Árið 1995 gerði Michael Mann frábæra mynd sem kallaðist Heat með tveimur fremstu leikurum heims, þeim Al Pacino og Robert De Niro þar sem Pacino var lögga og De Niro var þjófur og var sú mynd um sálræna baráttu þessara tveggja manna við hvorn annan. The Insider er jafnvel betri og er hún frábær ádeila á tóbaksiðnaðinn og ábyrgðarlausa fréttaumfjöllun. Jeffrey Wigand (Russell Crowe) er háttsettur maður innan tóbaksiðnaðarins. Hann heldur að hann geti látið gott af sér leiða en þegar hann gerir athugasemdir við notkun á ákveðnu efni í tóbakinu er hann umsvifalaust rekinn og hótað öllu illu (þar með talið morði) ef að hann segir einhverjum eitthvað. Hann hefur samband við hinn róttæka fjölmiðlamann Lowell Bergman (Al Pacino) og samstarfsmenn hans á 60 mínútum Mike Wallace (Christopher Plummer) og Dan Hewitt (Philip Baker Hall). Þeir byrja þegar að kafa ofan í málið en á meðan er Jeffrey kærður fyrir samningsrof. Það er allt tekið frá honum, þar með talin sjúkratryggingin fyrir dóttur hans sem er astmasjúklingur. Á sama tíma hyggst hið illræmda tóbaksfyrirtæki fara í málaferli við 60 mínútur ef þeir gefa út eitthvað efni sem varðar Jeffrey. Lowell verður því að velja um það að bjarga sínum fréttamannsferli eða berjast og hjálpa Jeffrey. Þessi mynd er eins og John Grisham saga að mörgu leyti. Munurinn er sá að þetta er raunverulegt fólk þarna á ferð, allt með sína galla í staðinn fyrir yfirborðskenndu glanstýpurnar sem eru hjá Grisham. Myndin er löng en maður finnur samt ekkert fyrir því af því að Michael Mann lætur hlutina hreyfast áfram á eldingarhraða og skapar þar af leiðandi mjög raunverulegt andrúmsloft, svipað því sem maður getur ímyndað sér að sé hjá fréttamönnum. Kvikmyndataka Dante Spinetti er mjög áhrifamikil í þessu samhengi þar sem að myndin er oft tekin á handhelda myndavél. Handrit Eric Roths og Michael Manns er gífurlega kröftugt en gleymir samt ekki að sýna hina mannlegu eiginleika í öllum persónunum. Varðandi leikarana þá standa þeir sig allir frábærlega. Al Pacino hefur alltaf staðið undir mínum væntingum og gott betur og bregst ekki hér frekar en venjulega. Það gneistar af þessum stórkostlega leikara í þessu bitastæða hlutverki. Jafnvel betri er samt Russell Crowe sem er að verða einn af bestu leikurunum í bransanum. Hann var frábær í L.A. Confidential og er eiginlega betri hérna. Hann túlkar Jeffrey sem venjulegan mann sem lendir í hræðilegum kringumstæðum en reynir samt að gera hið rétta þrátt fyrir allt. Christopher Plummer er síðan stórfínn í hlutverki aðalfréttamannsins á 60 mínútum og á nokkrar dásamlegar senur sem krauma af kaldhæðni og hlýju. En það sem fær myndina samt sem áður til þess að virka endanlega er að maður fær að vita að þetta er byggt á sönnum atburðum. Frábær mynd.