Tim Burton Tim Burton er einn sérstæðasti leikstjórinn sem er starfandi í dag. Hann hefur tileinkað sér stórfurðulegan stíl sem samanstendur af gamaldags hryllingsmyndahúmor og andrúmslofti og gotneskum goðsagnarkenndum karakterum. Ef fólk vill fá nákvæma útskýringu á því hvað telst vera gotnesk mynd þá er best að horfa á myndirnar hans Tim Burton. Hann hefur gert nálægt 10 myndir og þær eru hver annarri furðulegri. Hann hefur skapað sinn eigin martraðaheim og það er snilldin við þennan merka mann.

Timothy William Burton fæddist 25 ágúst 1958 í Burbank, California. Burbank er þetta týpíska úthverfi þar sem öll húsin líta eins út með innkeyrslu og garð fyrir framan húsin. Í þessu “happy happy” umhverfi var Tim svolítið utanvelta því hann var svo feiminn og furðulegur í æsku. Hann var ekki góður í skóla og hafði lítinn áhuga á bókum. Hann hafði hinsvegar mikinn áhuga á að mála og teikna ásamt því að horfa á kvikmyndir. Sérstaklega hafði hann gaman af hryllingsmyndum og skrímslamyndum. Godzilla,Hammer hryllingsmyndirnar frá Bretlandi og myndir eftir Ray Harryhausen voru eftirlæti Burtons og ein mesta hetjan hans var leikarinn Vincent Price. Hann las einnig mikið af verkum eftir Edgar Allan Poe og sótti mikinn innblástur úr þeim verkum. Eftir high school fór Tim í háskóla í Californiu þar sem hann lærði animation.

Honum líkaði ekkert alltof vel að vinna sem animator jafnvel þótt hann var að vinna hjá Disney fyrirtækinu. Hugmyndir hans þóttu ekki í samræmi við það sem Disney fyrirtækið stendur fyrir. Hann vann að teiknimyndum eins og The Fox And The Hound og The Little Mermaid. “Ég fann fyrir því að ég passaði ekki inn í Disney hópinn og gat ekki unnið að því að teikna sæta refi, það var bara ekki minn stíll” segir Burton. Hann reyndi að fá fjármagn hjá Disney til að gera teiknimynd sem átti að heita Frankenweenie en Disney neitaði honum fjármagninu á þeim grundvelli að efnið væri ekki hæft til sýninga fyrir börn. Það var augljóst að Tim var að fjarlægast Disbey ört en fékk samt að gera stutta teiknimynd sem hét Vincent í höfuðið á hetjunni sinni Vincent Price. Price var einmitt sögumaður í þeirri teiknimynd og myndin fékk allskonar verðlaun. Frankenweenie myndin var geymd en ekki gleymd. Hún kom út nokkru seinna en samt ekki með blessun helstu markaðsaflanna(ekki fyrr en 1992). Þessi “underground” teiknimynd komst samt að augntóftum leikarans Paul Reubens sem var að leita að leikstjóra fyrir myndina sína Pee Wee Herman. Reuben varð stórhrifinn af hæfileikum Burtons og bað hann um að taka að sér verkið. Útkoman var Pee Wee´s Big Adventure(1985).

Þar með var boltinn farinn að rúlla fyrir Burton og leiðin greið fyrir hvað sem hann vildi. Hann gerði næst myndina Beetlejuice, sem var frumleg draugasaga sem hafði mjög einkennandi svartan húmor sem var eitthvað nýtt í Hollywood og minnti á gömlu hryllingsmyndirnar. Einnig voru margar skemmtilegar brellur í henni og hugmyndaauðgi. Beetlejuice fjallar um hjón sem lenda í hræðilegu bílsslysi og reyna að koma nýjum eigendum að húsi þeirra út með draugagangi sínum og hjálp frá draugnum Beetlejuice(Michael Keaton í essinu sínu). Beetlejuice sló óvænt í gegn og var Burton treyst fyrir risastórri kvikmynd um teiknimyndablaðahetjuna Batman. Dökki stíllinn hans Burton smellpassaði við efni myndarinnar og hann gerði Gothamborg gotneska og skuggalega. Aftur fékk hann Michael Keaton til liðs við sig í hlutverk leðurblökumannsins og fékk stórstjörnuna og gæðaleikarann Jack Nicholson í hlutverk Jókersins. Nicholson fór á kostum og vann til óskarsverðlauna og myndin var ein tekjuhæsta mynd sögunnar og kom af stað Batman æði.
Nú var Burton orðinn heitasti leikstjórinn í Hollywood og þá ákvað hann að fara sínar eigin leiðir. Næst gerði hann myndina Edward Scissorhands sem var nokkurn veginn um hann sjálfan þar sem ólst upp í úthverfi Burbank sem furðufuglinn sem allir skildu ekkert í. Myndin fjallar um ungan mann sem býr hjá vísindamanni sem gerir allskonar furðulegar tilraunir. Vísindamaðurinn er leikinn af engum öðrum en Vincent Price viti menn. Vísindamaðurinn setur beitt skæri í stað fingra á unga manninn sem leikinn er af Johnny Depp(sem var ung stjarna á uppleið þarna). Þegar vísindamaðurinn deyr svo er kominn tími til að maðurinn með skærin fari út í heiminn en heimurinn tekur ekki honum með svo opnum örmum. Tvímælalaust ein persónulegasta myndin hans Burton. Þá var komið að því að fylgja eftir vinsældum Batman og nú ætlaði Burton ekki að láta framleiðendurna hjá Warner Bros skipta sér of mikið af myndinni. Hann fékk frekar frjálsar hendur og gerði framhaldið talsvert drungalegra og þyngra og sumir vilja meina að hún sé betri sem Burton-mynd. Aftur var Keaton leðurhetjan og nú bættust við Christopher Walken sem auðkýfingurinn vondi Max Shreck, Michelle Pfeiffer sem kattarkonan í latexinu og óþekkjanlegur Danny DeVito sem Mörgæsin. Nú hafði hann fullkomnað þetta gotneska drungalega andrúmsloft sem hann hafði alltaf séð fyrir sér í Gothamborg og framleiðendur voru ekki ánægðir. Myndin halaði samt inn peninga en ekki í sama magni og fyrirrennari hennar og áhorfendur voru ekki allir ánægðir.

Þegar Tim var yngri fannst honum gaman af hryllingsmyndum og hann man eftir því að hafa séð mynd eftir Ed nokkurn Wood. Þegar Burton kynnti sér söguna á bak við Ed Wood þá varð hann hugfanginn af henni. Þarna var maður á sjötta áratugnum að gera furðulegar myndir og var hrikalega misskilinn. Burton sá greinilega líkingu við sjálfan sig. Ed Wood er frægastur fyrir þann titil að vera talinn einn lélegasti leikstjóri Hollywood frá upphafi. Johnny Depp leikur Wood og Martin Landau leikur hin sögulega Bella Lugsi sem var gömul fræg hryllingsstjarna frá þessum tíma. Myndin er tekinn á svart hvíta filmu til að minnast þessara mynda og til að koma manni á tímabilið. Þetta var og er eina myndin hans Tim Burton sem er ekki fantasía heldur byggð á alvöru manni. Það er einnig skemmtilegt að bera saman samband Wood og Lugosi við Burton og Vincent Price það er að segja að fá að vinna með hetjunni sinni.
Burton lét sér svo nægja að framleiða þriðju myndina í Batmanmyndabálknum og lét Joel Schumacher fara sínum skítugum höndum um Batman hetjuna(smá biturleiki).

Árið 1996 vildi Burton halda áfram í nostalgíu kvikmyndagerð sinni og nú vildi hann gera mynd sem átti að minna á gömlu geimverumyndirnar á sjötta áratugnum og hann fékk marga góða leikara með í pakkann eins og t.d. Jack Nicholson,Glenn Close,Michael J. Fox,Sarah Jessica Parker,Annette Bening,Pierce Brosnan,Danny DeVito,Martin Short,Rod Steiger(RIP),Natalie Portman og Tom Jones. Útkoman var ágætis ruglgrínmynd með algjörum Burton húmor út í gegn. Það sem eyðilagði svolítið fyrir þessari ágætismynd var það að sama ár kom út Independence Day og hirti allan áhuga á geimveruinnrásahugmyndum.

Þá er komið að bestu mynd hans Burton að mínu mati alla vega. Árið 1999 ákvað Tim að gera kvikmynd eftir einni elstu draugasögu Bandaríkjamanna. Það er sagan um hauslausa riddarann sem skelfir þorpið Sleepy Hollow. Myndin heitir einfaldlega Sleepy Hollow og er byggð á bókinni The Legend of Sleepy Hollow eftir Washington
Irving og handritið skrifaði engin annar en Andrew Kevin Walker(Se7en,8mm). Í helstu hlutverkum eru Johnny Depp(enn og aftur) og Christina Ricci. Depp leikur lögreglumanninn Ichabod Crane sem kemur frá New York borg árið 1799 til þorpsins í norðri sem heitir Sleepy Hollow. Í þessari mynd fær maður að sjá allt það besta sem Tim Burton hefur upp á að bjóða. Ótrúlega sviðsmynd,myndatöku,stemmningu og frábæra tónlist Danny Elfman sem hefur gert held ég tónlistina við allar myndir Burton og er alltaf jafn magnaður í tónsmíðum. Einnig er Christopher Walken scary sem riddarinn með hákarlatennurnar, þeas áður en hann missir hausinn. Allgjört nútímalistaverk og minnir á gömlu ævintýrin eins og þau eiga að líta út. Burton húmorin býr til sérstaka stemmningu sem hoppar á milli að hræða úr manni líftóruna og láta mann hlægja.

Hinir mestu snillingar geta auðvitað alltaf stigið feilspor og það gerði Tim Burton þegar hann reyndi að endurgera Apaplánetuna árið 2001. Aðra eins hörmung er erfitt að fyrirgefa en hann á skilið vorkunn og vonandi lærir hann af þeim mistökum sem Planet Of The Apes(2001) var jafnvel þótt Tim Roth var ágætur í henni þá var Mark Wahlberg enginn Charlton Heston og myndin var hlægileg á köflum. Það var samt flott tæknivinna á bak við hana og förðunin var stórkostleg. Plottið í endann pirraði held ég alla á þessari jarðkringlu. Burton á að halda sig við það sem hann gerir best og láta endurgerðir og peningahyllingar í friði.

Næsta mynd Tim Burton heitir Big Fish og kemur út á næsta ári. Hún fjallar um föður(Albert Finney) á dánarbeði og son hans sem er að reyna að komast að því hvernig lífi föður hans lifði. Sonurinn reynir að púsla saman lífi föður síns með hjálp goðsagna sem hann uppgötvar með þeim fáu staðreyndum sem hann hefur. Þannig kemst hann að því hvað faðir hans gerði rétt í lífi sínu og einnig hvað hann gerði vitlaust. Þannig að þetta gæti verið eitthvað efni sem er kærkomið Burton og hljómar ekki sem týpísk Burton-mynd enda er Tim Burton ekki týpískur.


Fróðleikur um Tim Burton:

1.Trade Mark hjá Burton:a) Oft byrja myndir hans á því að það er flogið í gegnum eitthvað(Batman,Edward Scissorhands,Beetlejuice), eða eitthvað elt(Batman Returns,Mars Attacks,Sleepy Hollow).
b) Oft gerast myndir á jólum eða á Hrekkjavöku og flest allar hafa þær gotneskt yfirbragð.
c)Sögurnar fjalla oft um misskilinn einsetumann eða furðufugl sem er utan ramma venjulegs samfélags
d)Sýnir oft dauða eða limlesta hunda
e) Oft er snjókoma um nótt í myndum Burtons
d) Notar mikið fuglahræður

2.Tim Burton hefur mikinn áhuga á trúðum og reynir oft að vísa í þá eða sýna þá (t.d. í Batman Returns er mikið af sirkusfólki).
3. Hefur oft fólk í svart hvítum fötum og helst að það sé röndótt svart og hvítt
4. Í Beetlejuice breytist Michael Keaton í furðulega veru með hringekju á hausnum. Ofan á þessari hringekju er hauskúpa sem seinna varð Jack Skellington í teiknimyndinni The Nightmare Before Christmas, sem Burton skrifaði og framleiddi.

Imdb.com einkunn á Burton myndirnar
Planet Of The Apes(2001) = 5.9
Sleepy Hollow(1999) = 7.4
Mars Attacks(1996) = 6.0
Ed Wood (1994) = 7.9
Batman Returns (1992) = 6.4
Edward Scissorhands(1990) = 7.5
Batman(1989) = 7.2
Beetlejuice(1988) = 7.0
Pee Wee´s Big Adventure (1985) = 6.6


“You don't know whether chimps are going to kill you or kiss you. They're very open on some levels and much more evil in a certain way.”- Tim Burton

-cactuz