Sá Fridu í gærkvöldi og The Hours fyrir 10 dögum. Mæli eindregið með þeim báðum. Mikið er dásamlegt að horfa á myndir sem renna ljúflega áfram, snerta við einhverju í manni, eru ekki öskur, sprengingar,hávaði,skothríð.
Þetta eru myndir sem skilja eitthvað eftir, hvor um sig.

The Hours segir sem sé frá þrem konum, Virginiu Wolf, konu sem byggir á söguhetju hennar og svo konu sem er að lesa söguna. Þetta fléttast saman á snilldarlegan hátt og tengingin kemur fram í lokin. Leikurinn er fyrsta flokks og tónlistin er hreint út sagt mögnuð. Phillip Glass samdi hana og fer það frábærlega úr hendi. Myndin væri ekki það sem hún er, meistarastykki, ef tónlistarinnar nyti ekki við.
Samtölin eru vel skrifuð og trúverðug. Setningar sitja eftir í manni.
Það sem er svo skrýtið við þessa mynd, og áhugavert, er að hún heldur manni í eins konar angist allan tímann. Maður veit að eitthvað dramatískt, eitthvað sárt, á eftir að gerast en spurningin er hvað. Maður situr á sætisbrúninni og bíður.
Alveg hreint magnað hvað þeim tekst vel upp að halda manni svona. Myndin er hæg af stað en heldur manni fullkomlega allan tímann. Hugföngnum.

Frida segir söguna af Fridu Kahlo, mexikönskum kvenmálara. Hún lifði litskrúðugu lífi og leið hræðilegar þjáningar allt sitt líf vegna bílslyss sem hún lenti í á unga aldri.
Myndatakan er frumleg og skemmtileg, skemmtileg hvernig þeir flétta saman hreyfimynd og málverkum. Oft veit maður ekki hvort maður er að horfa á málverk eða á leikarana.
Selma Hayek á lof skilið fyrir leik sinn í myndinni, enda hlaut hún tilnefningu fyrir.
Seyðandi mexikönsk tónlist hljómar undir stóran hluta af myndinni og gefur henni suðrænt yfirbragð. Ljær henni mikinn trúverðugleika. Stórfín mynd, skemmtileg og áhugaverð.

Annars er ótrúlega mikið af góðum myndum í bíó núna, maður getur orðið svo hryllilega þreyttur á þessu venjulega Hollywood rusli.<br><br><a href="http://www.rithringur.is">Rithringur.is - Vettvangur fyrir rithöfunda</a