High Crimes Forsýnd í Regnboganum 30. maí 2002.
Með aðalhlutverk fara Ashley Judd, Morgan Freeman, Jim Caviezel, Amanda Peet og Adam Scott.
Handrit myndarinnar gerðu Yuri Zeltser og Cary Bickley eftir samnefndri skáldsögu Joseph Finder.
Leikstjóri er Carl Franklin.

Finder er m.a. þekktur fyrir The Moscow Club, Extraordinary Powers og The Zero Club, sem eru að mestu ádeilur á starfsemi CIA og bandarísk yfirvöld.

High Crimes fjallar um Claire Kubik (Ashley Judd) sem lifir draumalífinu: velgengni í starfi, fallegt hús og síðast en ekki síst, hinn fullkomni eiginmaður. Sá sem hún elskar og þekkir betur en nokkur annar. Eða hvað?

Claire, ásamt eiginmanni sínum, verktakanum Tom (Jim Caviezel), eru ástfangin upp yfir haus og eru farin að huga að barneignum. En þegar brotist er inn í hús þeirra, fer í gang atburðarrás sem skekur draumalífið svo um munar. Fyrirvaralaust stendur Claire frammi fyrir þeirri ógnvænlegu staðreynd að allt sem hún hélt hún vissi og treysti í fari eiginmanns síns og lífi þeirra saman, gæti hafa verið lygi frá byrjun. Verður það upphafið að hennar verstu martröð. Hefst þá barátta hennar gegn hinu sérstaka réttarkerfi bandaríska hersins og þeim yfirhylmingum og spillingu sem þrífst innan þess.

Með hjálp fyrrverandi lögmanns innan hersins, Charlie Grimes (Morgan Freeman), sem má muna sinn fífil fegurri, og nýgræðingsins Lt. Embry (Adam Scott), hefur Claire baráttu sína gegn kerfinu til að sanna sakleysi eiginmanns síns, en með því hættir hún bæði starfsframa sínum og lífi .

Myndin er mjög vel gerð, söguþráðurinn er þéttur og má sjá hvern stórleikinn á fætur öðrum. Að venju fer Morgan Freeman á kostum auk þess sem Ashley Judd sýnir hreint frábæran leik. Þrátt fyrir þokkalega spennu, sem leikstjórinn nær að halda út alla myndina, er mikill húmor í sögunni sem gerir hana ansi ólíka öðrum samsæriskenningamyndum. Endirinn svíkur engan og mæli ég hiklaust með að sem flestir sjái þessa mynd. Hún er vel peninganna virði.