Ali (2001)

Leikstjórn: Michael Mann
Aðalhlutverk: Will Smith, John Voight, Jamie Foxx, Mario Van Peebles og Jada Pinkett Smith

***

Ég vil byrja á því að koma á framfæri að ég er mikill aðdáandi hnefaleika og öllu sem að þeim kemur og beið ég því með dálítilli eftirvæntingu eftir þessari mynd en þær eftirvæntingar minnkuðu einhvernvegin eftir því sem nær dróg frumsýningu myndarinnar, kannski var það vegna þess að ég var ósáttur við leikaraval myndarinnar eða sú skoðun mín að Michael Mann væri einfaldlega rangur leikstjóri fyrir þessa mynd, þrátt fyrir alla hanns kosti sem kvikmyndagerðarmaður. Síðan fóru að heyrast mjög blendnar raddir um þessa mynd þegar hún kom fyrst út og ég hreinlega þorði ekki á þessa mynd í bíó af ótti við að Mann hefði eyðilagt þessa heillandi sögu sem æfi Ali er.

Síðan mannaði ég mig loksinns upp í að taka hana í gær. Hún fór svo loksinns í tækið klukkan 1 í nótt og eftir 156 mínútur af áhorfi endaði myndin. Ég ýtti á stopp og ein tilfinning yfirtók mig, aðeins ein…pirringur…yfirgengilegur pirringur. Ekki afþví að myndin var svona slæm heldur afþví að hún hafði svo mörg tækifæri á svo mörgum stöðum sem hún klúðraði, stefnur sem Mann hefði getað tekið en gerði ekki. Ég ætla að útskýra þetta aðeins betur…

Byrjum á tæknilegu hliðinni.
Það sem mest fór í taugarnar á mér þar var tónlistarvalið og notkun hennar, sérstaklega fyrri part myndar. Ég geri mér grein fyrir að þetta er períódu mynd og að Mann var greinilega að reina að koma áhorfandanum inn í stefninguna sem ríkti á þessum tíma en guð minn almáttugur hvað þessi söngnúmer fóru í taugarnar á mér, þessi löngu tónleikaatriði sem engan enda ætluðu að taka.
Myndatakan var á flestum stöðum mjög góð nema þegar Mann ákveður að nota svona “vídjókamerustíl” í nokkrum skotum, þetta er ekki beint dogma heldur meira eins og lélegt íslenskt tónlistarmyndband, síðan fannst mér hann nota of mikið af þessum rauðbrúna lit sem drap niður allt líf yfir öllum litum þarna. Ég veit ekki hvað það er með 7. áratuginn og gulbrúnan lit, var allt gulbrúnt á þessum tíma eða?

Ég verð að viðurkenna að Will Smith gerði útrúlega hluti fyrir þetta hlutverk, hann náði röddini, þyngdi sig um heilan helling og æfði hnefalieka sleitulaust í ár að ég held, hann gerir sitt besta en einhvernvegin virkar það samt ekki, ég keypti hann ALDREI sem Muhammad Ali.
Það er ekki Will Smith að kenna, hann lék eins vel og hann mögulega gat en hann er einfaldlega ekki Ali.
Alla myndina hugsaði ég “Helvíti var þetta Ali-legt hjá Will Smith” í staðin fyrir að hugsa sjá bara Ali gera þetta og gera hitt. Þetta er kannski harður dómur hjá mér en myndin stendur og fellur með trúðverðuleika aðalleikarans, sérstaklega í þessari mynd.
Aðrir leikarar standa sig vel og þar vill ég helst nefna óþekkjanlegan Jon Voight í hlutverki Howard Cosell, íþróttafréttamanns sem átti í mjög sérstöku sambandi við Ali.
Síðan má nefna Mario Van Peebles sem ég hef persónulega aldrei þolað, en hann sýnir frábæran leik í hlutverki baráttumannsinns Malcolm X.

Mesti galli myndarinnar er hinnsvegar handritið, það er ekki illa skrifað sem slíkt en ég er mjög ósáttur við þann pól sem höfundarnir ákváðu að taka á þessari sögu.
Þeir sýna mjög vel stöðu svarta mannsinns í bandaríkjunum á þeim tíma sem myndin gerist og trúarlega stöðu Alis sem var íslamstrúar eins og margri blökkumenn á þessum tíma. Einnig sýna þeir vel baráttu Ali við ríkisstjórnina sem reindi að senda hann í fangelsi fyrir að neita að gangast við herþjónustu í Víetnam.

En það má að vissu leiti segja að höfundar myndarinnar hafi verið huglausir, þeir segja afar vel frá því sem Ali gerði en þeir þora aldrei að kafa bakvið grímuna, sýna okkur hver Ali var, hvað hann var að hugsa og hvernig honum leið og vegna þessa þá verður myndin eins og sagnfræðilýsing á stöðu blökkumanna á 7. og 8. áratugnum og vðerur þarafleiðandi mjög ópersónuleg sem er miður því að Ali var mjög persónulegur maður!

Eins og ég nefndi áðan var ég ósáttur við þá ákvörðun að leifa Michael Mann að leikstýra þessari mynd og stend ég við þá skoðun og tel að Spike Lee hefði verið ákjósanlegur leikstjóri en hann var hreint og beint rekinn áður en hann byrjaði og Mann tók stöðu hanns.
Mann gerir ýmislegt mjög vel, t.d. eru öll samtöl mjög trúverðug en sú ákvörðun að gera þessa mynd rammpólitíska dáldið leiðinleg, ég vissi nú alltaf að við myndum aldrei fá boxkvikmynd en þeir hefðu mátt fókusera aðeins meira á þann part fannst mér og þau boxatriði sem sýnd voru fannst mér hreint og beint leiðinleg. Þau voru þannig séð tæknilega vell gerð, hnefaleikararnir hreifðu sig allir eins og hnefaleikarar en maður var einhvernvegin aldrei inni í hringnum með þeim, Mann sýndi okkur aldrei sársaukann, kraftinn, svitann og blóðið…við sáum þetta kannski en allavegana skynjaði ég aldrei hversu erfið íþrótt hnefaliekarnir eru, hversu þung höggin eru, hversu erfitt er að fóta sig, ná andanum og halda áfram.

Það er samt ekki allt illa gert i þessari mynd, samband Ali og Cosell er mjög áhugavert og vel útlistað og einnig fannst mér samband Ali og Malcolm X gerð mjög góð skil.

Ali er ekki eins slæm mynd og þessi umfjöllun kann að gefa til kynna en eins og ég segi er ég mjög pirraður út í hana vegna þess að á nokkrum stöðum er hún hreint og beint snilld, kannski eitt brot sem sýnir okkur aðeins hvernig maður Ali var, hvað lét hann tifa en um leið og maður veðrur vongóður að myndin fari upp á næsta plan pompar hún aftur niður í sorglega meðalennsku og það er það sem er grátlegast við hana, þessi örfáu snilldarlegu andartök. Ég hefði ekki verið nærri eins pirraður hefði myndin legið í meðalennsku allan tíman en í staðin gerir Mann okkur þann ljóta grikk að gera mann voðgóðan um frábæra mynd, magnaða mynd en á endanum skilar hann engu nema vonbrigðum.

4/10