Goldfinger (1964) James Bond: Do you expect me to talk?
Auric Goldfinger: No Mr. Bond, I expect you to die!

Ætli það sé ekki hægt að segja að þetta sé mest notaða tilvitnunin úr James Bond myndunum, fyrir utan hið margnotaða ‘Bond, James Bond’? Ég mundi veðja á það. Þetta er línan sem gerði Auric Goldfinger að minnisstæðasta ‘aðal’illmenninu, mörg hafa fylgt eftir en enginn hefur náð eins miklum ‘költ’ standard og hann. Ekki einu sinni Blofeld sem lék hlutverk vondakarlsins í fjórum Bond myndum, fleirum ef þú tekur með þeim sem hann sást ekki í. En vandræðin með Blofeld var það að í þessum fjórum myndum sem andlit hans sást í var hann leikinn af fjórum ólíkum leikurum (Donald Pleasence, Charles Gray, Telly Savalas, Max von Sydow). Pleasence útlitið er þó kannski þekktast hjá nútíma bíó gestum útaf Austin Powers myndunum en ég held samt að Auric Goldfinger verði alltaf í fyrsta sæti yfir illmennin þó hann sé ekki verstur að þeim, eina sem hann vildi var að verða óhemjuríkur á kostnað nokkra þúsund mannslífa! Margir þeirra höfðu mun alvarlegri málefni á heilanum.

Í Goldfinger þarf James Bond að fylgjast með Auric Goldfinger, hann er talinn vera lögmætur gullstanga dreifiaðili en Breska leyniþjónustan telur hann hafa eitthvað að fela. Eftir að Bond skemmir Póker leik hjá Goldfinger með hjálp frá einni aðstoðarkonu hans, finnur Bond hana dauða upp í rúmi hjá honum, nakta og þakta gull málningu. Eftir það verður málið mun mikilvægara og Bond þarf að finna út hvað það er. Hann kemst að því að Goldfinger er að plana það sem hann kallar ‘Operation Grand Slam’ en í því ætlar hann að brjótast inn í Fort Knox og gera gullið eilítið geislavirkt.

Goldfinger er þriðja, og besta, James Bond kvikmyndin. Hún á þann heiður að hafa nær allt það besta, eða næst besta úr kvikmyndunum. Hún hefur besta Bondin; Sean Connery, einn af þeim fáum Bond leikurum(ef við tökum ekki nýju leikarana með) sem hefur getað haft góðan frama fyrir utan Bond. Hún hefur besta titilagið, Goldfinger eftir John Barry sungið af Shirley Bassey, besta bílinn, Aston Martin fullur af ýmsum tækjum, bestu Bond-stelpuna, Pussy Galore (Honor Blackman), sem er án efa harðasta og sjálfbærust af öllum þeim sem komu á eftir. Goldfinger hefur næstbesta vonda aðstoðarmanninn, hinum þögla kóreska Oddjob sem kastar hattinum sínum beitta. Jaws úr The Spy Who Loved Me er bestur enn er samt mjög líkur Oddjob á marga vegu. Báðir eru mun sterkari en Bond og gætu hann aldrei unnið þá í heiðarlegum bardaga, en Bond þarf ekki að fylgja neinum reglum nema auðvitað þeim sem söguþráðurinn fer eftir.

Þær reglur komu fyrst fram í Goldfinger og eru þær oft kallaðar “Broccoli-Saltzman formúlan”. Opnunaratriðið, eitthvað stórt og mikið áhættu atriði sem leiðir Bond næstum til dauða. Svo kemur nafnaskráin með viðeigandi lagi og hálfberum konum í bakgrunninum. Eftir það er Bond sendur til M sem segir honum frá illmenninu, oft er einhver annar þarna líka. Bond fer út úr skrifstofunni, daðrar við Moneypenny, fær ný flott tæki hjá Q sem kvartar yfir því hvað Bond fer illa með uppfinningarnar hans. Næst hittir Bond illmennið, morðóða aðstoðarmann hans og kvenmans aðstoðarmann/viðorðsmann/hjákonu hans. Bond kynnist ráðabruggi vondakarlsins og er tekinn fastur af honum. Í staðinn fyrir að drepa Bond strax segir hann Bond alla sólarsöguna um hvað hann ætlar sér. Bond dregur svo konuna á tálar og fær hjálp frá henni til að sleppa. Þetta endar svo allt með loka uppgjöri Bonds og vondakarlsins sem er oftast í mjög dýrri sviðsmynd. Eftir það endar Bond með konunni eitthver staðar útí sveit/sjó/eyðieyju.