Black Knight (2001) Leikstjóri: Gil Junger
Handrit: Darryl Quarles, Peter Gaulke, Gerry Swallow
Lengd: 96- mín
Framleiðendur: Michael Green, Martin Lawrence, Arnon Milchan, Darryl Quarles
Tónlist: 95
Aðalhlutverk:
Martin Lawrence, Marsha Thomason, Tom Wilkinson, Vincent Regan, Daryl Mitchell, Michael Countryman, Kevin Conway

1/2*

Alltaf þegar ég sest niður og ætla mér að skrifa um mynd reyni ég að finna eitthvað gott til að segja um hana. Það er oftast eitthvað sem hægt er að tína til, eitthver frumleiki, góður leikur, sagan, hugmyndin, ja bara eitthvað! En nú þegar ég er að reyna að skrifa um Black Knight get ég bara ekki fundið neitt. Það er ekkert gott að segja um þessa ‘grínmynd’, ég á reyndar svolítið erfitt með að kalla hana grínmynd því ég hef hlegið meira af hádramatískum kvikmyndum heldur en þessu rusli!

Sagan segir frá Jamal Walker (Martin Lawrence). Jamal vinnur á skemmtigarði sem hefur miðalda þemu, einn daginn er hann að þrífa kastaladíkið og sér eitthvað glóandi í vatninu. Hann beygir sig og reynir að ná því en er sogaður niður í vatnið. Þegar hann kemur upp úr vatninu aftur er hann staddur í Englandi á fjórtánduöld(hver hefur ekki lent í þessu?), þar sem hinn illi kóngur Leo (Kevin Conway) ræður ríkjum með hjálp frá Percival (Vincent Regan). Eftir að hafa bjargað lífi sauðdrukkins riddara, Knolte (Tom Wilkinson) fer Jamal í höllina sem er þar nálægt. Hann þykist vera sendiboði frá Frakklandi að nafni ‘Jamal Skywalker’ og auðvitað leiðir það til margra skemmtilegra atvika t.d. þegar hann er beðinn um að dansa fyrir konunginn(svartir frakkar eru víst svo góðir dansarar) og hann kennir hljómsveitinni að spila popplög. En hann er svo beðinn að hjálpa uppreisnarseggjunum af Victoria (Marsha Thomason), til að koma Leo af stóli og fá hina réttu drottningu aftur.

Sagan ‘Connecticut Yankee in King Arthur's Court’ eftir Mark Twain, sem þessi mynd er byggð á. Hefur verið gerð of oft að kvikmynd, það er svo stutt síðan ég sá eina slíka kvikmynd, A Knigh Camelot en þá var Whoppy Goldberg í aðahlutverki, það var líka A Kid in King Arthur's Court og The Spaceman and King Arthur, nokkrar sem báru sama nafn og bókin og svo eina útgáfan sem er góð A Connecticut Rabbit in King Arthur's Court þar sem Bugs Bunny lék á alls oddi.

Martin Lawrence fékk 16,5 milljónir dala sem er (samkvæmt www.bi.is) 1.435.500.000 krónur! Fyrir allan þennan pening hefði hann alla veganna getað reynt að leika. Ég er ekki að biðja um neinn Laurence Olivier en hann er bara lélegur, öll framkoma hans í myndinni er hrein skömm og fíflaleg. Mér brá svolítið þegar ég sá Marsha Thomason en seinast þegar ég sá hana í kvikmynd var það í Long Time Dead (2002) sem var hryllilega léleg kvikmynd, ekki virðist heppnin fylgja greyinu. Það var reyndar bara leiðinlegt að sjá Tom Wilkinson í myndinni, hann hefur leikið í myndum á borð við In the Bedroom (2001) og The Full Monty (1997), afhverju þurfti hann að gera sér þetta?

Black Knight er léleg kvikmyndagerð uppmáluð. Gil Junger hefur aðeins leikstýrt sjónvarpsþáttum fyrir utan þessari mynd og ég vona að hann haldi sig við þættina. Michael R. Miller klippti myndina og hefur augljóslega gert það í miklu flýti því að atriðin eru sett saman mjög illa, sum atriði byrja áður en það sem kom áður nær að enda. En það allra versta við myndina er tónlistin sem er gerð af Randy Edelman, ég mundi segja að þetta sé lélegasta útfærsla sem ég hef nokkurn tíman heyrt í kvikmynd!

Að mínu mati ættu allir þeir sem komu að gerð þessara myndar að hugsa sinn gang vel og vandlega. Martin ætti að taka sér hvíld frá leiknum og snúa sér að einhverju öðru, nei bíddu hann getur það ekki, hann fær 20 milljónir dala fyrir næst tvær myndir sem hann leikur í svo í byrjun árs 2003 er hann 40 milljón dölum ríkari(mínus skattur)! Hver segir að maður þurfi að geta leikið til að verða ríkur sem leikari?

DVD:
Á DVD disknum er commentary frá Gil Junger og Martin Lawrence, trailer, eydd atriði, gerð myndarinnar og fleira vesen.

sbs : 29/06/2002