Minority Report Ég er einn af þeim sem ekki fannst A.I. Artificial Intelligence góð og var því dáldið efasamur fyrst þegar ég heyrði um Minority Report. A.I. fannst mér alltof róleg og langdregin, svo gerðist ekkert merkilegt eða skemmtilegt í henni. En hvað um það, allt það sem A.I. er ekki, það er Minority Report! Hún er hröð, spennandi, fyndin, með frábæran söguþráð, pottþétta leikara, magnaða tónlist og Spielberg í toppformi! Hvað getur maður hugsanlega beðið um meira?

Myndin gerist í framtíðinni, árið 2054. Það hefur ekki verið framið morð í 6 ár og hefur glæpatíðnin lækkað um heil 90%. Hvernig stendur á þessu? Stofnunin Precrime sérhæfir sig í því að handtaka morðingja sem hafa ekki enn framið morðið en áttu samt eftir að gera það. Þeir koma í veg fyrir morðið. Það sem gerir þeim kleift að sjá í framtíðinna eru þrjár manneskjur sem hafa þessa náðargáfu til að sjá í framtíðinna, þeir sjá það sem á eftir að gerast. Kerfið er fullkomið. Því skjátlast aldrei. Fyrr en það kemur að þér. Þetta er eimmitt það sem myndin er um. Fremstur í flokki Precrime er John Anderton, (Tom Cruise). Anderton sér svo sjálfan sig í framtíðinni að drepa mann sem hann hefur aldrei séð eða heyrt um áður. Auðvitað sættir hann sig ekkert við það og lætur handtaka sig heldur flýr hann og reynir að sanna sakleysi sitt.

Fyrir þá sem halda kannski að þessi mynd sé ekki mikið meira en enn einn sumarsmellurinn sem gleymist fljótlega eftir að maður labbar útúr bíóinu þá skulið þið sjá myndina! Hún er sko sumarsmellur og mikið meira en það. Hún er með margar flækjur og fær mann til að hugsa um sig á leiðinni heim og daginn eftir. Hvernig verður þetta í framtíðinni? Ef það eru svona augnskannar útum allt, er maður er hvergi óhultur gagnvart yfirvöldum?. Hvað verður um einkalífið? Það verður einfaldlega búið að útrýma því. Eins og hann Þór Melsteð á Kvikmyndir.is sagði; ‘geysilega sterk ádeila á stefnu heimsins í áttina að gereyðingu einkalífs.’

Sá sem er vel fróður um vísindaskáldsögur ætti að kannast vel við Philip K. Dick, en hann er líklega frægasti vísindaskáldsagnahöfundur sögunnar. Hann samdi meðal annars smásöguna sem Blade Runner er byggð á (Do Androids Dream of Electric Sheeps?) og samdi hann 31-síðna söguna bakvið Minority Report og er hún neistinn sem kveikti í þessari mynd. Aðra smásögu sem varð að frægri bíómynd samdi hann, Total Recall með honum Schwarzenegger í aðalhlutverki.

Ég ætla ekki segja að þetta sé besta mynd sem Spielberg hefur gert en hún er svo sannarlega ein af hans langbestu. Hún er mikið meira heldur en hún A.I. sem margir höfðu svo miklar væntingar til en hún stóðst þær því miður ekki hjá öllum. Myndatakan er ótrúlega flott. Tæknibrellurnar voru svo góðar að ég átti erfitt með að sjá hvað voru tæknibrellur og ekki. Samt var Spielberg ekkert að láta tæknibrellurnar yfirtaka myndirna eins og sumir, nafn sem byrjar á L og endar á ucas, heldur notar hann þær í góðu hófi og kemur það mikið betur út. Tom Crusie hefur aldrei verið jafngóður og núna. Mér finnst mjög líklegt að hann verði tilnefndur til óskarsins, svo góður var hann. Colin Farrell er leikari á þvílíkri hraðleið á toppinn enda er hann mjög góður hérna. Sænski leikarinn Max von Sydow lítur niður á alla hina leikarana enda er hann mjög virtur meðal samstarfsmanna sinna.

Útlitið á myndinni er mjög flott og minnir mann einfaldlega á film-noir myndir í gamla daga. Bláu litirnir eru mjög skemmtilegir og gera útlitið á myndinni einstaklega flott. Kvikmyndatakan sjálf var bara í heild sinni mögnuð! Það sem ég bjóst ekki við var að myndin var líka þrælfyndin á köflum, kolsvartur húmor inná milli sem gerði ekkert nema gott fyrir myndina. Þótt að myndin hafi verið dáldið löng, heilir þrír tímar, þá var hún aldrei langdregin. Myndin var fyrirsjáanleg á köflum en á öðrum kemur hún mikið á óvart. Endirinn er eitthvað sem margir voru ekki sáttir með, en ég sé eiginlega ekkert að honum nema að hann hafi verið enn ein flækjan sem ég sjálfur á að leysa.

Þegar ég lít yfir heildina hef ég ekki skemmt mér svona mikið yfir mynd síðan ég sá Lord of the Rings í fyrsta sinn. Ekki mun ég hika við að fá mér DVD diskinn þegar hann kemur út 25. nóvember hérna í Evrópu. Minority Report er pottþétt og skotheld skemmtun fyrir hvern sem hefur gaman af góðum Sci-Fi sögum, flottum tæknibrellum, mikilli spennu, frábæru plotti og flestu því sem einkennir frábæra kvikmynd. Margir vilja meira segja að hérna sé komin Óskarsverðlaunamyndin í ár og er ég ekki ósammála þeim.

****