega til skila í höndum Dunst, svo ég kvarta ekki.

Interview with the Vampire er ein af flottustu hrollvekjum sem gerðar hafa verið, og einnig með þeim gáfulegustu. Hún fjallar um líf og dauða, miskunnsemi og siðleysi, hvað það þýðir að vera manneskja, hvað það þýðir að vera illgjarn, hún tekur fyrir spurningar um guð og djöfulinn, himnaríki og helvíti og pælir í allri okkar tilveru. Bókin kafar kannski dýpra, en það er ekki oft sem við sjáum hryllingsmynd sem færir okkur svona pælingar á silfurfati. Við skulum því vera þakklát.