The Avengers

Það er ekki hægt að neita því að The Avengers er tímamótamynd, sama hvað manni finnst um myndina. Fimm upphitunarmyndir með mismunandi karakterum, einhver eftirvæntasta myndasögumynd sem hefur komið út og inniheldur fullt af gæðaleikurum. Jafnvel þótt þessi mynd hefði verið algjört rusl hefði ég samt sem áður virt þessa seríu fyrir það sem hún reyndi. En sem betur fer er myndin eins langt frá því að valda vonbrigðum og hægt er að hugsa sér.

Myndirnar sem voru uppbyggingin fyrir þessa voru misgóðar. Flestar af þeim voru frekar týpískar en sumar af þeim nýttu aðra hluti til að vera eftirminnilegar, eins og góðan hasar, húmor og sterka karaktera. Myndirnar voru á milli miðjumoðs (The Incredible Hulk) og mjög góðar (Thor) og var hver af þeim mikilvæg fyrir aðalmyndina, þó mismikið. Á meðan það er mjög líklegt að fólk hefur mismunandi skoðanir um hver er besta pre-Avengers myndin efast ég um að það séu margir sem koma með annað svar þegar aðalmyndin er sett með. Sjálfur held ég að ég get talið með einni hendi þær myndir sem eru byggðar á myndasögum sem eru jafn góðar eða betri en þessi og ennþá færri ofurhetjumyndir.

Joss Whedon samdi og leikstýrði myndinni og hefði ekki betri maður getað gert það. Hann fer vel með karakterana, kemur með mjög sterkt handrit og kemur þar að auki með hraða, orkuríka og ógeðslega flotta mynd. Jafnvel með svona mikilli uppbyggingu bjóst ég ekki við SVONA miklu af æðislegu efni. Whedon tekur það besta úr öllum myndunum og blandar því saman og setur líka sinn eigin stíl í þetta. Myndin er spennumikil og inniheldur mikið af flottum hasar en passar sig að karakterarnir fá góðan fókus líka. Það er frekar auðvelt að kalla þetta eina bestu nördafullnægingu sem hefur komið út í kvikmyndaformi.

Það er ekki auðvelt að gera kvikmynd með svona mikið af karakternum en mér fannst enginn af þeim vera skilinn út undan eða fá óþarfa mikinn skjátíma. Fjórir úr hópnum hafa fengið sína eigin mynd til að kynna karakterana og eru þrír af leikurunum ennþá í sínu hlutverki. Robert Downey Jr. (Iron Man), Chris Evans (Captain America) og Chris Hemsworth (Thor) eru allir jafn eftirminnilegir og þeir voru í þeirra eigin myndum og vinna vel saman. Scarlett Johansson (Black Widow) fannst mér koma með miklu meiri lit en hún gerði í Iron Man 2 og fær hennar karakter líka miklu meira að gera í myndinni. Og þrátt fyrir að hún sé eina úr hópnum sem hefur hvorki ofurkrafta né ofurtækni þá gefur hún ekkert eftir.

Sjálfur var ég í smávegis efa hvort Mark Ruffalo væri rétti maðurinn sem Hulk. Hann er góður leikari og hefur sannað það oft, en samt sem áður var þessi efi hjá mér. Efinn varð að engu eftir nokkrar senur og gefur leikarinn ekkert eftir hinum. Frammistaða hans er betri en frá þeim sem léku Hulk áður (Edward Norton og Eric Bana) og fær hann alveg jafn sterkan karakter og hinar útgáfurnar sem voru þar aðalfókusinn. Jeremy Renner (Hawkeye), Samuel L. Jackson (Nick Fury), Clark Gregg (Coulson) og Stellan Skarsgård (Selvig) hafa allir komið fram í að minnsta kosti einni mynd áður (Renner í svona mínútu í Thor) og fá þeir allir meira að gera núna og var enginn af þeim fyrir vonbrigðum.

Síðan er það auðvitað illmennið, Loki, leikinn af Tom Hiddleston. Ég var mjög ánægður að þessi karakter var hér, enda hafði ég mjög gaman af honum í Thor, enda fékk hann mjög góðan karakter þar. Hérna er hann bættari og er hér klókari, hnittari, óhugnalegri,  og er frammistaða Hiddleston ekkert til að kvarta yfir. Ég held að atriðin þegar hann var í fangelsinu sýnir vel hvernig þessi karakter er.

Hasaratriðin eru þó nokkur og ná að vera nógu fjölbreytileg, flott og skemmtileg til að manni leiðist ekkert. Það var líka ferlega gaman að sjá að bardagarnir voru ekki alltaf góðir á móti vondum. Myndin hefur rosalega byggingu upp í lokabardagann og er hann hátt í fullkominn. Hann er langur, stór, vel gerður, vel kvikmyndaður (að mestu leyti), skiptir vel á milli karakteranna, húmorinn er aldrei langt frá og er einfaldega tussuflottur með fullt af æðislegum hlutum. Það er langt síðan ég hef séð eins fullnægjandi lokabardaga frá dýrri sumarmynd.

Annað sem gerir þessa mynd stórkostlega er handritið, sem var samið af Whedon og Zak Penn. Ég minntist áðan á að myndin nær góðum fókusi á alla karakteranna en það er miklu meira en það sem er gott við handritið. Dramað og samskiptin á milli ofurhetjanna, flæðið, húmorinn og hversu snjallt það er. Myndin hefði auðveldlega virkað með veikara handriti en Whedon er ekki þekktur fyrir það, heldur setur hann og Penn alvöru metnað í handritið.

Síðan eru líka brellurnar stórkostlegar, myndin er vel kvikmynduð og klippt, tónlistin er epísk, myndin er löng og stór og þjáist ekki af því og er húmorinn er mjög góður. Þetta er ekki langt frá því að vera hin fullkomna sumarmynd. Og þrátt fyrir að myndin er miklu betri ef maður hefur séð upphitunarmyndirnar, þá stendur hún auðveldlega á eigin fótum, fyrir utan nokkrar spurningar sem eru útskýrðar í hinum myndunum.

Sumarmyndir gerast ekki eins skemmtilegar og þessi, og sömuleiðis kvikmyndir byggðar á myndasögum. Þessi mynd á örugglega eftir að verða ein af bestu myndum ársins, og það segir sitt miðað við hversu mikið af (vonandi) góðum myndum munu koma út á þesssu ári. Hún á samt sem áður örugglega eftir að verða sú skemmtilegasta. Christopher Nolan og Marc Webb þurfa að standa sig vel ef þeirra ofurhetjumyndir eiga eftir að vera sambærilegar.

9/10