Das Experiment Ég hef verið að leita að þessari mynd í nokkurn tíma og fann hana loksins hvar annars staðar en á Laugarásvideo(snillingar þar). Das Experiment er þýsk mynd sem kom út í fyrra og sló öll met í Þýskalandi. Ég verð nú bara að segja það að þessi mynd var betri en ég hélt. Hún er talsvert betri en Run Lola Run og ég hallast að því að þetta er ein besta evrópska mynd sem ég hef séð í langan tíma.

Das Experiment er byggð á sannsögulegri tilraun sem var framkvæmd í Stanford háskólanum í USA og kallaðist einfaldlega The Stanford Prison Experiment.Reyndar er hún byggð á bók sem kallast Black Box sem er byggð á þessari tilraun. Þessi tilraun er færð yfir til þýskalands í myndinni og bókinni( mjög fyndið að stela einhverju frá Bandaríkjunum frekar en öfugt). Leigubílstjórinn Tarek Fahd ,sem er leikin af Moritz Bleibtreu(kærastinn í Run Lola Run), rekst á blaðaauglýsingu um tilraun sem þarfnast sjálfboðaliða. Í laun fá “tilraunarotturnar” 4000 mörk sem er ágætis peningur. Hann ákveður að taka þátt því honum vantar peninga eins og hver annar maður. Hann ákveður samt að slá tvær flugur í einu höggi því hann ákveður að gera blaðagrein um þetta og smygla myndavél inn fyrir dagblað(greinilegt að hann hefur unnið eitthvað fyrir fjölmiðla og klúðrað því).

Þegar hann kemur á tilraunastaðinn sér hann að 19 aðrir menn eru þarna inni. Tilraunin gengur út á það að 20 menn skipta sér í tvennt. Einn hópurinn bregður sér í hlutverk fanga og hin hópurinn í fangaverði. Tarek lendir í hóp fanganna og þeir bera allir númer í stað nafna. Allir eru þetta ósköp venjulegir menn sem koma til að eignast auðvelda peninga. Í fyrstu tekur enginn þessu alvarlega og menn gantast en svo þegar rígur myndast á milli manna með mismundandi bakgrunn þá fara menn að fatta hversu valdamiklir eða valdalitlir þeir eru. Tiraunin á að standa í 2 vikur og margir fara að efast um það hvort þeir haldi þetta út því það er greinilegt að sumir eru komnir til að svala þorsta fyrir einhverju öðru en peningum.

Spennan í þessari mynd er svo listilega vel stigmögnuð og karaktersköpunin er ótrúlega vel gerð. Maður finnur svo fyrir stressinu og angistinni sem fangarnir þurfa að þola. Þetta magnþrungna andrúmsloft gerir þessa mynd að betri spennumynd heldur en 20 Hollywood myndir til samans.
Ég verð að segja það að Hollywood má fara að passa sig ef Þjóðverjar gera fleiri svona myndir. Það kæmi mér ekki á óvart ef þessi mynd yrði endurgerð í Bandaríkjunum. Þetta er fullkomin ádeila á fangelsi og hvað það er stutt í misnotkun á valdi fangavarða. Ég skora á “alvöru” kvikmyndaáhugafólk að kíkja á þessa mynd því þið verðið ekki fyrir vonbrigðum. Mér finnst eiginlega hálfasnalegt að þessi mynd skyldi ekki hafa komið í bíó hér á landi því hún á allveg heima á alþjóða markaði.

Ef fólk vill skoða síður um Stanford Prison Experiment þá mæli ég með www.prisonexp.org eða www.zimbardo.com eða www.realpsychology.com

Annars er líka fínt að skoða www.dasexperiment.de þótt hún sé á þýsku.
Ég gef þessari mynd hiklaust fullt hús stiga.

“The best way to stop a rebel is humiliation” -fangavörður í myndinni

-cactuz