
The Majestic
Leikstjórinn knái Frank Darabont er önnum kafinn við að auglýsa nýjustu kvikmynd sína, The Majestic sem Jim Carrey leikur í (og gengur hræðilega illa í kvikmyndahúsum vestra). Hann lét þó út úr sér fyrir stuttu að hann væri að skrifa handritið að Fahrenheit 451, byggðri á sögu eftir goðsögnina Ray Bradbury. Mel Gibson keypti réttinn á miðjum seinasta áratug síðustu aldar, en hefur ekkert gert við þann rétt síðan. Þegar Darabont setti sig í samband við hann og spurði hvort hann mætti ekki skrifa handritið og leikstýra, þá gaf Gibson leyfi sitt fyrir því. Gibson ætlaði á sínum tíma að leikstýra, framleiða og leika aðalhlutverkið í myndinni, en finnst hann vera orðinn of gamall til þess nú. Darabont sagði einnig að hann sæi Paul Walker ( The Fast and the Furious ) fyrir sér í aðalhlutverkinu.