Casino Royale (1967) Casino Royale (1967)

Leikstjóri: sjá grein
Handrit: Wolf Mankowitz, Ian Fleming (Bókin), sjá grein
Lengd: 130 mín
Framleiðendur: Charles K. Feldman, Jerry Bresler
Aðalhlutverk: Peter Sellers, Ursula Andress, David Niven, Orson Welles, Joanna Pettet, Woody Allen, William Holden, John Huston, Jean-Paul Belmondo
Tónlist: Burt Bacharach


sbs: **½
Af einhverjum ástæðum keypti Albert Broccoli aldrei réttinn á fyrstu James Bond bókinni sem Ian Fleming skrifaði um njósnarann knáa, Casino Royale. Sagan hafði reyndar verið leikinn í sjónvarpsþættinum ‘Climax!’ árið 1954, það gæti hafa verið ástæðan en ef bókin sjálf er eitthvað lík kvikmyndinni þá er ástæðan ljós. Sagan snýst ekkert sérstaklega mikið um James Bond(reyndar gerði The Spy Who Loved Me það ekki heldur en hún varð að betri kvikmynd) og söguþráðurinn er flóknari en The Usual Suspect!

Eftir vinsældir Dr. No (1962), From Russia With Love (1963), Goldfinger (1964) og Thunderball (1965) var augljóst að einhver mundi grípa tækifærið, kaupa réttinn að bókinni og gera sína eigin Bond mynd og árið 1967 keypti framleiðandinn Charles K. Feldman söguna. Hann ætlaði fyrst að gera venjulega Bond mynd með Sean Connery í aðalhlutverki en það gekk ekki alveg upp hjá honum. Hann ákvað þá að gera paródíu af fyrri myndunum.

Myndin byrjar nokkuð vel. Hinn sanni Sir James Bond (David Niven) er kynntur. Hann er löngu hættur störfum en nafnið hans og númer, 007, hefur verið gefið öðrum manni og Bond er ekki alveg ánægður með hvernig hann hegðar sér. M (John Huston) biður Bond að koma aftur til starfa því að njósnarar um allan heim hafa horfið og ríkistjórn Bretlands, Bandaríkjanna, Frakklands og Sovétríkjanna hafa tekið sig saman til að berjast gegn hinni illu samsteypu SMERSH! Bond neitar fyrst en eftir að húsið hans er sprengt upp og M er drepinn þá samþykkir hann að koma aftur. Fyrsti hálftími myndarinnar er skemtilegur, gert er grín af flestu sem James Bond stendur fyrir, konurnar, tækin og bílarnir en svo fer allt á niðurleið. Sagan fer að verða ótrúlega flókin og samhengislaus.

Í staðinn fyrir fyndið handrit hefur mestum peningum verið eitt í að fá sem flesta þekkta leikara til að koma á skjáinn. David Niven, Peter Sellars, Woody Allen, Ursula Andress, John Huston, Orson Welles, Jean-Paul Belmondo, Jacqueline Bisset og fleiri leikarar koma fram. Fyrir alla leikarana þarf að vera persóna og það eru of margar persónur. Fimm þeirra heita James Bond(David Niven, Peter Sellers, Charles Cooper, Daliah Lavi og ónefndur simpansi) og svo bera nokkrir aðrir eftirnafnið Bond, dóttir James Bonds og Mata Hari, Mata Bond (Joanna Pettet) og frændi James Bonds, Jimmy Bond (Woody Allen).

Ef litið er á nafnaskránna fyrir Casino Royale sést fljótt annar augljós galli. Það eru fimm, já fimm(5) leikstjórar. Val Guest, Ken Hughes, John Huston, Joseph McGrath og Robert Parrish. Það virðist sem myndinni hafi verið skipt í fimm parta og hver leikstjóri hefur fengið sinn hlut og leikstýrt honum síðan hafa þessir hlutar verið settir saman og fáránlegum endi skellt á. Hver hlutur hefur sínar aðalpersónur og kemur hinum hlutunum sjaldnast eitthvað við. Þetta virkar einfaldlega ekki, áhorfandinn situr eftir og spáir hvað í askotanum sé að gerast.

Talandi um að of marga í sama starfinu, sagt er að handritið hafi verið skrifað af Wolf Mankowitz, John Law, Michael Sayers, Woody Allen, Val Guest, Ben Hecht, Joseph Heller, Terry Southern, Peter Sellers, Billy Wilder og svo er þetta nátturulega allt byggt á bókinni eftir Ian Fleming.

Eitt af því fáa sem virkar í myndinni er tónlistin eftir Burt Bacharach. Hún er létt og skemtileg og virkar vel fyrir grín njósnara mynd. En ég saknaði samt James Bond laginu hans John Barrys, það heyrist reyndar í smá stund í atriði með ljónum.

Margar Bond myndirnar eru paródía í sjálfum sér svo að það er spurning hvort það þurfi að gera svona kvikmynd. En það er alveg hægt að horfa á Casino Royale, hún er fyndin á köflum og það er gaman að sjá alla þessa leikara, sérstaklega Orson Welles sem spilafíkillinn skuldugi, Le Chiffre, David Niven og Peter Sellars sem James Bond. Woody Allen er samt ekki í sínu besta hlutverki sem Jimmy Bond aka Dr. Noah, hann er illmennið sem ætlar að sleppa veiru sem gerir allar konur fallegar og alla karla minni en hann…

Einsog ég segi, alltílagi að kíkja á hana en Austin Powers hefur samt gert miklu betri hluti.


sbs : 10.6.2002

<a href="http://www.sbs.is/critic/movie.asp?Nafn=Casino%20Royale">Mynd</a