Ég varð fyrir því óláni um daginn að slysast inn á óvissusýningu á myndinni The Art of War með Wesley Snipes. Aðra eins vitleysu hef ég bara sjaldan séð áður í bíó og hef ég þó séð marga vitleysuna. Handritið er mjög lélegt og söguþráðurinn frekar klisjukenndur og bara leiðinlegur. Það er nákvæmlega EKKERT sem kemur á óvart og það er alltaf hægt að sjá hvað kemur næst. Handritið er skrifað af þeim félögum Wayne Beach og Simon Barry. Wayne Beach hefur bara skrifað eitt handrit áður sem eitthvað hefur verið gert úr og það var handrit myndarinnar Murder at 1600 sem skartaði einnig Wesley Snipes. Simon Barry hefur verið aðeins duglegri við að koma með handrit og á að baki handrit eins og: 36 hours to die(??) og The Falling(??). Aðallega hefur hann samt verið í myndatökum og myndi ég ráðleggja honum eindregið að halda sig bara við það.
Leikstjórnin er ekki mikið skárri. Leikstjóri myndarinnar heitir Christian Duguay og á að baki myndinna Screamers(1995) auk nokkurra sjónvarpsmynda. Ég hef ekki séð Screamers og eftir að hafa séð þessa mynd ætla ég ekki einu sinni að pæla í því að hugsa um það að velta því fyrir mér að spá í að leigja hana.
Wesley Snipes leikur aðalhlutverkið auk þess sem hann er einn af framleiðendum myndarinnar. Hann hefur líklega fengið að ráða nokkuð um sitt hlutverk og hefur það örugglega verið markmið hans að verða James Bond svarta mannsins. Það mistekst. Hann er að vísu flinkur í bardagaatriðum en furðuleg myndatakan verður oft til þess að ekki næst alveg að gera jafn mikið úr bardagaatriðunum og efni stóðu til. Persóna hans er lítið útskýrð og illa skrifuð þannig að það er kannski ekki beint við hann sjálfan algjörlega að sakast. Aðrir leikarar í myndinni eru algjört aukaatriði í mjög svo klisjukenndum hlutverkum sem allir sem eihverntíman hafa kveikt á imbanum á föstudagskvöldi og séð ríkissjónvarpsmyn hafa séð áður. Reyndar var einn karakter sem ég hafði gaman af í þessari mynd. Hann var jafnframt eini ljósi punkturinn við þessa bíóferð(reyndar var poppið ágætt). Það var lögregluforinginn sem var að elta góða gæjann. Það var miðaldra gaur sem virtist vera alveg jafn þreyttur á því að hanga í þessari mynd eins og ég var að hanga í bíósalnum. Setningarnar sem hrutu af vörum þessa manns voru engu að síður það mikið snilld að jaðraði við gullmola í hvert skipti sem hann opnaði á sér kjaftinn. Hlutverk hans var nú samt ekki það frumlegasta en hann náði að koma því vel til skila. Því miður dugði það ekki til að hífa myndina upp og fáránleikinn varð mestur í uppgjöri góða karlsins og vonda mannsins þegar þeir mættust á þröngum gangi. Tóku þeir upp sinn hvorn hólkinn og miðuðu á hvorn annan þar sem þeir hlupu í áttina að hvorum öðrum. Kúlurnar þutu út um byssurnar og skildu eftir sig Matrix rákir(???) þar sem þeir náðu að hitta ekki hvorn annan í svona 2 metra fjarlægð.
The Art of War er sori og óþverri sem ég mæli með að allir forðist. Mæli ég með að þeir sem eru að hugsa um að sjá myndina noti peninginn í eitthvað skemmtilegra og vitrænna eins og til dæmis að brenna hann eða henda honum út um gluggann. Mun meiri skemmtun felst í því.
Takk fyrir.