Efnið inn á áhugamálinu upp á síðkastið hefur ekki verið upp á sitt besta. Mér finnst alltaf leiðinlegt þegar einhver sendir inn grein sem augljóslega hefur verið lögð mikil vinna í en kannski er hún hreinlega illa skrifuð eða þá að efni hennar sé frekar tilgangslaust. Ég ætlaði mér alltaf að gera stórar kröfur til innsendra greina en fljótt varð mér ljóst að aðeins um 10-20 % greina eru virkilega góðar. Ég þarf oft örugglega að eyða meiri tíma í að leiðrétta greinarnar en það tekur fyrir notendur að skrifa þær. Ég vil þess vegna biðja notendur um að vanda sig þegar þeir skrifa; hafa málfar í lagi og sérstaklega stafsetningu en þeim villum má auðveldlega útrýma með yfirlestri.

Svo er það efni greinanna. Ég vil benda á að greinar sem innihalda í raun einungis endursögn á kvikmyndum eru algjörlega tilgangslausar og ná í rauninni ekki til neins lesendahóps. Ef þetta er 1000 orða grein sem endursegir handritið gerir það að verkum að þeir sem hafa ekki séð myndina geta ekki lesið hana og þeir sem hafa séð hana hafa ekkert gaman að henni. Hún inniheldur ekkert nýtt fyrir síðarnefnda og þess vegna kemur aldrei neitt úr henni. Endilega gerið greinar um ykkar uppháldsmyndir en forðist að segja frá efninu beint nema kannski stutta endursögn. Ræðið frekar um eitthvað sérstakt, nýtt, áhugavert við myndina, það sem ykkur finnst gott við hana, tæknilegar hliðar, heimspeki og það sem liggur að baki. Annars vegar er hægt að skrifa almennar greinar sem allir geta lesið og svo dýpri greinar sem fara ofan í kjölinn á ákveðnum myndum og verða skemmtilegar og áhugaverðar lesningar fyrir þá sem hafa séð myndirnar.

Svo eru kannarnir upp til hópa ekki góðar. Ég ætti kannski að gera meira af því að hafna þeim. Yfirleitt er spurningin í könnunum ekki nema nokkur orð og ég trúi ekki að notendur geti ekki stafsett þessi fáu orð rétt; passað upp á kyn, tölu, stóra stafi o.fl. Svo mega kostirnir ekki vera of takmarkandi og reyna á að hafa þá sem flesta. Svo er hálfgert skilyrði að hafa Annað sem valmöguleika.

Ég vona að notendur taki þetta til athugunar til að við getum sameinast um að gera flæðið hingað inn betra.

Kv. spalinn