Í síðustu viku fór ég að sjá tvær nýjar myndir með Robin Williams. fyrst fór ég á sýningu Bíófélagsins 101 á “One Hour Photo” og daginn eftir sá ég Visa forsýningu á myndinni “Insomnia” í Kringlubíó.
Það sem þessar myndir eiga sameiginlegt er að í þeim báðum fer Robin Williams með hlutverk “vonda kallsins” ef svo má segja, allavega er hann ekki alveg heill á geðsmunum í þeim báðum. Eru þetta tvær af þrem myndum sem hann lék í með stuttu millibili til að reyna að breyta aðeins um ímynd og losa sig svolítið við “ofvirki brandarakallinn” stimpilinn sem hann hefur. Þriðja myndin er svo myndin “Death to Smoochy” sem er væntanleg innan skamms.

One Hour Photo

Í One Hour Photo leikur Williams mann að nafni Seymour Parrish. Hann vinnur við að framkalla ljósmyndir í framköllunarstofu sem staðsett er inni í risastórri verslun, svipaðri wall-mart. Hann leggur metnað sinn í starfið en þó sérstakan metnað í að framkalla myndir fyrir fjölskyldu eina sem kemur reglulega með myndirnar sínar í framköllun á þennan stað. Það má eiginlega segja að Sy, eins og hann er kallaður, sé haldinn áráttu gagnhvart þessari fjölskyldu. Fjölskyldan samanstendur af fallegri og elskulegri móður (Connie Nielsen), tillitslausum og mjög uppteknum föður (Michael Vartan) og Jakop, litla drengnum þeirra sem er nýorðinn 9 ára (Dylan Smith).
Í myndinni fylgjumst við vel með persónunni Sy og hvernig áhugi hans á fjölskyldunni vex á sama tíma og hann færist nær hengiflugi geðveikinnar. Robin Williams fer á kostum í þessu hlutverki. Oft á tíðum látlaus leikur hans er í hrópandi ósamræmi við þá ímynd sem hann hefur en um leið algjörlega skotheldur í að túlka sína persónu og þá andlegu baráttu sem hann á í við sjálfan sig. Hugsa ég að hann gæti vel komið til greina þegar farið verður að tala um hugsanlegar Óskarsverðlaunatilnefningar.
Myndatakan nær vel að fanga þá stemningu sem leitað er að. Mikil og meðvituð notkun á hvítum lit gefur manni hálf óhuggulega tilfinningu, svipað eins og maður sé staddur á sjúkrahúsi eða geðveikrahæli. Sagan líður áfram og ekki er mikið um sjónrænan hasar en þeim mun meiri byggt á að byggja upp þann andlega. Sumir hafa meira að segja gengið svo langt að líkja myndinni við myndir meistara Hitchcock.
Ég var mjög sáttur þegar ég gekk út af þessari mynd. Þetta er ekki feel-good mynd en afskaplega góð mynd og ég er alltaf ánægður þegar ég sé góða mynd.

Insomnia

Insomnia fjallar um ferð tveggja rannsóknarlögreglumanna, þeirra Will Dormer (Al Pachino) og Hap Eckhart (Martin Donovan), frá L.A. til afskekts þorps í Alaska til að hjálpa lögreglunni þar að rannsaka morðmál. 17 ára stúlka fannst myrt og yfirgefin á ruslahaugunum. Þeir hefjast handa við að aðstoða bæjarlöggurnar Ellie Burr (Hillary Swank) og Fred Duggar (Nicky Katt).
Robin Williams leikur morðingjann í þessari mynd, rithöfund að nafni Walter Finch. Það er enginn spoiler þó að ég taki það fram hver morðinginn sé því þessi mynd er ekki morðingjaráðgáta. Hún snýst, líkt og OHP, um baráttu manns við sína innri drauga. Nú er það að vísu ekki Williams sem leikur manninn sem á í innri baráttunni heldur Pachino og gerir hann það af stakri snilld eins og við mátti búast. Annar Óskarsverðlaunatilnefningarkandídat þar á ferðinni.
Þó að innihald þessarar myndar sé afar safaríkt hafa aðstandendurnir ekki gleymt umbúðunum. Leikstjórinn Christopher Nolan (Memento) sannar hér endanlega, með sinni þriðju mynd, að hann veit fullvel hvað hann er að gera og hefur fullt vald á kvikmyndamiðlinum. Frábær myndataka er í myndinni. Stórbrotin náttúran, með jöklum, fjöllum og skógum (minnir mjög á Ísland, fyrir utan skógana), fær að njóta sín til hins ítrasta og myndatakan í upphafsskotinu, þar sem litlu flugvélinni sem Will og Hap ferðast með er fylgt eftir, er með því flottara sem ég hef séð.
Þorpið, þar sem sagan gerist, minnir á íslenskt sjávarpláss. Fjöll á þrjár hliðar og sjórinn á þá fjórðu. Alltaf veður eins og það sé að fara að rigna eða snjóa. Myndin gerist yfir sumartíma þannig að það er bjart allan sólahringinn, eitthvað sem við ættum að kannast við, en veldur Will Dormer vandræðum þegar hann reynir að sofa. Reyndar er fleira sem kemur í veg fyrir að hann nái að sofa en það er annað mál.
Það sem var sérstakt við þessa mynd og maður á ekki alveg að venjast frá myndum sem koma frá Ameríkunni var sú staðreynd að maður trúði að allir karakterarnir gætu verið raunverulegir. Það var engin glanshetja í myndinni, allir höfðu raunverulegar mannlegar hliðar.
Önnur frábær mynd og annað kvöldið í röð yfirgaf ég kvikmyndahúsið ánægður.

Ég verð að segja það að Robin Williams kom mér nokkuð á óvart sem vondi kallinn. Hann sýndi það að hann getur leikið á við hvaða skapgerðarleikara sem er og ég hlakka mikið til að sjá Death to Smoochy og næstu myndir sem hann gerir.