Y tu mamá también (2001)

Land: Mexíkó
Leikstjóri: Alfonso Cuarón
Leikarar: Gael García Bernal, Diego Luna, Maribel Verdú o.fl.

Hér er um að ræða mynd frá Mexíkó, en þar hefur geisað mikið “kvikmyndavor” undanfarin ár. Þessi mynd fjallar í stuttu máli um tvo sautján ára vini sem hugsa um lítið annað en stelpur og djamm. Þeir hugsa sér gott til glóðarinnar þegar kærusturnar þeirra fara til Evrópu í frí og ætla þeir aldeilis að sletta úr klaufunum.
Þeir hitta konu sem er tíu árum eldri en þeir og verða þeir brjálæðislega hrifnir af henni og reyna að fá hana með sér á ímyndaða, fullkomna strönd en tekst það ekki.
Stuttu seinna kemst hún að því að maðurinn hennar er að halda fram hjá henni og ákveður þá að fara með þeim að leita að þessari strönd. Eins og búast má við fer að hitna í kolunum á milli þremenninganna.

Þessi mynd byrjaði eins og e-r léleg amerísk unglingamynd en fljótlega rættist úr henni svo um munar. Þetta er fyrsta mynd leikstjórans sem skrifar hana líka og tekst honum vel til með hvort tveggja.
Af leikurunum ber Gael García Bernal af, en hann má einnig sjá í Amores Perros og The Crime of Padre Amaro.
Þessi mynd var m.a. tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Ég mæli hiklaust með þessari mynd, sérstaklega fyrir þá sem sáu Amores Perros en þessi er jafnvel betri.
Guess what! I've got a fever, and the only prescription is more cowbell!