Monkey Shines: An Experiment in Fear (1988) **

George Romero er þekktastur fyrir ‘dead’ myndirnar sínar, Night of the Living Dead ‘68, Dawn of the Dead ’78, Day of the Dead ‘85, fyrstu tvær eru frábærar kvikmyndir en þriðja aðeins slakari sem á reyndar við flestar myndirnar sem hann gerir. Hann hefur reynt margt fyrir sér, hann gerði myndina Martin ’78. Í henni var 17 ára strákur sem hélt sig vera vampíru. Í Knightriders ‘81 var mótorhjólagengi sem hélt miðalda riddara sýningar. Í The Dark Half ’93 var rithöfundur sem átti í basli við persónuleikann sinn og svo í þessari mynd, Monkey Shines, með undirtitillinn An Experiment in Fear lætur hann lamaðan mann berjast á móti sturluðum apa.

Monkey Shines: An Experiment in Fear byrjar á hinum fullkomna degi. Allan (Jason Beghe) vaknar við hlið kærustunnar, Linda (Janine Turner), og fer síðan út að skokka. Af myndum sem eru útum allt hús að dæma þá er hann mikill íþróttamaður svo auðvitað verður hann fyrir bíl. Hann vaknar upp og er þá algerlega lamaður fyrir neðan háls, af hverju eru það alltaf íþróttafólkið sem lamast? Heimur hans hefur algerlega snúist við. Hann getur ekki hlaupið, kærastan farin burt með lækninum hans Dr. John Wiseman (Stanley Tucci). Í staðinn hefur hann fengið hjólastól og sadista hjúkku (Christine Forrest).

En einn daginn ákveður vinur hans, Geoffrey (John Pankow) að Allan skuli eignast hjálpar apa. Geoffrey er vísindamður og stelur einum apanum frá rannsóknarstofunni sinni, einum apa sem hann hefur sprautað miklu magni af voða sniðugu efni sem er búið til úr mannsheila! Hann lætur apa þjálfarann Melanie þjálfa apann og svo fær Allan þennan gáfaða, vel þjálfaða apa sem kallast Ella. Fyrst um sinn er mikil ást á milli Allans og Ellu. Ella hjálpar honum að gera allt sem hann gat ekki áður t.d. flett blöðum á bók og rétt upp hendi í tíma. En áður en langt um líður fara líkin að staflast upp og fólk grunar apann!

Grunnsagan sjálf er ágæt. Erfða breyttur morðóður api, lamaður náungi, brjálaður vísindamaður og það allt. En Romero virðist ekki alveg geta ákveðið sig hvort hann væri að gera hryllingsmynd eða drama. Það er aðeins seinustu 20 mínúturunar sem hægt er að kalla hryllingsmynd, hinn hlutinn svipar mikið til dramatísku sjónvarpsmyndanna sem eru oft á RÚV og á fimmtudögum á Stöð 2. Það er líka allt of mikið af undir-sögum í myndinni. Ein er um Geoffrey og Dean Burbage(Stephen Root), þeir eru báðir vísindamenn á sama staðnum og er eitthver spenna á milli þeirra. Önnur er um samband Allans við móður sína (Joyce Van Patten) og þær eru fleiri. Myndin verður líka mjög ýkt og alltof ótrúleg, svo virðist sem apinn hafi einhverskonar hugarsamband við Allan svo að hann getur séð það sem apinn sér. Hún er líka ótrúlega fyrirsjáanleg, það er augljóst hvernig endirinn er þegar hálftími er búinn af myndinni.

Monkey Shines er ekki góð mynd, hún er alltof löng, hún hefur alltof marga söguþræði og hún er of langdreginn til að vera spennandi. Reyndar bara þrennt sem getur talist ástæða til að sjá myndina, leikurinn hjá Christine Forrest sem hjúkkan ógurlega, förðunin eftir meistarann Tom Savini, það er ekki hægt að sjá muninn á alvöru apanum og apanum hans Savinis og svo þriðja ástæðan, endaatriðið, baráttan milli Allans og apans, hvenær mun svona atriði verða aftur?


sbs : 18.06.2002