Alice, Sweet Alice Það er langt síðan ég sá kvikmynd sem sló mig svona allsvakalega út af laginu!

Alice, Sweet Alice, eða Communion eins og hún hét upprunalega, kom út árið 1976 og var henni leikstýrt af Alfred Sole sem síðan hefur ekki gert neina merkilega hluti. Myndin varð ekki vinsæl, enda skiljanlegt: söguþráðurinn hljómaði skuggalega líkur annarri vinsælli hryllingsmynd; The Exorcist (þ.e. ill stúlka, kaþólsk trú o.s.frv.) en sannleikurinn er sá að þessar tvær myndir eiga nákvæmlega ekkert sameiginlegt; á meðan The Exorcist er sannkölluð hrollvekja, þá er Alice meira “whodunnit” í anda ítölsku gialli-myndanna, þrátt fyrir að vera mun sterkari en þær í uppbyggingu og með aðeins flóknari sögu (ef það er hægt:).

Myndin segir í stuttu máli frá ungri stúlku, Alice, sem er grunuð um morð á systur sinni. Foreldrar hennar taka það ekki í mál að Alice sé kaldrifjaður morðingi, en lögreglan er á öðru máli enda beinast öll sönnunargögn að henni. Þegar fleira fólk fer að týna lífinu fer spennan að magnast og svarið við morðgátunni verður sífellt óljósara.

Alice, Sweet Alice fæst, að ég held, eingöngu á Laugarásvideo og ég mæli eindregið með henni fyrir alla sanna spennu - og hryllingsmyndaaðdáendur, eða bara aðdáendur góðra kvikmynda!