Superman IV: The Quest for Peace (1987) Superman IV: The Quest for Peace (1987)

Leikstjóri: Sidney J. Furie
Handrit: Mark Rosenthal, Lawrence Konner, Christopher Reeve
Lengd: 90 mín
Framleiðendur: Menahem Golan, Yoram Globus
Aðalhlutverk: Christopher Reeve, Gene Hackman, Jackie Cooper, Marc McClure, Margot Kidder, Mariel Hemingway
Tónlist: Alexander Courage

sbs: **

Bæði Superman (1979) og Superman II (1980) voru frábærar kvikmyndir, Superman III var ekki eins góð en hún var samt fín. En svo kemur ‘Superman IV: Quest for Peace’, ég veit ekki hvernig þeir fóru að því að gera hana svona ótrúlega misheppnaða. Það virðist sem að allt það sem gerði fyrri myndirnar svona góðar hefur verið rifið niður, gert aftur og reynt að láta koma sem nýtt efni.

Átta ástæður fyrir því að Superman IV er léleg kvikmynd

1) Söguþráðurinn: Ímyndið ykkur þetta, ef þið getið. Það eru líkur á kjarnorkustríði, viðskiptajöfurinn Warfield er að taka yfir ‘Daily Planet’ og ætlar að breyta því í slúðurblað, Perry White er ekki ánægður með það. Dóttir Warfields, Lacy (Mariel Hemingway) verður ritstjóri hjá blaðinu og fellur strax fyrir hinum miklu persónutöfrum sem Clark Kent hefur. Lítill strákur fær þá hugmynd að biðja Superman um að taka allar kjarnorkusprengjur og eyða þeim. Superman fellst á það og allir eru rosa ánægðir, líka löndin sem hafa eytt miklu fé í kjarnorkuvopnin sem Superman tekur.


2) Vondi karlinn: Lex Luthor er komin aftur og er leikin af Gene Hackman. Gene vildi ekki leika í Superman III, ég skil ekki alveg af hverju hann vildi leika í þessari. Aðstoðarmaður hans er ekki lengur Otis (Ned Beatty), núna er frændi hans að hjálpa honum, Lenny (Jon Cryer). Lenny er svona post-sex pistols pönkari, hræðilega leiðinleg persóna.


3) Vonda ráðabruggið: Lex ætlar að nýta sér að Superman sé að fleygja öllum kjarnorku sprengjum til sólarinnar með því að blanda hári Supermans saman við genin hans og setja það í kjarnorkusprengju sem fer svo til sólarinnar, springur og myndar nýtt ofurmenni, NUCLEAR MAN! Nuclear man er ljóska með langar neglur og er í fáránlega ljótri rauðri samfestingu!


4) Lacy Warfields /Clark Kent/Lois Lane/Superman: Fáránlegur ástarferhyrningur þarna á ferðinni. Lacy er ástfanginn af Clark Kent sem er ástfanginn af Lois Lane sem er ástfanginn af Superman! Þau fara auðvitað saman á svona ‘double date’, maður gæti spurt sig, afhverju samþykkti Clark það? Jú, þetta atriðið hefði eitt hvern veginn getað verið fyndið. Clark býr til afsökun um að hann þurfi að fara og þá kemur Superman svo fer Superman og Clark kemur aftur….


5) Superman: Superman hefur breyst. Christopher Reeve vildi gefa Clark Kent meiri dýpt og hefur í rauninni breitt honum í fljúgandi Alan Alda. Það var alveg nóg að hann hefði ofnæmi fyrir kryptonite, ekki láta hann fá flensur líka!


6) Endurunnið efni: Allmörg atriði eru kóperuð úr gömlu myndunum. Eitt langt ofur-dramatískt atriði gengur út á það að Superman og Lois eru fljúgandi um. Í öðru kemst Lois að því að Clark Kent er Superman en hann skellir bara á henni koss og allt er gleymt. Af hverju ætli hann noti þetta ekki oftar?


7) Tæknibrellurnar: Vá! Hefðu þær getað verið verri? Þegar Superman flýgur eru breiðar dökkar línur í kringum hann, sama er um kjarnorku manninn. Það er líka ekki reynt að gera myndina trúlega, í einu atriðinu er Superman fljúgandi í geimnum til að bjarga hjálparlausum rússneskum geimförum. Skikkjan hans sveiflast til! Já, þessi geimvindur getur verið erfiður.


8) Hallærislegt: Ó guð hvað þessi mynd er hallærisleg. Klappið og gleðiköllin sem Superman fær þegar hann er að tala við Sameinuðu Þjóðirnar um að losa heiminn við kjarnorku, samband Supermans við löngu dána móður sína og endirinn þegar Perry White hefur bjargað blaðinu frá glötun.

Ok, hún er leiðinleg og það er slæmt að þetta hafi þurft að enda svona en ég verð að viðurkenna það að það er vel hægt að hlægja að sumu. Hún minnir mig á svona ‘so bad it is good’ kvikmyndir og þessvegna fær hún heilar tvær stjörnur. En það er bara útaf því að Christopher Reeve og Gene Hackman eru fínir og þessum fyndnu atriðum.

sbs : 11.6.2002