Í lok síðasta árs og byrjun þessa hafa orðið töluverðar breytingar á bíómarkaðnum hér á höfuðborgarsvæðinu. Risið hefur glæsilegt nýtt bíóhús(Smárabíó), lagt hefur verið niður eitt gamalt bíóhús(Stjörnubíó), lúxussalir hafa bæst við bíóflóruna og síðast en ekki síst bendir allt til þess að enn eitt nýtt bíóhús rísi og þá í grafarvoginum á vegum sambíóanna. Mig langar að fjalla um þessi bíóhús og gefa þeim einkunn. Gaman væri að heyra ykkar skoðun.


“Smárabíó”
Þetta bíó finnst mér bera höfuð og herðar yfir önnur bíó. Glæsilega hannað með öllum nútíma þægindum. Allir salir hafa gott hljóðkerfi svo og stórt tjald, jafnvel í minnsta salnum. Sæti eru mjög þægileg. Bíóið hefur einnig lúxussal og selur bjór sem getur verið mjög þægilegt. Ég man svartsýnina í sumum sem héldu að þarna yrði stanslaust fyllerí. Ókostirnir eru fáir og litlir. Laser showið getur verið ansi óþolandi og þá sérstaklega þessi reykur. Ég hef líka stundum orðið var við það að hljóðkerfið er of hátt stillt. Gef þessu bíóhúsi 9 af 10 mögulegum.


“Háskólabíó”
Þetta bíó er komið nokkuð til ára sinna. Það hefur þó einn mjög góðan kost og það er stærð salanna. Það hefur stærsta tjald landsins og er því alltaf töluverð upplifun að sjá myndir á því. Hefði viljað sjá Lord of the Rings á því tjaldi. Aðrir salir eru líka mjög stórir og margir jafn stórir og stærsti salur annarra bíóa. Galli bíósins er hljóðkerfið og ekkert sérstök sæti. Hljóðkerfið verður að segjast ekkert sérstakt. Gef Háskólabíó 7 af 10 mögulegum.


“Laugarásbíó”
Salur eitt er mjög góður. Nokkuð stórt tjald og mjög gott hljóð. Hinir salirnir eru hinsvegar ekkert til að hrópa húrra yfir. 6/10


“Regnboginn”
Ég bý rétt hjá þessu bíói en fer samt nánast aldrei í það. Hlýtur að segja eitthvað um gæðin. Þetta bíó er hið versta sem ég hef farið í. Salur eitt er eins og minnsti salur í öðrum bíóum. Hljóðið er ekkert sérstakt. Bíóaðsókn hefur mjög farið dalandi í miðbænum og það er ekki af því að fólk þar hafi ekki áhuga á að fara í bíó. Fólk vill bara meiri gæði og fer því frekar eitthvað annað. Nú á að fara reisa tónlistarhús í miðbænum og mér finnst vera kominn tími á að reist verði glæsilegt risabíó þar líka. Í öllum öðrum stórborgum eru glæsileg bíó í miðbænum. Þetta gæti orðið gott til að lífga uppá miðbæinn sem hefur farið dalandi undanfarin ár. Gef Regnboganum 3 af 10 mögulegum.


“Kringlubíó”
Besta Sambíóið. Hef reyndar bara komið í sal 1. Góður halli, nokkuð stórt tjald og mjög gott hljóð. Bara þó nokkuð nútímalegt þótt það komist ekki nálægt gæðum Smárabíós. Gef því 7 af 10 mögulegum.


“Sambíóin Álfabakka”
Stærsta Sambíóið. Salur eitt er ágætur með ágætu hljóði en þó er gólfið með fáránlega lítinn halla. Salur 2 er þeim til skammar. Einn versti salur landsins að mínu mati. Aðrir salir eru bara svona lala. Gef bíóinu 6 af 10 mögulegum.


“Sambíóin Snorrabraut”
Eins og í svo mörgum öðrum bíóum er salur eitt ágætur en hinir salirnir lélegir. Reyndar eru hinir salirnir hörmulegir. Þeir eru minni en svefnherbergið mitt sem þó er lítið. Þetta sýnir að maður ætti að borga minna á mynd þegar hún er komin í minni sal. Ég meina að fyrir miklu minni gæði ætti maður að þurfa að borga minna. Gef þessu bíó 5 af 10 mögulegum.


Nú væri gaman að heyra ykkar skoðun. Mig langar líka til að spyrja einnar spurningar. Veit einhver hvenær sambíóið í grafarvoginum mun rísa? Mig langar líka að vita hversu stórt það verður og hversu glæsilegt.