Poltergeist II: The Other Side (1986) **1/2

Freeling fjölskyldan hefur nú lent í miklu síðan að Carol Ann var tekin af draugum og húsið þeirra sogaðist inn í svarthol. Þau búa núna hjá mömmu Diane, þau eru blönk og eiga ekkert sjónvarp, af eigin vali held ég reyndar! En allt virðist vera einsog það á að vera. En einn daginn fer sérkennilegur maður að elta þau, Kane heitir hann. Kane hefur mikinn áhuga á Carol Ann og vill endilega komast inn til þeirra. Hann varar þau við Taylor, indíána sem býr hjá þeim til að verja þau gegn illum öndum. En einsog fjölskyldan fær að kynnast þá er Kane ekki eins góður og hann reynir að virðast.

Poltergeist er ein af mínum uppáhalds myndum, hún var mjög vel gerð og hafði allt það sem góð draugasaga þurfti. Síðan kom Poltergeist 2: The Other Side og allir fóru að tala um hve rosalega slæm hún væri og hvað hún næði ekki að vera eins góð og upprunalega myndin. Það er rétt. Hún er ekki eins góð og Poltergeist, hvernig átti hún að geta það? Ef ég ætlaði að dæma Poltergeist 2 algerlega útfrá Poltergeist þá fengi hún ekki háa einkunn. En ég reyndi horfi á hana einsog ég hefði aldrei séð Poltergeist og mér fannst hún nokkuð góð.

Hún hefur margt af því sem gerði Poltergeist góða. Fjölskyldan er í byrjun myndarinnar jafn ‘down to earth’ raunveruleg, það er reyndar einum færri í fjölskyldunni. Dominique Dunne er ekki(sjá grein : Poltergeist Bölvunin!). Poltergeist 2 reynir ekki að afrita upprunalegu myndina heldur er komin alveg ný saga. Það er reyndar meira af áþreifanlegum verum heldur en fyrri myndin. Það er Kane, sem er ein draugalegasta persóna sem hefur verið í kvikmynd, enda er hann það(sjá grein : Poltergeist Bölvunin!). og svo er orma skrímsli. Tangina (Zelda Rubinstein) er ekki eins mikið og í fyrstu myndinni en ég hef alltaf haldið mest uppá hana. Indíáni sem kallast Taylor(sjá grein : Poltergeist Bölvunin!). er komin í staðinn til að skíra út allt drauga dæmið.

En þegar myndin er hálfnuð fer hún aðeins að slakast. Fjölskyldan hættir að vera venjuleg. Það kemur í ljós að Diane (JoBeth Williams) er skyggn og Steve (Craig T. Nelson) lærir á indíána töfra. Það er reyndar að mínu mati skemmtilegt að fá að vita meira um af hverju draugarnir fylgja Carol Anne og samband Steve og Taylors er fyndið á köflum sérstaklega allt þetta bílamál. En svo kemur endirinn sem skemmir mikið. Ég ætla ekki að segja hvað gerist en í mínum augum hefði Superman alveg eins getað komið og bjargað málunum. Þetta var allt einhvern vegin of einfalt.

En það er margt gott við myndina. Það eru mörg minnisstæð atriði t.d. þetta með spangirnar og þegar Kane tekur yfir líkama Steves. Leikararnir eru allir mjög góðir. Craig T Nelson stendur uppúr. Hann leikur bæði ‘góða’ pabbann og svo fær hann tækifæri sem vondi karlinn. Jobeth Williams er mjög góð, Heather O’Rourke leikur meira núna heldur en í fyrri. Zelda er mjög góð sem Tangina og Julian Beck er frábær sem Kane, ótrúlega hrollvekjandi náungi. Brian Gibson gerir ágætis starf sem leikstjórinn, þó að hann sé enginn Stevien Spielberg(Tobe Hooper) en hann sinnir þessu vel. Jerry Goldsmith er aftur með tónlistina og er hún mjög góð(þó ekki eins og þið vitið hvað). Allt í allt, fín mynd en hefði getað verið betri.


sbs : 18.06.2002