Var að koma úr Háskólabíói þar sem ég sá aðra mynd Baltasar Kormáks, Hafið. Var ekki að búast við miklu enda var ég ekkert sérlega hrifinn af 101 Reykjavík þótt hún ætti sína ágætu kafla. Hafið er frábær kvikmynd og að mínu mati besta íslenska myndin sem gerð hefur verið fyrir utan kannski Engla Alheimsins.

Hafið er gert eftir einu vinsælasta leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar og gerist í litlu sjávarþorpi úti á landi. Nú hef ég ekki séð leikritið svo ekki ætla ég að dæma hvort er betra. Myndin segir frá kvótakóngi þorpsins sem kominn er á aldur og kallar hann á börnin sín heim þar sem þarf að gera upp ýmis mál innan fjöldskyldunnar. Fyrirtækið gengur ekki nógu vel og vill hann fá uppáhalds son sinn til að stjórna fyrirtækinu. Þegar fjöldskyldan er komin saman er kafað ofan í fortíðina og hörmleg atvik dregin fram í dagsljósið. Þarna verður hreint rosalegt uppgjör og man ég ekki eftir öðru eins drama í langan tíma.

Leikhópinn mynda frábærir leikarar. Allir fara á kostum en enginn þó meira en Gunnar Eyjólfsson sem leikur kvótakónginn Þórð. Hann sannar þarna enn og aftur að hann er einn albesti leikari þjóðarinnar. Leikkonan Herdís Þorvaldsdóttir leikur eldgamla mömmu Þórðar og gerir það frábærlega. Fólk hreinlega sprakk úr hlátri í hvert sinn sem hún opnaði munninn. Hún gerir ekkert á daginn nema reykja, drekka koníak og gera lítið úr öðrum. Skemmtilegasta persóna myndarinnar. Aðrir leikarar standa sig mjög vel svo sem Hilmir Snær, Sven Nordin, Sigurður Skúlason, Guðrún Gísladóttir og margir fleiri.

Myndin lætur sér samt ekki bara nægja þetta fjöldskylduuppgjör heldur kafar hún djúpt í þjóðarsálina. Þarna sjáum við litla þorpið sem muna má sinn tíma fegurri. Fólki hefur fækkað mjög mikið og eru útlendingar orðnir nánast fleiri en Íslendingarnir í frystihúsinu. Mikið er verið að þrýsta á Þórð kvótakóng að selja kvótann en hann vill það ekki enda gæti þorpið þá lagst í eyði. Þarna sjáum við semsagt hvað er gerast á Íslandi í dag. Allir að flytja suður. Fáum þannig sýn á lífið í þesum litlu sjávarplássum úti á landi og hvernig hagkvæmissjónarmið og græðgi(kvótinn) eru að leggja landsbyggðina í rúst.

Tæknivinna er öll mjög fagmannleg. Kvikmyndataka er mjög góð og er ánægjulegt að Baltasar falli ekki í þá gryfju að setja fallega náttúru Íslands í aðalhlutverk. Hljóð er líka gott en það hefur oft einkennt íslenskar bíómyndir hvað þær hafa lélegt hljóð. Tónlistin var eitt það besta við myndina. Frumsamin tónlist hljómar í bland við aðra. Tónskáld myndarinnar nær að skapa virkilega fallega tónlist sem er spiluð á mjög áhrífamikinn hátt í átakamesta atriði myndarinnar. Því miður veit ég ekki hvað hann heitir.

Kvikmyndagerð á Íslandi virðist vera á mikilli uppleið og er það mjög gott mál. Við verðum samt að gera okkur grein fyrir því að það mun aldrei verða eitthvað stórframboð á íslenskum myndum. Við erum hreinlega allt of fá. Baltasar Kormákur er nú ein bjartasta von íslenskrar kvikmyndagerðar og gef ég mynd hans Hafinu 9 af 10 mögulegum.