Föstudaginn 21. ágúst mun Kvikmyndir.is vera með sérstaka forsýningu á nýjustu mynd Quentins Tarantino, Inglourious Basterds.

Til þess að mynda aðeins öðruvísi stemmningu höfum við ákveðið að hafa sýninguna kl. 12 á miðnætti (og þar að auki er þetta kvöldið fyrir Menningarnótt - svo allir verða vakandi hvort eð er), í stóra salnum í Laugarásbíói. Miðaverð er 1200 kr.

Það verður einnig smá Nexus-bragur á sýninginni þar sem myndin verður sýnd án hlés (sem útskýrir líka verðið). Þetta er sami dagur og frumsýningin er vestanhafs, en myndin verður annars frumsýnd þann 26. ágúst.

Það eru þrjár leiðir til að kaupa miða. Ef þið eruð með kreditkort þá er langþægilegast að smella beint hingað.

Annars ef þið viljið borga með debetkorti/í heimabanka þá sendið þið okkur póst á kvikmyndir@kvikmyndir.is, segið hversu marga miða þið viljið og við reddum því á augabragði. Þið getið síðan borgað við innganginn hálftíma fyrir sýningu en þá aðeins með peningum.

Undirritaður sá myndina fyrir stuttu síðan og ákvað strax efitrá að sækjast eftir forsýningu á henni. Myndin er bókuð að hitta í mark hjá sönnum Tarantino-aðdáendum.

Inglourious Basterds segir frá bandarískri herdeild sem er send inn á mitt yfirráðasvæði Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni til þess að drepa eins marga þýska hermenn og hún mögulega getur og brjóta niður liðsandann í hernum. Með helstu hlutverk fara Brad Pitt, Eli Roth, Christoph Waltz, Daniel Brühl, Til Schweiger, Diane Kruger og Mélanie Leurent.

Myndin er bönnuð innan 16 ára. Annars vonumst við til að sjá sem flesta.

ATH. Þeir sem að mæta í búningum í stíl við myndina fá spes Basterds-tengdan varning við innganginn.




Tómas Valgeirsson