Eight Legged Freaks Ég verð að játa að ég lét mér hlakka soldið til að sjá Eight Legged Freaks.
Þar sem ég er einlægur aðdáandi ódýrra hryllingsmynda og b-mynda skellti ég mér á hana og átti ég von á stórfenglegri plottlausri þvælu og tæknibrellufylleríi. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Myndin byrjar á því að sóðalegur trukkari missir tunnu fulla af geislavirkum úrgangi í á. Áin er steinsnar frá kóngulóasafni (!) sem er eigu einhverskonar kóngulóafetishkalls sem safnar stórhættulegum kóngulóm hvaðanæva af úr heiminum. Spæderpervertinn fer að gefa kóngulónum geislavirkar bjöllur úr ánni, og viti menn, þær taka að stækka þetta líka mikið…

Við skulum ekkert vera að gefa upp þéttofið plottið svo maður skemmi ekki fyrir neinum, en segja má að það hlýtur að vera hægt að kaupa svona handrit niðursoðið í stórmörkuðum Hollywood.

En myndin hefur allt sem príða skal lélega B-Mynd. Hrikaleg samtöl, stereótýpu karaktera og kóngulær sem hægt og hægt fara að tjá sig æ meir eftir því sem líður á myndina.
Eftir hlé mátti jafnvel taka eftir mun á röddum hinna ýmissa kóngulóa, ein tegundin flissaði í sífellu áður en hún reif fórnarlambið í tætlur meðan önnur virtist öskra eins og átta lappa górilluapi.
Tæknibrellurnar eru undarlega vel unnar. Það hefði kannski verið meira gaman að sjá hana gerða alla með stoppmotion leirköllum… en það hefði líklega tekið svona 3 ár vegna fjölda kóngulónna.

Ef þú hefur gaman af B-myndum farðu á Eight Legged Freaks. En ef þú ert að leita að einhverskonar stórmynd með meiningu ….
skaltu samt fara á hana því þú skemmtir þér ábyggilega betur á Eight Legged Freaks.

stjörnugjöf? Jú ætli ég gefi henni ekki 3 og hálfa b-stjörnu.
Hún missir eina og hálfa fyrir það hvað kóngulærnar voru undarlega vel unnar.
***1/2 af 5