NOSFERATU Grein þín hljóðaði svo:
(þessa grein skrifaði ég fyrst sem Íslenskuritgerð, en ákvað svo að ég æti eins látið hana flakka hér. Here goes:)




Ég ætla að fara nokkrum orðum um stórkostlegustu hryllingsmynd allra tíma, Nosferatu, gerð hennar og leikstjórann F.W. Murnau.


F.W. Murnau var þýzkur, fæddur í Bielefeld. Ungur varð hann heillaður af leikhúsi. Á meðan hann lærði bókmenntafræði þá lék hann í áhugamannaleikritum, en fékk boð í Deutsches Teater. Hann barðist sem flugmaður í fyrri heimstyrjöldinni en eftir flugslys í Sviss, árið 1917, ákvað hann að helga sig kvikmyndagerð.

Elstu myndir hans hafa flestar glatast. Elstu varðveittu myndirnar, ,,Ferðalag gegn um nóttina“ og Schloss Vogellöd, munu hafa verið illa leiknar, en strax þá var hann farinn að sýna hæfileika í leikstjórn.

Murnau var nefninlega sjáandi, myndrænn og listrænn. Það sást best í næstu mynd sem hann gerði…


Murnau hafði nefninlega lesið Dracula eftir Bram Stoker, sem þá var ekki ýkja gömul, og varð greinilega heillaður af. Hann gerði mynd eftir henni á sinn hátt, breytti nöfnunum og lenti í málaferlum við ekkju Stokers vegna höfundarréttar. En maður getur fyrirgefið honum það, því þarna hafði hann einsett sér að gera bestu hryllingsmynd allra tíma. NOSFERATU.


Nosferatu er 80 ára í ár, hún er fyrsta vampýrumyndin, svarthvít og hljóðlaus en hún stenst enn tímans tönn. Söguna þekkja allir. Til að gera langa sögu stutta, þá er ungur fasteignasölumaður (leikinn af Gustav Von Wagenheim) ginntur af yfirmanni sínum, hinum dularfulla og undarlega Knock, til að halda til Karpatafjalla til að selja Orlok greifa hús í Bremen. Það gerir hann, en skilur harmi slegna eiginkonu sína eftir í umsjá vina sinna. Ungi maðurinn, Hutter, heldur síðan til Orloks, en kemst áður að því að fólkið sem hann gistir á kránni hjá er afar hjátrúarfullt. Eftir að hann hefur lent í óhuggulegum hremmingum hjá Orlok, og komist að því hver hann er, líður yfir Hutter. Þegar hann vaknar er Orlok/Nosferatu (sem merkir ,,plágu-beri”) rétt að fara út úr dyrunum með farm af líkkistum. Hutter er sem lamaður af skelfingu. Þegar hann kemst loks af stað þá ferðast hann um langan og erfiðan veg og hnígur loks niður. Vaknar seinna á spítala eftir að hafa verið með óráði alllengi og reynir að drífa sig heim.










Í millitíðinni tókst Nosferatu að komast á skip með kisturnar, en veslings skipverjarnir eru grunlausir um hinn hræðilega farm sem þeir flytja. Þeir fara að týnast einn og einn og óttinn og ofsókaræðið stigmagnast um borð. Sögur höfðu þá gengið um illa veru fyrir neðan þiljur, þar sem kisturnar voru geymdar. Fyrsti stýrimaður og skipstjóri eru loks einir eftir og áræðir fyrsti stýrimaður að halda niður fyrir þiljur, vopnaður exi. Þar birtist honum hryllingurinn holdi klæddur og sturlast hann af hræðslu og steypir sér í sjóinn. Skipstjórinn tekur það ráð að binda hendur sínar við stýrið en Nosferatu nálgast hægt og rólega. Texti tilkynnir okkur svo að Dauðaskipið hafði eignast nýjan skipstjóra. Þegar kemur til Bremen fer plága hægt og hægt að berast út, og skelfing og glundroði gerir vart við sig hjá bæjarbúum, sem verður að hálfgerri sturlun. En fyrst ég ýjaði að sturlun. Þegar hér er komið sögu er Knock (sem var frá upphafi skrýtinn) allavegana núna orðinn kexruglaður.Hann er lokaður inn á gamaldags hæli, (sem er líkara dýflyssu), girnist kóngulær og ákallar ,,meistara“ sinn. Þegar hann kyrkir fangavörð sinn og flýr segir textinn snilldarlega: ,,Bæin vantaði blóraböggul. Hann kaus Knock. og fara að ofsækja hann.

Ellen er sú eina (f. utan Hutter, sem enn er á leiðinni) sem gerir sér grein fyrir hvað er að gerast. Hún ein getur bjargað þessu öllu og tekur til sinna ráða.



Sagan er, eins og áður sagði þekkt, en það er ekki meginmálið heldur leikstjórnin. Hvernig leikstjórinn nálgast söguna, meðtekur, túlkar og mótar, fæst varla með orðum lýst. Hann hefur einstaka sýn og næmni á viðfangsefnið og skilur mann eftir agndofa. Sem dæmi má nefna að algengt er í hryllingsmyndum að þær gerist í lokuðum dimmum kompum. Murnau hafnaði þessu, þvert á móti hafði hann margar úti senur, og notaði td. alvöru kastala fyrir Orlok, og má kannski segja að það ásamt öðru ljái myndinni meiri dýpt. Myndatakan er hreint út sagt ótrúleg, og hvernig hann nálgast sjónarhornið. Byggir líka oft hægt og hægt upp spennu, svo maður fær tilfinningu fyrir logninu á undan storminum. Hann nýtir sér ljós og skugga á einstakan hátt, sbr. atriðið þegar Nosferatu birtist fyrst og endaatriðið, td. þegar hann gengur upp stigann, og maður sér bara sem kryppóttan skorpin skugga og einnig skugginn af honum standandi yfir síðasta fóranrlambinu.

Stíll hans er dimmur og drungalegur en þó er myndin afar eins sorgleg, og falleg á sama hátt.

Besta aðferðin til að útskýra allt þetta, er líklega að taka dæmi. Td. er notkun textans (sem kemur náttúrulega alltaf í samtölum og frásögn, þar sem þetta er hljóðlaus mynd) afar svöl og tilfinningin sem maður fær er þrungin kynngimagni. Strax byrjar myndin á texta, þar sem sögumaður veltir fyrir sér upphafi plágunnar í Bremen. Einnig þegar Dr. Bulwer (að ég held) ávarpar Hutter og segir Ekki svona hratt ungi vinur, enginn fær flúið örlög sín, það býr mann undir það sem koma vill, það er e-k fyrirboði og byggir um stemmningu. Ellen, kona Hutters er kannski, ásamt Nosferatu, eftirminnilegasta persónan. Hún er afskaplega vel leikin af Gretu Schröder, maður skynjar sorgina svo sterkt, hún er það djúp, og finnur til með henni en þó er Ellen sterk og ákveðin. Sígild atriði atriði myndarinnar eru td. þegar hún situr á bekk við hafið og vonast eftir manni sínum, svartklædd og krossar í kring í sandinum og vindurinn gnauðar. Einnig þegar hún skynjar návist Nosferatu og kallar út til Hutters, eða þegar hún gengur í svefni. Murnau byggir upp óhuggulega stemmningu meða að samþætta áðurnefnda þætti, sálfræðilega, mætti segja. Annað dæmi er, að í flestum vampýrumyndum er manni slétt sama um öll hin fórnarlömbin, utan aðalpersónurnar. Atriðið í Noseferatu þegar Ellen út um gluggan og sér afleiðingu plágunnar (sem Nosferatu bar með sér). Dökklæddur, dapurlegur maður gengur á milli húsa og krítar krossa á húsin ogsér langa röð af dökklæddum mönnum bera svartar líkkistur burt, það atriði snertir innstu sálarrætur. Svona mætti lengi telja. Annað gott dæmi er þegar maður fær að skyggnast í líffræðikennslu hjá Prof. Bulwer. Hann sýnir nemum sínum annars vegar kjötætuplöntu og hins vegar hýdru. Virðist ekki skipta neinu máli, en er þó þrumusterkt atriði. Mæli þó með að lesandi sjá það, vil ekki spilla því um of.





Gustav Von Wagenheim ofleikur vissulega talsvert en það er kannski bara betra, því hann er öfgatýpa fyrir ungan kæruleysislegan einfelding. En hræðsla hans er þó ósvikin.

Lengi gæti maður haldið áfram, þessi stórfenglega mynd verður bara betri, eftir því sem fram líður.

Ég ætla því að fara nokkrum orðum um vampýruna sjálfa, Orlok greifa, öðru nafni Nosferatu og frammistöðu Max Schreck í titilhlutverkinu.

Það hefur víst alltaf nokkur dulúð hvílt yfir Max Schreck. Sagt er að hann hafi alltaf mætt á tökustað fullfarðaður og aðhyllst þá leikstefnu að lifa sig inn í persónurnar. Er sagt að hann hafi alltaf mætt á tökustað sem Nosferatu. Svo furðulegt þótti þetta að þetta varð aðal þemað í kvimyndinni Shadow of the Vampire, en hún fjallar um gerð Nosferatu og þær sögur sem spunnust út frá því. Þar er reyndar lagt að líkum að Schreck hafi sjálfur verið vampýra. Einnig hefur verið talið að Schreck hafi í raun verið annar og þekktari leikari í dulargerfi, þar sem ,,Max Schreck” er í raun þýskt slangur fyrir ,,skelfilegur ótti".

Það veit ég ekkert um. Og það fáum við líkast til aldrei að vita.
Max Schreck var nefninlega prýddur einni vönduðustu förðun kvikmyndasögunnar fyrir hlutverk sitt.
Flestar vampýrumyndir sýna Drakúla sem snyrtilegan og seiðandi dularfullan herramann, tælandi kvenfólkið.
Murnau fór allt öðru vísi að.

Í stað táldragarans skapaði Murnau einn óhuggulegasta óvætt sem sést hefur fyrr eða síðar í kvikmynd. Nosferatu er hrukkóttur, langnefjaður, skorpinn, sköllóttur og með oddhvöss eyru sem svipar til leðurblöku. Hann meira en 2 m á hæð, horaður með djúpa bauga, og stingandi augnaráð og langa granna fingur með klóm. Schreck er magnaður í hlutverkinu, og þrátt fyrir að persóna hans sé svona ógeðfellt, þá er eitthvað afskaplega flott og magnað við hana. Auk leiksins, styrkir atburðarásin, og allt það sem Maurnau í raun byggir í kring um persónuna, hann mikið.



Í nýrri endurútgáfu á myndinni (því eintaki sem ég á) er einnig ný tónlist (Upphaflega tónlistin var náttúrulega orgelspil). En ný tónlist ætti ekki að ergja neinn, nema ef síður væri. Því þessi nýja tónlist, eftir James Bernard fangar andrúmsloftið fullkomnlega. Hú n er, líkt og myndin falleg, og drugaleg, dramatísk og sorgleg í senn. Haf i myndina skort e-a dýpt, þá undirstrikar þessi yndislega tónlist hana enn frekar.


Að lokum vill ég geta þess að sem formaður kvikmyndadeildar, var það mitt fyrsta verk að sýna þessa mynd á breiðtjaldi í Casa Nova. Það var metmæting og fólk skynjaði þessa mynd eins og ég og tóka hana beint í æð. Í áhrifamiklu lokaatriðinu klöppuðu allir. Ég hefði ekki getað verið ánægðari með það kvöld.







Mín lokaorð? Hvað getur maður sagt meira um sína uppáhaldsmynd, að mínu mati eitt stórkostlegasta þrekvirki og listaverk kvikmyndasögunnar, án þess að mæla eindregið með henni?


Ég ritaði áðan að F.W. Murnau hafi einsett sér að gera bestu hryllingsmynd allra tíma.


Það tókst honum.