Minority Report: ****

Yfirleitt er eitthvað varið í þær myndir sem Tom Cruise kemur nálægt og ef þið bætið við Steven Spielberg er von á góðu. Ein af stórmyndum sumarsins, Minority Report var frumsýnd um helgina. Margir eru búnir að bíða spenntir eftir þessari mynd og veldur hún ekki vonbrigðum. Gerist hún árið 2054 og fjallar um það að ekki hefur verið framið morð í Washington DC í 6 ár, þrír einstaklingar sjá fyrir öll morð sem munu gerast og eru morðingjarnir handteknir áður en þeir ná að framkvæma glæpinn. Tom Cruise leikur John Anderson, sem er yfirmaður deildarinnar sem sér um handtökurnar. Einn daginn verður John Anderson eftirlýstur fyrir morð sem hann muni fremja og reynir hann að komast að því hvað gerðist og hvort einhver sé að reyna að koma sökinni á hann, hvort kerfið sé kannski ekki fullkomið eftir allt saman. Tæknibrellurnar í myndinni eru alveg magnaðar, allt mjög vel útfært. Handrit myndarinnar gengur vel eftir, það er spennandi og drungalegt á köflum og inn í það bættast fléttur, og tókst handritshöfundi að halda myndinni spennandi frá upphafi til enda. Leikurinn í myndinni er mjög góður og sé ég fáa sem gætu leikið þetta af eins mikilli sannfæringu og Tom Cruise gerir í þessari mynd. Þetta er einfaldlega frábær mynd og ætla ég að gefa henni fjórar stjörnur af fjórum mögulegum.
“If you stole a pen from a bank then would it still be considered a bank robbery”?